Eiríkur Bergmann

Eiríkur Bergmann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Eftir hann liggur fjöldi bóka og greina um þjóðfélagsmál, sér í lagi um tengsl Íslands við umheiminn. Eiríkur hefur um árabil ritað reglulega dálka í dagblöð, til að mynda í Helgarpóstinn, DV, Blaðið/24 stundir, Fréttablaðið, Pressuna, Fréttatímann og breska dagblaðið The Guardian. Sjá nánar á eirikurbergmann.com
Eiríkur Bergmann

Síðasti elskhuginn

Núna í aðdraganda yfirvofandi jólabókaflóðs er kannski ekki úr vegi að nefna eitthvað af því sem gleymdist að geta í fyrra. 

Á fjörur mínar rak bók Vals Gunnarssonar, Síðasti elskhuginn, sem satt að segja er bara nokkuð dægileg lesning. Ef mér reiknast rétt til er þetta önnur bók Vals en fyrir allnokkrum árum kom út norðurhjarasagan Konungur norðursins, sem mér þá fannst gefa góð fyrirheit um framhaldið, þótt brokkgeng hafi verið. 

Og jú, Valur tekur þónokkrum framförum nú – þótt enn megi eflaust betur gera.

Þetta eru miklar bar- og kvennafarssögur. Á að því leyti heima í mikilli flóru íslenskra samtímasagna sem fjalla um einhleypa reykvíska karla í tilvistarkreppu upp úr þrítugu. Hvað eru þær eiginlega orðnar margar, þess efnis bækur og bíó? Þurfa virkilega allir höfundarnir okkar að endurskrifa Hlyn Björn? Hallgrímur gerði það ágætlega á sínum tíma og kannski óþarfi að endurtaka hann stöðugt.

En þetta ekki bara svoleiðis saga. Síðasti elskhuginn er líka alvöru ástarsaga og töktug glíma við lífið. Stundum svolítið rant um alþjóðapólitík og hugsjónaþras en höfundi tekst þó yfirleitt að halda sig réttu megin við strikið – missir sig sjaldnast í óbærilega yfirborðsheimspeki.

Allavega, það var bara gaman að rúlla í gegnum söguna hans Vals. Leiddist hvergi lesturinn, líka fínn texti. En stundum langaði mann í eitthvað svolítið safarikara undir tönn.

Svo fær maður jú á tilfinninguna að söguhetjan standi ansi nærri höfundi. Sem í sjálfu sér er ekkert verra. Kannski er þetta ein slíkra bóka sem góðir höfundar þurfa að losa sig við áður en glíman við skáldskapinn hefst af meiri alvöru. Ég mun í það minnsta fylgjast með Vali í framhaldinu – hlakka til næstu bókar. 

-eirikurbergmann.com

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.