Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Óboðinn næturgestur

Að muna nánast alla afmælisdaga vina og vandamanna (og sumra bekkjarsystkina úr barnaskóla) og flest póstnúmer landsins hefur oft komið sér vel. Í gær var til dæmis brúðkaupsdagurinn minn gamli og ég mundi eftir því. Komin 34 ár síðan ég giftist fyrsta eiginmanni mínum sem hélt upp á fyrsta brúðkaupsafmælið okkar með því að fara út í búð og kaupa litsjónvarp svo við gætum horft á Karl prins og Díönu Spencer giftast í lit, einhverjum dögum síðar. Rúmu ári síðar fékk hann litsjónvarpið og ég bækurnar og ekki leið á löngu þar til hjónaband Díönu og Karls leið undir lok líka. Það er ótrúlegt hversu líf mitt og bresku konungsfjölskyldunnar hefur í raun verið samofið. Ekki nóg með að ég hafi skilið eins og Díana, heldur lentum við Elísabet II báðar í því að fá ókunnan mann á rúmstokkinn. Minn fór dyravillt á Hringbrautinni (gömlu verkó þar sem allar útihurðir eru eins) og var bara fullur að koma af djamminu, klappaði Fjólu kisu sem lá til fóta og auðvelt reyndist að tala hann inn á að yfirgefa svæðið. „Gestur“ Elísabetar hafði öllu einbeittari brotavilja, komst fram hjá tugum lífvarða sem voru víst allir reknir eftir þetta. Lífvörður minn, 10-11 ára sonurinn, svaf þetta af sér og aðstoðarkisa hans, Fjóla, malaði bara sátt við klappið. Támína, dóttir hennar, hefur væntanlega forðað sér undir rúm. Sumt ósmekklegt fólk í kringum mig furðaði sig á því að ég hafi ekki notað tækifærið, þið vitið, en á þessum tíma einskorðaðist daðurkjarkurinn við aðra menn sem ég fékk heimsenda, eða þá sem hringdu dyrabjöllunni hjá mér, meðal annars trúboða, matvörusendla úr Kjötborg, stefnuvotta, rannsóknarlögreglumenn, rafvirkja, sölumenn, meindýraeyða og menn í geislavarnarbúningum. Allt varð mun erfiðara þegar þeir tóku upp á því að koma tveir saman eða jafnvel kvenkyns.

Næstsíðasti markaðsdagurinn var haldinn á Akranesi í mikilli sumarblíðu í gær og í þriðja skiptið fékk ég að vera búðarkona á antíkmarkaðnum. Mig grunar að sonur minn hafi komið þessu á með einum eða öðrum hætti. Fólk sem vinnur í kókosbolluverksmiðjum borðar ekki kókosbollur ... og ég kaupi ekki mikið af antík þegar ég stend sveitt við að selja antík, það segir sig sjálft. Kom þó heim með lítinn hnött (sjá mynd). Á laugardaginn næsta, um verslunarmannahelgina, verður síðasti markaðurinn haldinn, antík, krydd og krásir, tónlist og fleira skemmtilegt ... Hlusta nú á bráðskemmtilegan disk með hljómsveitinni My Sweet Baklava (frá Akranesi) sem kom út í fyrra. Þeir sem eru óðir í að hlusta á flotta músík finna diskinn í 12 tónum og Eymundsson. Tónlistarmarkaðurinn var bara með diska (og plötur) með Akranes-uppruna og ef það tryggir ekki gæði, veit ég ekki hvað.

Umferðin hefur verið ótrúlega lítil á Vesturlandsvegi upp úr kl. 7 síðustu morgna ... eins og að vera á rúntinum í Búðardal, segir Tommi bílstjóri og hann fer aldrei með fleipur. Allir greinilega fyrir austan í sólinni. Samt þarf Tommi að halda áætlun, má ekki vera of snemma á ferð ... og þess vegna missir hluti farþega alltaf af strætó í Mjódd. Ég græt til dæmis með Bjarna í hjarta mínu þegar ég hoppa glaðbeitt inn í bakarí í Mjódd til að kaupa mér latte því vagninn minn fór fyrir korteri og kemur eftir korter, Mikið vona ég samt að strætó leggi fyrr af stað frá Borgarnesi á morgnana, bíð spennt eftir nýju vetraráætluninni. Það gæti þó þýtt hér í himnaríki að vekjarinn hringi klukkan 5.55 og þá tekur því varla að fara að sofa.

Myndin er frá markaðinum góða á Akranesi og tekin um kl. 13, skömmu áður en allt fylltist af fólki.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.