Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Mergjað matarblogg

Um kl. 18.30 í kvöld ákvað ég að verða vinsæll matarbloggari og veita m.a. Nönnu og Evu Laufeyju verðuga samkeppni. Ekkert meira bull um hekl og ástarsorgir, strætóferðir og sæta ketti. Hér er fyrsta færslan:

Uppskrift: 2-3 msk. kotasæla, kúfaðar - 8 sneiðar agúrka, 1/2 gul paprika, 2 ostsneiðar, 2 skinkusneiðar.

Aðferð: Skerið grænmetið niður. Gott er að hafa gúrkusneiðarnar svolítið þykkar og skera hverja þeirra síðan í fjóra bita. Hafið paprikusneiðarnar svipaðar að stærð. Takið aðra skinkusneiðina og leggið ostsneið af svipaðri stærð ofan á hana. Rúllið þeim upp í snotra lengju á meðan þið hugsið ekki um mögulega sorglega útkomu sveitastjórnakosninganna. Endurtakið við hinar sneiðarnar. Þið getið einnig haft ostinn sem neðri sneið og þá sjáanlega ef ykkur finnst vanta gulan lit í réttinn. Að þessu sinni hafði ég skinkuna utanverða til að diskurinn yrði ekki of gulur. Opnið kotasæludós og látið ekki koma ykkur úr jafnvægi þótt síðasti söludagur hafi verið í gær. Óupptekin dós sem rann út í gær er enn góður matur. Takið tvær, jafnvel þrjár kúfaðar matskeiðar af kotasælunni og komið henni smekklega fyrir við hliðina á grænmetinu sem þið hafið komið varlega og af smekkvísi fyrir á diskinum. Reynið að bægja frá áhyggjum vegna greiðslu„leiðréttingar“ ríkisstjórnarinnar sem nýtist ekki þeim verst settu og leggið ost- og skinkulengjurnar hjá kotasælunni, jafnvel í hálfhringi. Leyfið sköpunargleðinni að ráða og hugsið ekki um vaxandi kynþáttahatur á landinu. Þetta er fljótlegur og afar bragðgóður réttur sem ég fann upp á nú í kvöld. Auðvelt er að útbúa hann, svo auðvelt að allir ættu að geta það. Njótið. Án efa er gott að hafa rauðvín eða hvítvín, jafnvel koníak, með þessum rétti en ég drakk reyndar bara vatn með og síðan latte á eftir, enda laugardagur og öll óregla leyfileg.

Næst ætla ég að vera með soðinn fisk og kartöflur (ekki franskar) á matarblogginu mínu. Eða pastarétt, eða kannski sjúklega góðu chili-grænmetissúpuna sem Sigga Dögg kenndi mér að elda.

Þið verðið ekki fyrir vonbrigðum með þetta matarblogg. Ég kann að elda svo marga rétti og er hætt þessari matreiðsluminnimáttarkennd og í stað þess að búa mér til hindranir bý ég til mat ... legg ekki meira á ykkur. Ég hef um langa hríð hugsað mér að giftast (trúlofast allavega) manni sem kann að elda en þegar ég hef kynnst slíkum mönnum vilja þeir mig ekki af því að ég kann ekki að elda eins góðan mat og þeir. Nú sný ég vörn í sókn. Matarbloggarar eru líka eftirsóttir, til dæmis í sjónvarpinu. Kannski enda ég sem kynþokkafullur sjónvarpskokkur og þá munu nú sumir karlpungar hoppa upp í smekkleysið á sér.

Sem vinsæll og virtur matarbloggari tek ég mér það bessaleyfi að nöldra yfir þeirri sérstöðu örfárra góðra kaffihúsa að hafa léttmjólk sem sjálfsagðan fyrsta kost út í latte. Á þremur stöðum í Reykjavík þarf ég að segja hátt og snjallt: „Einn latte, takk. Flatan (cappuccinofroða á ekki að vera í latte) með NÝMJÓLK og ekki logsuðuheitan.“ Hámarkshiti á mjólk út í latte er 160°F (þetta þarf visst bakarí í Mosó að vita eftir að hafa skaðbrennt á mér tunguna, Ásta sagði mér að hætta þessum sérþörfum að biðja um „ekki sjóðandi heitan“ og ég hlustaði á hana í þetta eina skipti). Mér finnst fínt að fá latte-inn um 150°F heitan (man ekki Celsiusinn). Léttmjólk er sérþarfir (eins og t.d. sojamjólk eða hrísmjólk) og hið besta kaffi (hráefni) verður grátt og verulega ólystugt og ekki jafnbragðgott þegar hún er notuð. Hún á samt að vera í boði því sumum sérvitringum (Önnu vinkonu, Hildu systur o.fl.) finnst betra að hafa létta mjólk í kaffinu sínu. Sem betur fer hafa Te og kaffi og Kaffitár ekki tekið upp á þessum ósóma.

Myndin tengist færslunni beint og er af kvöldmatnum mínum. Þið eruð með uppskriftina. :)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.