Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Enn eitt stórafmælið

Fótósjoppnámskeiðið í Borgarnesi borgaði sig fyrir frænda.
Fótósjoppnámskeiðið í Borgarnesi borgaði sig fyrir frænda.
Tertan úr Bernhöftsbakaríi.
Tertan úr Bernhöftsbakaríi.

Líf mitt hefur verið svolítið jól- páskar-afmælið mitt-jól-páskar og það árum saman. Afmælisveislan er ígildi jólakorta og uppbót fyrir öll matar- og kaffiboðin sem ég held aldrei. Síðast sendi ég jólakort á níunda áratug síðustu aldar, einmitt um svipað leyti og árlegu kökupartíin hófust (1987). Og með árunum fóru þessi boð að marka upphaf samkvæmislífs vetrarins á Íslandi ...

Enn eitt kökuboð var haldið í gær, í tilefni 56 ára afmælis. Við Madonna jafnaldra eldumst víst eins og aðrir og bara fjögur ár í að við teljumst "eldri borgarar" ef við leyfum vissu tímariti fyrir eldri borgara að ákveða/skilgreina slíkt. Veðrið var svo gott, eins og alltaf á þessum degi, að nokkrir gestanna sem koma alltaf úr bænum í afmælið, tóku þá ákvörðun að flytja á Skagann „af því að það er alltaf svo gott veður hérna.“ Akranes, höfuðborg Vesturlands, skartaði sínu fegursta og daginn áður var slegið, rakað og hirt allt í kring, hreinsibíll mætti á kamrana við sandinn, bláfáninn blakti, sólin skein og allt hjálpaðist að við að hafa allt sem glæsilegast.

Halldór fjandi hafði stofnað leynigrúppuna Afmælisplott á Facebook, sem ég fékk alls ekki aðgang að. Djöfulleg ráðabrugg hans hafa orðið mér til margrar mæðunnar svo ég bjóst við því versta, allra, allra versta. Hann hafði kúgað mig til að fá að ráða áletruninni á afmælistertuna góðu úr Bernhöftsbakaríi, og láta Sigga bakara vita hvað yrði ... og þar sem Halldór hefur hvort eð er verið aðalráðgjafi minn í þeim málum um langa hríð, ákvað ég að treysta honum Hann gæti varla gengið lengra en hann gerði eitt árið: Dofri Hvannberg, til hamingju með fyrsta fallhlífarstökkið 10. ágúst 200X. „Ha?“ sðgðu gestirnir. „Ég fékk hana ódýrt,“ sagði afmælisbarnið. Svo fór það eftir innræti gestanna hvort þeir héldu að Dofri hefði hætt við stökkið eða eitthvað annað ...

Tertan glæsilega kom um fjögurleytið og Siggi bakari mætti með hana sjálfur, stoppaði allt of stutt, svo mikið er að gera í Bernhöfts, honum er nær að selja rúnnstykkin á 50 kall. Hilda systir setti álpappír ofan á tertuna og stóð vörð um hana því ég mátti ekkert sjá strax. Biðin eftir Halldóri hófst ... en þegar gestir voru farnir að urra og bíta af hungri, sagði ég gjörsovel, það má borða allt nema sjálfa afmælistertuna. Og þetta „allt“ var bara hellingur. Mömmurnar (mommur.is), hugmyndaríku elskurnar, mættu með HEKLS ANGELS-tertu, listilega flotta, einnig brauðtertu og litlar bollakökur í tugatali. Lena sendi mér kornfleks-marenstertu og Nanna kom með skyrtertur og lakkrísköku. Ég hafði ákveðið að spara brauðtertukaup og kaupa mér frekar buxur í Nínu, svo ég gerði bara nokkrar brauðrúllutertur og tortillur með rjómaosti og fleiri ostum og rækjusalat og Hilda keypti niðursneitt snittubrauð um leið og hún sótti kaffivélina og brúsana sem ég leigði af Kaffitári, ásamt kaffinu og sótti líka mömmu og tertuna frá Lenu. Brjálað að gera hjá litlusystur.

Svo kom Halldór - með stóra ferðatösku í eftirdragi. Hann færði mér hana og áhugasamir veislugestir fylgdust spenntir með. Mér var sagt að opna hana, ég hlýddi en taskan var tóm. „Kíktu betur,“ sagði einhver og í hliðarnetinu (sorrí, fótboltamálið) var A3-pappírsörk. Ég kíkti á hana og sá efst: Landhreinsunarátakið Gurrí burt. Og fótósjoppaða mynd af mér sem flugdólgi. Og neðar stóð: Haust 2014 Seattle-ferðasjóður og svo upphæð sem nægir fyrir miða og vænum farareyri, og nöfn þeirra sem gengu í Afmælisplott-hópinn. Plott Halldórs var sem sagt að fá gesti til að leggja í púkk til að losna við mig úr landi, til Elfu vinkonu í Seattle. Þetta var ansi hreint gleðilegt og óvænt, alveg magnað að öllum þessum fjölda sem tók þátt hafi tekist að þegja yfir þessu. Svo var áletrunin á tertunni afhjúpuð og þá skiljanlegt hvers vegna hún var leyndarmál.

Þetta var óvæntasta afmæli frá upphafi ... dagurinn algjört æði frá upphafi til enda. Hófst með því að elskan hann Jakob hringdi í mig kl. 6.59 og söng afmælissönginn og endaði á því að ég hét mér því, eins og ár hvert, að vera nú tilbúin með allt deginum áður, þá þyrfti ekkert að gera á sjálfan afmælisdaginn nema dúlla og dedúa. Ég hef t.d. verið ómáluð í afmælinu mínu árum saman, og það er ekki vegna þess að ég vilji vera náttúruleg í útliti ...

Að öðru: Guðbrandur (köttur) er hér enn, ekkert bólar á eigandanum, og elsku karlinn var lokaður inni í þvottahúsi meðan veislan stóð yfir og Keli og Krummi inni í svefnherberginu mínu. Þetta eru allt soddan mannafælur, öfugt við Tomma og Kubbsu heitin, sem voru ógurlega ánægð þegar komu gestir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.