Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Mæðradeginum bjargað

Mæðradagurinn er víst í dag en ég efast um að einkabarn mitt hafi áttað sig á því - hvorki barst smáblóm né fékk ég smáþakklæti fyrir fyrirhöfnina við að koma því í heiminn.

Í stað þess að sitja full (hehe) beiskju heima hjá mér í dag fór ég í bröns hjá dásamlegum mæðgum hér í bæ. Þar með lærðist mér að með því viturlegra sem hægt er að gera í lífinu er að þiggja boð frá fólki daginn eftir Júróvisjónpartí. Ekki hvaða fólki sem er, til dæmis væri ekki snjallt að heimsækja mig. Hér var soðinn fiskur í kvöldmat í gær og kettirnir sáu hratt og vel um þann litla afgang sem varð - aðallega Krummi því Keli þarf að vera á sérfæði (vegna þvagsteina). Vissulega bað ég soninn fyrr um daginn að kaupa eitthvað sniðugt í sjoppunni, „eitthvað Júróvisjónlegt en ekki snakk ... þú veist,“ sagði ég skýrt og greinilega. Hann er ekki alinn upp við slík partí, var 6 ára þegar Ísland tók fyrst þátt svo hann hefur marga Júróvisjónvonbrigðafjöruna sopið og þá kannski fundist harla lítið tilefni til hátíðahalda. Hann keypti nefnilega kassa af Rískubbum. Einn kassa! Við vorum auðvitað búin með innihald kassans ÁÐUR en keppnin hófst. Brönsveislan í dag í góðum félagsskap tveggja mæðra bætti samt algjörlega fyrir þetta og bjargaði mæðradeginum. Ég óska öllum mæðrum heims innilega til hamingju með mæðradaginn. 

Samkvæmt þarfapýramída Maslows þurfum við vatn, súrefni, öryggi, viðurkenningu, knús og slíkt. Ég held að „slíkt-ið“ hljóti að innihalda góðan fótbolta og Formúlu 1. Enn er ég hálfráðalaus varðandi Formúluna þar sem „vonda fólkið“ á Stöð 2 ákvað að hafa útsendinguna frá keppninni í læstri dagskrá í ár. Jú, ég hef séð nokkrar keppnir í gegnum Netið (nema þegar mér er boðið í bröns). Sjúkk, hvað ég er ánægð með að RÚV sýni HM í fótbolta.

Svo er það knúsið. Sagt er að hver manneskja þurfi að minnsta kosti 20 sekúndna faðmlag á hverjum degi til að dafna og vera hamingjusöm. Það getur þó verið flókið í framkvæmd ef samskiptin við vini og ættingja fara að miklum hluta fram í gegnum Netið og ritstjórinn minn ekki búinn að koma upp nýjum samskiptareglum í vinnunni. Rafrænt knús er víst ekki nóg. Ég fann samt ráð við þessu. Og það í gegnum kaldlyndan náfjanda minn sem finnur sífellt upp á einhverju kvikindislegu til að gera aldraðri frænku sinni lífið leitt. Frændinn á nefnilega nuddstól! Nuddstól sem knúsar - ekki þó af mikilli hlýju og væntumþykju - meira svona af stillingu - en reyndar ... þegar mig vantar hlýju sest ég upp í bílinn hjá frænda og ýti á einn takka. Ekkert væl, bara lausnir, krakkar mínir! Það hljóta allir að eiga frænda/frænku sem á nuddstól og bíl með hitara í sætum.

Myndina hér að ofan tók ástkær frændi minn (og gleðigjafi) um árið. Bað mig um að stilla mér upp nákvæmlega þarna svo landslagið sæist nú vel ... Myndin birtist hér á blogginu árið 2011 en á maður ekki að rifja reglulega upp mannvonsku í sinni tærustu mynd? Ég man líka eins og gerst hefði í gær þegar hann sagði hátt og snjallt þegar við biðum við afgreiðsluborðið á taílenskum veitingastað hér á Akranesi: „Hvað heitirðu aftur? Ég man bara nikkið þitt á einkamál.is.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.