Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Hviðumet og furðuleg þöggun ...

Dreif mig heim frekar snemma í dag, eða með hálffjögurstrætó frá Mjódd, en hann er gleðileg nýjung fyrir suma en leiðindabreyting fyrir aðra (var áður hálfþrjú-strætó, þar áður korter í fjögur strætó frá Mosó), því hvassviðri er í grennd og „önnur óféti“ (einhver talaði um snjókomu). Það leiðir hugann að veðrinu um síðustu helgi ...

Ég þarf að hrósa Orkuveitu Reykjavíkur, eða öllu heldur Önnu vinkonu, fyrir að halda rafmagninu á Skaganum. Þannig var samviskubitið minna yfir því að vera veðurteppt og ég gat gert heilmikið gagn heiman frá mér, vinnulega séð. Þetta var nú meira veðrið. Í raun er ég ótrúlega hneyksluð á því að það hafi ekki verið fyrsta frétt fjölmiðla að hviðurnar (ein) á Kjalarnesi fóru upp í 64 metra á sekúndu þegar verst var. Þöggunin var svo mikil að talað var um að hviður væru um og yfir 50 m/sek. sem er reyndar hroðalega mikið, en á einhverri öræfaheiði sem enginn hefur heyrt minnst á fóru hviður upp í 70 m/sek. og það þótti fréttnæmara ... Hrmpf.

Það var ógnvekjandi og jafnframt spennandi að fara með fyrstu strætóferð á mánudaginn síðasta. Bæði höfðu verið breytingar á tímaáætlun (spennandi) og svo sáust víða ummerki stormsins (ógnvekjandi) á leiðinni. Skagamenn eru upp til hópa með miðilshæfileika svo þeir vissu að búið væri að flýta ferðum í bæinn (kl. 6.29 frá Akratorgi) en það var spurning með Kjalnesingana og aðra sem búa nær fögru höfuðborginni okkar. Eitthvað kom fátt af fólki inn á Kjalarnesinu og í stað fjögurra töffara við Leirvogstungu kom bara skólastrákurinn á harðaspretti, hinir misstu af vagninum. „Ertu ekki of snemma á ferðinni?“ spurði hann bílstjórann, lafmóður og örugglega dauðfeginn því að hafa lagt óvart allt of snemma af stað. Karlarnir á sætukarlastoppistöðinni í Mosó skiluðu sér allir. Næstu morgna fjölgaði okkur svo og nú vita vonandi flestir að við erum fyrr á ferðinni. Eftir þessar breytingar er ekkert stress í gangi við að ná í Ártún kl. 7.21 þar sem fullur vagn af fólki þýtur út í sexuna eða leið 15 á leið í vinnu/skóla niður í bæ. Við vorum reyndar aðeins seinni í morgun, enda hálka á leiðinni.

Hraðamyndavélin á Kjalarnesi (á norðurleið) fauk um koll í fárviðrinu, líka grænn stór trukkur sem valt yfir grindverkið í beygjunni niður í Kollafjörð. Eina martröðin mín í strætó - er að við fjúkum þarna yfir og út í sjó, en hún rætist varla vegna strangra hviðutakmarkana Strætó bs ... Á ónefndri netsíðu sem miðlar hafa hreiðrað um sig og ég kíki stundum á mér til skemmtunar og endalausrar gleði, má lesa um að veðrið verði svona í vetur, vikuleg fárviðri, skelfilegir jarðskjálftar, gos og önnur læti. Ég vildi að ég fyndi svona hluti á mér. Ég fæ bara hugboð um að ég vinni ekki í happdrætti, að það verði örugglega djúpsteikt lasagna í mötuneytinu, að Taken 2 sé ekki jafnspennandi og Taken, að West Ham taki titilinn og annað í þeim dúr. Hugboðin mín eru þó nær alltaf rétt.

Suma morgna hef ég trítlað mér í bakarí til að kaupa rúnnstykki og latte áður en ég held til vinnu. Það er eiginlega svo dýrt að ég tími því bara þegar greifa-heilkennið tekur yfir. Í gærmorgun fór ég á bensínstöð (Stöðina), keypti þar smurt rúnnstykki og tvöfaldan latte ... sem kostaði samtals minna en bara kaffið í bakaríinu ... og bensínstöðvarkaffið (frá Te og kaffi) var betra! Nú, þegar olían í heiminum er að verða búin, er þetta mótsvar bensínstöðvanna. N1 er líka með gott kaffi.

Elsku frábæra Dilla frænka var kvödd hinstu kveðju í gær og þrátt fyrir sorglegt tilefni var einstaklega ljúft að hitta ættingjana í erfidrykkjunni. Það var t.d. frábært að hitta mæðgurnar Evu (í fyrsta sinn) og Vigdísi, náfrænkur mínar frá Flatey á Skjálfanda. Sumir ættingjanna, sem ég hitti nánast aldrei, viðurkenndu að þeir sæu bara fyrir sér strætó þegar ég birtist ... hmmm. Ég íhugaði að fara að halda úti matarbloggi frekar en strætóbloggi, en þar sem ég elda ekki almennilegan mat nema einu sinni á ári (31. des. ... mamma gerir alltaf uppstúfið á jóladag) sé ég það varla verða. Held að enginn nenni að lesa vikulega um sömu fylltu kalkúnabringuna, eldaða að hætti Jóa Fel, með sætkartöflufrönskum, maísbaunum og sveppasósu.

Myndin tengist færslunni beint. Hún er helsta sönnunargagn mitt um hviðumetið á föstudaginn. Ég vona að fréttamiðlar heimsins skammist sín svolítið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.