Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Trúi ekki á bölvanir en ...

Skemmtilega fólkið sem ég vinn með er með léttvínsklúbb og í dag, útdráttardag, var ég spurð af hverju ég væri ekki með. Fyrir utan aukna ástleitni (ókei, lauslæti) af völdum drykkju held ég að helsta ástæðan sé heppni mín. Ég sé fyrir mér að ég hreppi pottinn og þurfi að burðast með allt þetta brennivín frá 210 Garðabæ, í gegnum 201 Kópavog, 200 Kópavog, 109 Reykjavík, 110 Reykjavík, fram hjá 112 Reykjavík, 270 Mosfellsbæ og gegnum 301 Akranes að 300 Akranesi ... allavega. Reyndar bara með þremur strætisvögnum. Kannski eru átta manns í leið 23, fjórtán í leið 24 og fimmtíu plús/mínus í leið 57 og hvað myndi allt þetta fólk hugsa? Það tæki ansi marga edrúdaga að leiðrétta það, og hvað ef ég ynni nú pottinn í hverri viku?

Kettirnir hafa sýnt mér heilmikla samúð undanfarið, sem og allt annað karlkyns nema sá sem faðmar allar konur nema mig. Allt of langt er síðan ég hef fengið græðgisfullt augnaráð og vegna anna í vinnu tók ég ekki eftir því. Í gær rann þó upp fyrir mér ljós. Ég hef ekki farið í klippingu síðan í desember á síðasta ári og ég ætti að vita hvaða áhrif það hefur á kynþokkann. Hafði ekki einu sinni vit á að ganga í kynþokkabolnum sem mamma gaf mér í afmælisgjöf um árið. Kalin brjóst eru svo sem lítt sexí, held ég. Las einhvers staðar að slíkt bægði athyglinni frá slæmum „héradegi“ ... Ég hringdi í Önnu Júlíu á Classic og pantaði neyðarklippingu. Heppni mín orsakaði að einhver þurfti að fresta klippingu sinni svo síðdegis í dag varð umbreytingin mikla og ég er orðin verulega skæsleg (gamalt tískuorð komið aftur). Ósk tannlæknir þarf bara að bíða til næsta vísatímabils með eftirlitið.

Fjóla í bókabúðinni var í klippingu þegar ég mætti, alltaf gaman að hitta hana. Það var hún sem laumaði eitt sinn bók í póstkassann minn, gamalli bók sem ég bloggaði um og var forvitin um hvernig árin hefðu farið með (Óskilabarn 312). Ég notaði tækifærið og spurði hana hvort yfirstjórn Eymundsson stæði enn á banninu við erlendum kiljum en Eymundsson heddoffiss hætti að senda Skagamönnum slíkar bækur í flottu bókabúðina okkar í fyrra. Enn engar til, nema þá bækur um Ísland fyrir ferðamenn, eins og þá langi ekki til að lesa metsölubækur á ensku. Síðast keypti ég The Hit eftir David Baldacci á 1999 kr. en skömmu eftir það var fallið frá allri erlendri kiljusölu hér á Skaga. Enskukunnáttan á eftir að hrapa svo hratt.

Þar sem heppnin hittir mig ætíð fyrir á bílaplaninu við fyrsta húsið á Akranesi (apótekið, Dóminós, Ævintýrakistan áður en hún hætti, Classic hárstofa og Bónus) mætti ég elskunni honum Sigþóri sem skutlaði mér heim, fleygði mér út á ferð svo hjólkoppunum yrði ekki stolið og brunaði beinustu leið til baka aftur því frúin var að koma heim á Skagann með strætó. Þeim sama vagni og ég ætlaði með á Garðabraut. Hann er alltaf svolítið seinn á föstudögum, margt fólk og mikil umferð, og á það treysti Sigþór sem gat ekki hugsað sér að horfa upp á vinkonuna nýklippta og húkandi í roki og rigningu, enda lítið skjól af ljósastaurnum sem ég hélt mér í, lárétt í verstu hviðunum.

Ég trúi ekki á bölvanir en þegar ég lýsti leik ÍA og VíkingsÓ beint á Facebook í kvöld gerðist eitthvað yfirnáttúrulegt og ógnvekjandi. Frá og með þeirri stundu sem ég hóf lýsinguna og staðan var 2-0 fyrir okkur, fór allt að síga á ógæfuhliðina. Óvinurinn (sem Ó-ið stendur óneitanlega fyrir) skoraði þrjú mörk í röð! Hér með er ég hætt að lýsa fótboltaleikjum. Sé til með HM.

P.s. Chuck Norris getur kyrkt óvin sinn með þráðlausum síma. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.