Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Örlagarík sumarsængurkaup

Þótt mér finnist haustveður með tilheyrandi lægðum og látum eitthvað það skemmtilegasta sem til er hef ég fulla samúð með sóldýrkendum ... á þessum árstíma. Ég vona innilega fyrir þeirra hönd að sumarið muni haga sér almennilega það sem eftir er, eða fram í september. Hámarkshiti þó 15°C. Það eru bara svellin og hálkan sem ég þoli ekki (hata) og við erum mörg sama sinnis. Ég gekk meira að segja í Facebook-hópinn Stuðningssamtök fólks sem labbar ótöff í hálku. Þar erum við þúsundum saman og miðlum af hroðalegri reynslu okkar í hálku, veitum hvert öðru stuðning og gefum góð ráð. AA-samtökin hvað? Mér finnst líklegt að ég gangi með gróft salt í kaffimáli á mér næsta vetur til að komast frá heimili mínu út á stoppistöð og úr leið 24 í Ásgarði yfir í leið 23. Ég mun aldrei gleyma því þegar ég þurfti að skutla mér inn í 23 að aftan þegar dyrnar voru í þann mund að lokast. Þá mögnuðu frásögn má lesa á bls. 12, 13, 14, 15 og 16 í Sérstæðum strætóferðum, 4. tbl. 2014.

Núna undanfarið, þegar lárétt rigningin hefur hreinsað himnaríkið mitt að utan eins og kraftslanga, hef ég þjáðst af samviskubiti. Hvers vegna? Eins og allir vita fer eitthvað lögmál stundum í gang þar sem allt sem getur farið úrskeiðis fer úrskeiðis. Flestir hafa lent í því. Ég er orðin nánast viss um að sá „glæpur“ minn að kaupa ódýra sumarsæng í Rúmfatalagernum nú í vor hafi haft einhver áhrif. Ekki hafði ég haft hugmynd um að til væru sérstakar sumarsængur og kippti því feginsamlega með mér einni slíkri og hlakkaði til að nota hana ef hitinn yrði óbærilegur, færi jafnvel upp í 15°C og ég er ekki að grínast. Sængin reyndist eins og lofað var, svöl eins og eigandinn (djók) en núna síðustu vikur, allt of svöl. Það hefur þurft heilt heimaheklað lopateppi og stundum flísteppi þar ofan á til að hægt sé að sofa fyrir kulda. 

Ég er ekki mikið fyrir samsæriskenningar en ber mikla virðingu fyrir lögmálum. Þau umgengst maður ekki af neinni léttúð. Í fúlustu alvöru held ég að þegar ég hafði fest kaup á sumarsænginni hafi eitthvert afl sem stýrir lögmálum farið af stað í Smáranum og tautað. „Jæja, svo hún heldur að sumarið verði hlýtt, best að koma henni í skilning um að ekki sé hægt að ganga að neinu vísu í lífinu.“ Og svo: „Múahahahaha“ Og þetta bitnaði ekki bara á mér og orsakaði kaldar og skjálfandi sumarnætur, heldur landsmönnum öllum og ferðamönnum. Ég mun því skipta út sumarsænginni minni, sem átti að vera lúxus sumarsins 2014, fyrir gömlu sængina mína sem er ögn hlýrri, og þá ætti þetta að hafast. Ég mun þó áskilja mér þann rétt að dá og dýrka fjölbreytilegt veðurfar Íslands ... og fækkun geitunga.

Írskir dagar voru æði. Solla kom og sótti mig í götugrillið á föstudeginum rétt fyrir kl. 18, þegar ég var enn á nærfötunum að þurrka á mér hárið. Fótbolti tafði baðferð. Við höfðum talað um upp úr klukkan sex en sumir eru stundvísari en aðrir ... Vön fljótheitum kláraði ég sætleikann á þremur mínútum sléttum og þaut út, Solla var sallaróleg og glöð, eins og alltaf þrátt fyrir biðina. Leið okkar lá heim til Petu, elsku skólasystur minnar sem vorkennir mér ógurlega yfir því að blokkin mín nenni ekki að grilla. Eftir forréttaveislu var haldið ÚT (í alvöru) í leikskóla í grennd þar sem leyfi fékkst til að grilla á lóðinni, því ögn meira skjól var þar fyrir sturluðum vindhviðunum. Við snæddum þar besta grillmat sem ég hef smakkað, lambalæri og tilheyrandi, og í frábærum félagsskap íbúa Skógahverfis. Ég nennti ekki að eltast við salatblöðin mín um alla lóð, enda fuku þau svo sem beint út í sjó. Ég kvarta ekki, enda var það ég sem keypti sumarsængina.

Daginn eftir var haldið niður á Akratorg með viðkomu á nýja og æðislega kaffihúsinu okkar Skagamanna, Vitakaffi (í sama húsi og Galito veitingahús, á móti tónlistarskólanum og Krónunni) og keypti mér latte. Og í fyrsta skipti frá því ég flutti á Skagann tók ég Rvíkurstrætó niður á torg, svo mikil ömurð var þetta rok. Hárið á mér var viðbjóður og erfitt að halda reisn í rokinu, kaffimálið hefði líka getað fokið. Antíkmarkaðurinn átti að vera í tjaldi á torginu en við (ég fékk að leika búðarkonu) fengum inni í stóru húsnæði rétt hjá, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn var með kosningaskrifstofu í vor. Þrátt fyrir stórar myndir í gluggum af sætu frambjóðendunum kom það ekki í veg fyrir að örgustu kommúnistar létu sjá sig og keyptu antík. Seinna um daginn vorum við Guðný sendar í Vitakaffi til að kaupa neyðar-latte og þrátt fyrir langa biðröð í kaffi og kökur létum við okkur hafa það. Þegar loks kom að okkur sagði Guðný að okkur lægi mikið á. Eigandinn sagði þá að hún léti senda okkur kaffið niður eftir þegar það væri tilbúið. Innan við hálftíma seinna kom kaffið okkar og tilveran varð ein hamingja eftir það.

Mynd: Írskir dagar 2014. Ef myndin er skoðuð vel sést rokið sem ríkti kvöldið sem götugrillið var haldið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.