Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Flissað á Dalvegi

Sérlega heimilislegt er að hafa elskuna hann Tomma undir stýri á Skagastrætó. Hann stoppaði við gáfufólksstoppistöðina á Garðabraut, tók okkur þrjú upp í en af því að við erum kortafólk urðum við ekki vör við neitt óvenjulegt fyrr en á næstu stoppistöð ... eða að skiptimiðavélin væri biluð. Hann lét kortalaust fólk (með miða eða þúsundkall) borga einfalt gjald og vakti það lukku því fólkið fattaði ekki að það þyrfti að borga í Reykjavík líka ... djók.

Heill hellingur af körlum af sætukarlastoppistöðinni í Mosfellsbæ heiðraði okkur með nærveru sinni og tveir þeirra eltu mig yfir í leið 24 í Mjódd. Annar þeirra dæsti yfir veðrinu og var svartsýnn á að geta sett niður kartöflur uppi í bústað. „Hvar er sumarbústaðurinn þinn?“ spurði ég. „Skammt frá Geysi,“ svaraði hann. „Úúúú, aðeins nær Geysi og þú getur tekið upp soðnar kartöflur í haust,“ sagði ég ofboðslega fyndin. „Eða franskar,“ sagði hann enn fyndnari. Við orguðum úr hlátri hálfan Dalveginn.

Þreföld vakning í morgun kom mér óvenjusnemma á fætur í morgun, eða kl. 6.03. Síminn gargaði við hliðina á mér (frítt að vekja hjá Vodafone), gemsinn í töskunni enn hærra og Keli sem kvartaði ógurlega undan þessum hrikalega hávaða mjálmaði hátt. Það var eins gott því mig dreymdi einhvern viðbjóð um vélmenni, minnir mig. Svona er að hafa horft (í fyrsta sinn) á sænska vélmennaþáttinn á RÚV fyrir svefninn. Þulurinn varaði við áður og sagði þetta ekki þátt fyrir ung börn. Ég fæ  ítrekaðar sannanir fyrir því að ég muni ekki eiga heima á lista eldri borgara eftir fjögur ár, eins og feisbúkkvinir mínir, fjórum árum eldri, hafa lent í undanfarið. Hvar eru endajaxlarnir? (Svar: Enn á sínum stað) Hvar er ellifjarsýnin (Svar: Enn ekki komin) og hvar er minnkandi svefnþörfin sem ég  hlakkaði svo til að öðlast? (Til að geta lesið meira). Segi nú svona.

Myndin tengist færslunni sæmilega beint.

Chuck Norris kastar ekki upp ef hann drekkur of mikið. Chuck Norris kastar niður.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.