Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Fastir liðir

Tókst að hafa mig til á aðeins korteri í morgun og er eiginlega fáránlega sæt miðað við það ... en ekki mikið meira en það. Tommi bílstjóri sjokkeraðist allavega ekkert yfir fegurð minni þegar ég stökk inn í vagninn og fór að telja farþegana með honum, enda í gangi skrásetning heimsbyggðar úr hópi fólks sem tekur leið 57 hjá Strætó bs - talning eins og svo oft áður.

Ég reif kjaft við indæla manninn á Kjalarnesi sem borgar alltaf með greiðslukorti - en það tefur okkur um 30 sek. á mann - en hann getur hvergi keypt miða - sjoppan á Kjalarnesi sögð of lítil til að verða þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að selja kort eða miða. Þetta varð til þess að þegar við renndum, aðeins of seint, í hlað í Mjódd, máttum við horfa upp á þann hrylling að leið 21 var að aka á brott þótt biðin eftir okkar manni hefði aldrei orðið lengri en 10 sek. í viðbót. Tommi flautaði en allt kom fyrir ekki. Þetta kostaði bið í hálftíma fyrir Mosó-manninn. Leið 24 beið eftir okkur hinum og skvísan sem sat undir stýrii bauð okkur hressilega góðan daginn. Við vorum bara tvö í morgun sem fengum far með henni í Ásgarð en oft erum við fimm.

„Leggja fimm mínútum fyrr af stað frá Borgarnesi,“ tautuðu farþegarnir sem sárvorkenndu Mosómanninum. Vissulega hefði hann getað reikað um Mjóddina þennan hálftíma og stytt sér stundir í Nettó eða Bakarameistaranum. Það fæst meira að segja plötulopi í Nettó og eflaust heklunálar líka svo þar var tækifæri til að gera gott úr öllu saman.

Hressa konan á bensínstöðinni í Garðabæ hélt uppteknum hætti og reyndi að hössla fyrir mig mann ... eða far í Lyngásinn. Eins og leið 23 gangi ekki beint upp að dyrum... Í morgun var það ótrúlega mikill töffari á fjórhjóli sem hún sá sem vænlegt fórnarlamb/ökulamb. Maðurinn tók alls ekki illa í að skutla mér í vinnuna en sagði aðeins eitt koma í veg fyrir það. Það var hvorki aldur minn né fyrri störf, heldur skortur á aukahjálmi.

Hitti nýlega gamlan (og gigtveikan) kunningja minn í Mjóddinni að morgni til. „Já, aðalfundur Gigtarfélagsins verður fljótlega. Það verða fastir liðir eins og venjulega,“ sagði hann. Ég var komin á Dalveginn þegar ég náði þessum ...

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.