Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Óvæntar sendingar

Ekki var ég fyrr búin að ýta á VISTA í síðustu bloggfærslu þegar allt fylltist hér af áfengi. Sem ég veit ekkert hvaðan kemur.Óskiljanlegt. Laumulegir menn hafa læðst frá húsinu en það gæti einnig tengst öðrum íbúum. Kannski frambjóðendur til bæjarstjórnar sem vita að það verður húsfundur á laugardaginn kemur, kosningadaginn ... en hvaðan allt vínið kemur og hvers vegna verður líklega óleyst gáta um aldir alda.

Ég hef ekki alveg staðið við þetta matarblogg sem ég lofaði, enda skyr í aðalrétt og latte í eftirrétt kannski ekkert ógurlega myndvænt og spennandi þótt gott sé. En hér kemur þó uppskrift að morgunverði sem hressa konan á bensínstöðinni í Garðabæ laumaði að mér.

MORGUNVERÐUR, væntanlega himneskur: Eitt epli, skorið í litla bita sett með dassi af haframjöli ásamt vatni í pott og soðið saman. Þetta á að malla í mauk, sagði hún. Síðan er sett vel af kanil (ekki kanilsykri), 1 msk. chia-fræ og dass af goji-berjum. Þetta á víst að vera bæði hollur og bragðgóður morgunverður. Hér með er uppskriftinni komið á framfæri. Ég hef ekki prófað þetta en treysti konunni algjörlega. Þeirri sömu sem reynir endalaust að hössla far handa mér í vinnuna - sem heppnaðist tvisvar. Í annað skiptið þekkti ég gaurinn (hún biður bara stráka) og í hitt skiptið var maðurinn að leita að dekkjaverkstæðinu sem er á móti vinnunni minni og opnar ekki fyrr en kl. 9 eða 10 sem ekkert okkar vissi. Ég fékk far og var mætt vel fyrir átta en sársvekktur maðurinn þurfti að leita að öðru dekkjaverkstæði. Hann fékk þó allavega að skutla mér í vinnuna en leið 23 fær yfirleitt þann heiður.

P.s. Þegar Chuck Norris segir upp kærustunum sínum segir hann: „Það var ekki ég, það ert þú.“

Myndin tengist færslunni beint.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.