Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Hekl gegn ástarsorg

Lögin við vinnuna í dag voru auðvitað Júróvisjónlögin. Á Pressunni var upprifjun á 100 bestu lögunum (1956-2013). Þrjú íslensk komust á þann lista. Eitt lag enn lenti í 51. sæti og franska lagið hennar Heru Bjarkar í 38. sæti. Ég hló en með nokkurri beiskju þegar ég sá að Jóhanna Guðrún rústaði þarna norska fiðluleikaranum sem rústaði henni í sjálfri keppninni 2009. Hún er í 29. sæti en sá norski í því 35. Enginn Gleðibanki, rússneska lagið frá 2010 komst ekki á blað frekar en Páll Óskar - og Ruslana situr í 59. sæti. Þvílikur listi ...

Í gær átti mamma áttræðisafmæli og við fórum nokkur með henni á Sjávargrillið við Skólavörðustíg og snæddum afmæliskvöldverð. Þvílíkur matur og þvílík dýrðarþjónusta. Þetta var gjörsamlega meiriháttar upplifun og það í sérlega góðum félagsskap að auki. Verst að við gleymdum að syngja afmælissönginn lágt, eins og við Gummi höfðum komið okkur saman um. Mjög lágt. Mamma lék á als oddi og ég vildi ekki eyðileggja daginn fyrir henni með því að benda henni á að aðeins fimm ár eru þar til þrjú af fjórum börnum hennar lenda á lista yfir eldri borgara. Svona glæsileg og flott kona getur bara ekki átt svo öldruð börn, hugsaði ég með mér þegar ég ákvað að tala frekar um landhelgismálið (með áherslu á árið 1975) og verndun svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum.

Þegar George Clooney atvinnuleikari opinberaði trúlofun sína á dögunum var fyrsta hugsun mín sú að hann væri algjörlega tilfinningalaus gagnvart þeim aragrúa kvenna sem elska hann og þrá. Hilda systir er óhuggandi ef marka má status hennar á Facebook þennan dökka dag, og mig grunar að hinar systur mínar beri einfaldlega harm sinn í hljóði. 

Eru karlar kannski tilfinningalausir upp til hópa? Ég hef stundum á tilfinningunni að þeir séu einfaldlega ástarsorgarvélar sem hafa verið smíðaðar til að rústa viðkvæmum hjörtum. Hef svo sem ekkert fyrir mér í því ... NEMA NOKKRAR ÁSTARSORGIR! Rannsóknir mínar síðustu árin hafa reyndar leitt í ljós að einhverjir karlar búi mögulega yfir einhverjum tilfinningum. Þá meina ég helst aldurshópana yngri en sjö ára og eldri en 75 ára, eiginmenn vinkvenna minna og nokkra feisbúkkvini sem ég veit að eru með tilfinningar. Það sést greinilega þegar Liverpool eða Arsenal eða MU eða Tottenham eða West Ham tapa leik. Einnig hef ég heyrt að sumir strætóbílstjórar séu með tilfinningar.

Með árunum hef ég lært að takast á við ástarsorgir á þroskaðan hátt. Mér finnst til dæmis gott að setjast í góðan stól og tauta endurtekið: F***jú. Vissulega getur stöku tár fallið sem er reyndar skaðlegt fyrir plötulopann því hann þolir bara vökva með hitastig upp að 30°C. Plötulopa? gæti einhver hugsað undrandi, er það ekki eitthvað sem maður heklar úr? Jú, en hekl er nefnilega gott gegn ástarsorg. Það hef ég líka lært af sárri reynslu. Einnig er gott að hlusta á sérhannaða ástarsorgartónlist. Ég mun fela öll mín tár með Hljómum fjölgar tárum og sama má segja um Lost and Forgotten, framlag Rússa í Júróvisjón eitt árið (2010, ef ég man rétt) svo ég mæli ekki með þeim lögum nema maður vilji rækta ástarsorgina. Lag á borð við Sonne með Rammstein gerir ekkert nema herða mann upp ... alveg fram að næstu ástarsorg.

Þessi færsla átti að vera um Júróvisjón en fjallar nánast eingöngu um hekl við ástarsorg. Sorrí með mig. Ég vona svo að allir njóti þess að horfa á söngvakeppnina og að Pollapönki gangi vel ... eða endi að minnsta kosti ofarlega á næsta lista yfir 100 bestu Júróvisjónlögin. Jæja, yfir og út, keppnin er að byrja!

Myndin tengist færslunni óbeint og sýnir svokallað Heklgos. Svona getur farið ef maður lendir í of mörgum ástarsorgum á stuttum tíma..

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.