Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Æsandi strætóferð

Akranes er dásamlegur staður, eins og allir vita, og ekki minnkuðu dásamlegheitin þegar antík- og matarmarkaður fór í gang á laugardögum í sumar. Ekki grunaði mig hvert ferð mín þangað um helgina myndi leiða mig ... allavega ekki að mjög svo æsandi strætóferð í dag sem var jafnframt aðför að sakleysi mínu.

Síðasta laugardag var mikið líf og fjör, eins og laugardaginn þar á undan og á 17. júní, og fjöldi fólks mætti á Akratorg. Nokkrum metrum vestar, eða á Suðurgötunni, á móti bakaríinu, var Bára ljósmóðir (með meiru) með bílskúrsmarkað. Á þeim stað hófst í raun ferlið sem náði hámarki í Mosfellsbæ og ögn síðar á Kjalarnesi seinnipartinn í dag þar sem ég var á heimleið með strætó. Forsagan: Jú, jú, á markaði Báru keypti ég Aloa Vera-safa sem er allra meina bót og einnig hirti ég nokkrar bækur, þær voru gefins fyrir gesti og gangandi: Stórskemmtilegar sögur af prestum (Prestasögur eftir Oscar Clausen, 1. og 2. bindi, Ísafoldarprentsmiðja, 1960) og einnig nokkrar (fjórar) ástarkiljur ... Svona kiljur sem geta verið fínasta afþreying, auðgleymdar og léttar í burði á milli póstnr. 300 og 210. Bækur sem heita nöfnum á borð við Ástir og örlög á berklahælinu, Bifvélavirkinn sem kunni ekki að elska, Villimaðurinn taminn, Fórn holdsveikralæknisins  ... o.s.frv.

Í gærkvöldi byrjaði ég á fyrstu kiljunni sem ég hirti hjá Báru en sofnaði þó eftir nokkra kafla. Hafði vit (eða óvit) á því að skella henni í töskuna mína í morgun til að hafa eitthvað að lesa í strætó en var alveg búin að gleyma um hvað hún var. Í morgun rifjaðist það upp. Hún er um barnabókahöfund sem við eigin húsdyr bjargar ókunnum smiði, ísköldum og skjálfandi, úr snjóskafli. Það hefði vissulega átt að verða mér viðvörun þegar hún (barnabókahöfundurinn) skalf pínkulítið af girnd, samt dauðhrædd, þegar hún dró blaut fötin af meðvitundarlausum smiðnum eftir að hafa mokað hann út úr snjónum og dregið hann inn í húsið.

Eftir að hafa unnið eins og berserkur í nokkra klukkutíma, dró ég bókina upp aftur, þá í leið 24 að Mjódd, og las nokkrar blaðsíður. Komst að því að hávaxni, dökkhærði og vöðvastælti smiðurinn væri strokufangi. Ranglega sakaður um morð á konu sinni og ætlaði að gera allt til að sanna sakleysi sitt og endurheimta unga dóttur sína sem svo skemmtilega vildi til að elskaði bækur barnabókahöfundarins. Í leið 57 hélt ég áfram lestrinum og í Mosfellsbæ varð bókin allt í einu mjög æsandi. Saklausi og blíðlyndi barnabókahöfundurinn hafði aldrei upplifað aðra eins „sælu“ og með smiðnum. Strax á Kjalarnesi kom önnur „sæla“ ... Hvað var eiginlega verið að skrifa svona mikið um morð og sönnun á sakleysi þegar hægt var að skrifa ... um sælu? Þetta er einhver mest æsandi ferð sem ég hef farið með strætisvagni, að meðtöldum ferðum í hvínandi hviðum upp á 30 m/sek plús og gargandi óvissuferðum í ófærð. Æsku minni og sakleysi lauk endanlega þarna, enn einu sinni. Ég var búin með bókina þegar við ókum inn á Akranes og blóðið nánast hætt að sjóða í æðum þegar á Garðabraut var komið. Það var eiginlega ótrúlega rólyndisleg miðaldra kona sem stökk út úr strætó eftir þessa örvandi lífsreynslu og hélt heim á leið til að fara að vinna og ... búa heimilið undir óveðrið á morgun. Það þarf að fjarlægja trampólínið af svölunum, binda niður kartöflurnar í kartöflugarðinum á vesturhluta svalanna, taka inn kryddjurtir og sumarblóm, negla niður sumarsófasettin og -stólana og breiða dúk yfir þyrlupallinn, svo fátt eitt sé talið. Það verður létt verk eftir þessa dásamlegu strætóupplifun. Hver þarf kærasta þegar bækur búa yfir svona sælu? En hvar finnur maður annars smiði?

Myndin tengist færslunni beint. Þess má geta að antík- og matarmarkaðurinn er haldinn á hverjum laugardegi kl. 13-17 til og með 2. ágúst, á Akratorgi. Maturinn (plús æðislegt kaffihús á 3. hæð, kaffi og tertusneið á 700-800 kall) er í gamla Landsbankahúsinu, gegnt styttunni af sjómanninum en antíkmarkaðurinn er úti, fyrir framan Landsbankahúsið. Hægt að fara í pikknikk á nýuppgerðu og flottu Akratorgi. Teppi og körfur fást að láni. Gosbrunnur og allt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.