Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Óvinirnir miklu ...

„Svei mér þá, það eru bara engar kóngulær á svölunum,“ sagði ég alsæl við soninn eftir að hafa gert örstutta vettvangskönnun þar áðan. „Þetta er ábyggilega af því að ég spreyjaði* vatni með nokkrum dropum af Tea Tree-olíu yfir allt saman, og líka gluggana,“ Ekki var tekið undir þetta, heldur fullyrt að „barnabörnin mín“ gæddu sér á litlu kóngulónum jafnóðum og þær kæmu inn á yfirráðasvæði kattanna. „Hvað með stóru hlussurnar sem hafa búið á eldhúsglugganum á hverju sumri og sjást ekki núna?“ Ekkert svar. (*Prófarkalesararnir í vinnunni afléttu nýlega banninu á orðinu sprey en í nokkur ár höfum við þurft að skrifa sprei.)

Ekki að kóngulær skipti mig miklu máli, þótt ég hafi alist upp við að þær væru skaðræðiskvikindi, lúmsk og stórhættuleg. Mamma fór á þrívíddarbíómynd í æsku þar sem kóngulær fóru hamförum og borðuðu fólk og hún öskraði svo mikið að það þurfti að fjarlægja hana úr kvikmyndahúsinu. Eftir það mátti hún ekki sjá kóngulær án þess að garga og stökkva upp á stól. Það tók mig heilt ár í London (1976) og sérstaklega eitt hroðalegt atvik þar sem risakónguló rann niður eftir handleggnum á mér kvöldið eftir að ég hafði drepið hana, að átta mig á því að íslenskar smákóngulær væru kannski ekki jafnstórhættulegar og mér hafði verið innrætt. Ég fer nánast aldrei út á svalir - er orðin svo miklu meiri áhugamanneskja um inniveru á sólskinsdögum. Horfði á heimildamyndina á RÚV í gær um skaðsemi sólargeisla og dáist að skynsemi minni til svo margra ára. Ég reyni að hugsa ekki um allar ferðirnar mínar með Höllu frænku í Sól og sælu á níunda áratug síðustu aldar sem gerðu mig ekki bara brúna, heldur höfðu þær sérkennileg hliðaráhrif og ollu hjá mér lífstíðarógeði á sundlaugaferðum. Í Sól og sælu voru einkabúningsklefar og einkasturta. Það vandist ótrúlega vel og eftir veturinn 1986-1987 var ég gjörbreytt án þess að gera mér grein fyrir því. Vorið 1987 fór ég í sund með soninn og fékk algjört áfall sem gæti líklega kallast sturtusjokk. Vissulega var vel troðið af kvenfólki í sturtu- og búningsklefum og nánast blóðugur bardagi um hverja sturtu. Í huga mínum hljóma enn smellirnir þegar rassar rákust saman ... og ég hef lifað hreint ágætu lífi án sundlauga síðan. Og sólarlampaæðið heyrði einnig sögunni til, enda var ég þá komin í ástarsorg og hafði nóg að gera næstu tvö árin við að borða súkkulaði, horfa á sorglegar myndir og rækta tregann. Ég var svo grönn á þessum tíma að ég hafði bara gott af því að bæta á mig og svo bættist enn meira við þegar ég hætti að reykja nokkrum árum seinna. Fólk hætti alveg að segja að ég væri allt of grönn ...

Svo liðu tuttugu ár og rúmlega það. Góð ár án sundlauga og sólbaða. Ég var þekkt í Vesturbænum sem þessi hvíta fegurð, stundum undanrennubláa. Eftir flutninga til Akraness, eða skömmu eftir þá, fékk ég suðursvalir. Það var reyndar svolítið eins og fleygja perlum fyrir svín. Engin þolinmæði að sitja þar, ekki einu sinni þótt spennandi bók væri við höndina. Samt tókst sólinni að hefna sín illilega, fyrir sína hönd, ljósalampa og sundlauga. Einn örlagadag var myndataka í vinnunni og það var farðað að vanda. Við heimkomu var meikið fjarlægt með blautum þvottapoka. Ég skellti síðan á mig feitu græðikremi til að hugga húðina eftir álagið. Í einhverju heimskukasti settist ég út á svalir í um það bil korter. Kremið góða virkaði eins og fínasta steikingarolía og útkoman varð annars stigs bruni. Og ég var ekki einu sinni í sólbaði, bara sat og spjallaði við soninn þessa stuttu stund. Sólin grimma var ekkert að pæla í því, heldur skein skært og vægðarlaust. Þegar ég var loks búin að jafna mig skall hrunið á. Ég held að það hafi ekki verið tilviljun.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.