Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Sjokk á Facebook

Nú logar Facebook. Nokkrir vinir mínir þar, 59 ára+, konur sem karlar, fengu sent í pósti tímarit fyrir eldri borgara og eru í sjokki. Ég reyndi að hugga eina Fb-vinkonuna (59 ára) með því að segja að það gengi mun betur að selja auglýsingar í slík blöð eftir því sem lesendahópurinn væri stærri, því hefði verið seilst í miðaldragengið ... Aðrir vinir/fjandmenn hennar voru ekki svona huggandi: „Það er ekkert að því að eldast.“ „Elskan mín, þú færð góðan afslátt.“ „Aldur er afstæður.“ Hún var reyndar ekkert að kvarta yfir því að eldast.

Well ... tímarit fyrir eldri borgara, kannski það sama, var víst í póstkassanum mínum fyrir skömmu (ég er 55 ára, búin að vera löglega miðaldra í fimm ár) en sonur minn skildi það eftir niðri því hann VISSI að þetta hlytu að vera mistök. Mér fyndist vissulega frekar fyndið að fá slíkt tímarit sent en ég hugsa að mömmu fyndist það enn fyndnara, hún myndi öskra úr hlátri ef hún uppgötvaði að hún ætti börn sem teldust vera eldri borgarar. Börn sem hún gefur páskaegg á hverju ári, börn sem eru í fullri vinnu (1) eða skóla (2) eða fastandi (1). Að vísu frétti ég einu sinni að kona nokkur hefði sent son sinn (70 ára) á elliheimili af því að hann var svo leiðinlegt gamalmenni og hún treysti sér ekki til að búa með honum lengur.

„Ég skil ekki af hverju þið systkinin gangið ekki út,“ dæsti vinkona mín um daginn og bætti við. „Eins og þið eruð öll stórfengleg, falleg, gáfuð, fullkomin, dásamleg, stórkostleg, gáfuð, falleg osfrv. ... „Já, ég veit það,“ svaraði ég örvingluð, „en ég held að ég viti ástæðuna. Við þjáumst mögulega af áfallastreituröskun eftir ofbeldi í æsku. Það hefur áhrif á sjálfstraustið og ...“ „Ha?“ greip vinkonan fram í, „ofbeldi?“ „Ójá, ofbeldi, hvað kallar þú það að neyða ofan í mann mat á borð hræring, siginn fisk, reyktan fisk, þverskorinn fisk, grásleppu, rauðmaga, saltkjöt, súrt slátur og slíkt, annað en ofbeldi gegn börnum? Það átti sko að kenna okkur strax að lífið væri ekki dans á rósum.“

Vinkonan hélt áfram. „Sástu Ísland í dag þar sem rætt var við Biggest looser-konuna sem lenti í öðru sæti? Sú er sæt. Henni leið víst mjög illa þegar hún var svona feit.“ „Biddu, ég held að aukakíló hafi engin áhrif á útgangelsi mitt eða systkina minna sem eru af öllum stærðum og gerðum.“ Ég dró andann djúpt, sármóðguð. „Strákar eru brjálaðir í mjúkar konur og aðrir strákar ekki jafnbrjálaðir í þær en-“ Ég róaðist ekki fyrr en vinkonan sagðist hafa vaðið úr einu í annað og þetta hefðu verið tvö algjörlega ótengd umræðuefni. Ég mundi síðan skyndilega eftir því að hún er líka af hræringskynslóðinni og hefur samt gengið út tvisvar. Tommi bílstjóri veit ekkert betra en hræring ... Líklega verð ég að hugsa þetta upp á nýtt. Kannski hafði sonurinn rétt fyrir sér um árið þegar hann sagði að ég væri allt of löt í djamminu. Næsta föstudagskvöld ætla ég nú samt að horfa á Útsvar þar sem Akurnesingar og Reykvíkingar keppa um Ómarinn. Ég hvet fólk eindregið til að halda með Akranesi en ekki þessum lopadrekkandi latte-treflum og þetta segi ég þótt ég hafi búið meirihluta ævinnar í Reykjavík, uppáhaldsdrykkurinn sé latte og ég hafi heklað fleiri lopatrefla en ég hef tölu á síðustu átta mánuði. Áfram Akranes! 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.