Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Óhappadagur ... eða hvað?

Undanfarna þrjá morgna hef ég vaknað með mikinn svima. Það er eiginlega dásamlega fyndið hvað það getur flýtt för manns í morgunönnunum að þurfa að hlaupa hratt í sömu átt og maður er að detta í. Verandi hjúkkudóttir fór ég náttúrlega létt með að sjúkdómsgreina mig með vöðvabólgu svo ég beit á jaxlinn, studdi mig bara við veggina og hélt flökurleikanum í skefjum með viljastyrk. Síðast þegar ég studdi mig svona við veggi, húsveggi reyndar, var ég á leiðinni niður lóðrétt Gilið á Akureyri, þakklát fyrir að ekki var hálka.

Í gærmorgun, föstudaginn þrettánda, um kl. hálfsjö ákvað ég að fara með sérstakri gát út í daginn, rjúka ekki strax í strætó, heldur jafna mig í rólegheitum og taka frekar næsta vagn. Meiri von um að slaga ekki út á stoppistöð en ekki er hægt að halda sér í margt á leiðinni. Sár hálkureynsla hefur kennt mér það. Þetta var ágætis hugmynd þótt ég sé sannarlega ekki búin að fá leið á Tomma bílstjóra. Elskan hún Þórdís sat undir stýri og kom okkur örugglega í Mjóddina. Líðanin var orðin mun betri svo næsti áfangastaður var bakaríið. Pólski verslunarstjórinn útbjó guðdómslegan latte fyrir mig en svo mikið var að gera í bakaríinu og það var föstudagurinn þrettándi að ég missti af leið 24 í Garðabæinn. Ég hló innra með mér, það er ekki svona auðvelt að spæla mig ... bara dró upp bók og las á meðan ég dreypti á kaffinu. Gemsinn hringdi og hressandi samræður hófust við Hafnfirðinginn minn, meðal annars um meintan gribbuskap og eyðileggingarmátt kveneldfjalla gegn meintri góðmennsku og yfirvegun karleldfjalla.

Föstudags-þrettánda-og-fulls-tungls-raunum mínum var sannarlega ekki lokið. Við komuna í Ásgarð hálftíma síðar sá ég leið 23 renna inn á stæðið. Ég settist inn í vagninn, enn í símanum, en sjokkeraður bílstjórinn tjáði mér að nú væri hann að fara í hálftíma pásu. „Ég geng þá bara,“ sagði ég hughraust og vonaði að geitungarnir væru enn sofandi. Ég villtist aðeins um undirgöng og lystigarða Garðabæjar, en fann loks Lyngásinn og fetaði mig af öryggi í vinnuna. Enn í símanum þar sem samtalið var farið að snúast um nýútkomnu ljóðabókina Velúr (sem er ferlega skemmtileg).

Í hádeginu bauð vinkona mér í súpu í Súfistanum í Hafnarfirði. Æðisleg gulrótar- og kókossúpa og latte (munið að biðja sérstaklega um nýmjólk) á eftir. Nánast við hliðina á kaffihúsinu sáum við saddar og sælar vinkonurnar dularfulla búð, fulla af reykelsum, kertum, mussum og alls konar flottheitum, nánast eins og 1001 nótt hefði vaknað til lífsins. Vinkonan keypti sér þar sérlega fagran appelsínugulan klút og svo vorum við leystar út með reykelsi og æsispennandi olíu. Sjálfur Beggi, bróðir Bubba Morthens, einnig tónlistarmaður, rekur þessa búð sem einbeitir sér að slökun og vellíðan viðskiptavina, og ég er ekki frá því að ég hafi verið mun skárri af vöðvabólgunni þegar ég kom út.

Lífið er eitt eilífðarstefnumót við fólk og eftir nokkurra klukkutíma strit í vinnunni hitti ég Halldór fjanda sem bauð mér líka í mat. Miðað við hve langt er síðan einhver hefur sagt mér að ég væri allt of grönn finnst mér fólk ansi hreint duglegt við að sjá til þess að ég borði. En hvað um það. Í gáfulegum og yfirveguðum samræðum okkar fjanda varð mér að orði að mér fyndist að hann ætti að hoppa upp í r***gatið á sér. Hann þakkaði hvatninguna en sagðist ekki hafa áhuga á að stunda jóga.

Frænda varð tíðrætt um lágmenningarsmekk minn þegar ég heimtaði að fá að horfa á Spán-Holland. Hann fór að brjóta saman þvott í hneykslan sinni á meðan ég naut fótboltans. Þegar staðan var 1-2 fleygði hann mér upp í Mjódd þar sem leið 57 beið eftir mér, áköf í að skutla mér heim þar sem RÚV plús-stöðin beið enn spenntari eftir því að leyfa mér að sjá restina af leiknum. Ég fann ekki fyrir svima þegar ég hentist upp himnaríkiströppurnar og kveikti á sjónvarpinu inni í heklherbergi. „Nú er það svart,“ sagði ég bitur en orðheppin við sjálfa mig þegar ég sá að plússtöðin (takk, Vodafone) sýndi bara svarta litinn, hljóðlausan að auki. Í algjörri uppgjöf kallaði ég fram í stofu: „Hvernig fór leikurinn?“ Svarið skipti svo sem ekki öllu, enda held ég með Þýskalandi. Kann ekki við annað eftir að hafa fengið það svar við persónuleikaprófinu Which World Cup team are you? Það var sjálf Kolbrún Bergþórsdóttir bókmenntagagnrífandi sem vakti fyrir alvöru áhuga minn á HM (og EM) fyrir fjöldamörgum árum. Mig minnir að við höfum farið saman á Glaumbar þetta ár til að horfa á úrslitaleik á milli Brasilíu og Ítalíu þar sem Baggio klúðraði mikilvægu víti. Held ég muni þetta rétt. Hún naut þess aðallega að horfa á lærin á strákunum, eins og hún hefur oft og tíðum sagt opinberlega, en ég held að ég sé alveg jafnbrjáluð í karlmenn og hún þótt ég njóti þess nú bara að horfa á leikinn sjálfan. :)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.