Eiríkur Bergmann

Eiríkur Bergmann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Eftir hann liggur fjöldi bóka og greina um þjóðfélagsmál, sér í lagi um tengsl Íslands við umheiminn. Eiríkur hefur um árabil ritað reglulega dálka í dagblöð, til að mynda í Helgarpóstinn, DV, Blaðið/24 stundir, Fréttablaðið, Pressuna, Fréttatímann og breska dagblaðið The Guardian. Sjá nánar á eirikurbergmann.com
Eiríkur Bergmann

Alþjóðleg stjórnmálahagfræði

Hrunið var slíkur viðburður að það skók flestar stoðir samfélagsins. Það var ekki síður pólitískt og félagssálfræðilegt í þjóðfélagslegum skilningi en aðeins efnahagslegt. Líkt og önnur svið þjóðlífsins hafa háskólarnir þurft að líta í eigin barm og endurskoða sumt í starfsemi sinni.

Í baksýnisspeglinum nú sést að sumpart hafði okkur borið af réttri leið æðri menntunar og fræða. Til að mynda viðgekkst að fyrirtæki sem höfðu ríka hagsmuni af því að birtast í tilteknu ljósi kostuðu einstaka stöður við háskólana og áköfustu útrásarvíkingarnir  fjármögnuðu meira að segja risastórt rannsóknarverkefni sem átti að skýra einstakan árangur íslenskra kaupsýslumanna á erlendri grund; það sem þeir kölluðu ‘íslenska efnahagsundrið’. Svona má áfram telja.

Gagnrýnin samfélagssýn

Þó svo að þessi dæmi tengist að vísu ekki Háskólanum á Bifröst höfum við sem þar störfum ekki síður en aðrir háskólar staðið í viðlíka endurmati. Aukin áhersla er nú lögð á gagnrýna samfélagssýn bæði í kennslu og rannsóknum. Háskólanám og rannsóknir eiga ekki aðeins að þjóna atvinnulífinu eins og rík krafa er áfram um heldur ekki síður að rýna efnahagslífið til gagns og koma auga á það sem betur má fara.

Því er nú á Bifröst lögð aukin áhersla á gagnrýnar grunnrannsóknir þar sem sjálfur samfélagsgrunnurinn er tekinn til skoðunar.

Hvað sjálfu náminu viðvíkur þá á það ekki að lúta tilteknum óskum atvinnulífsins hverju sinni heldur fremur þörfum nemandans og fólksins í landinu. Sem betur fer fara þessar þarfir saman þegar vel tekst til en atvinnulífið þarf síst á að halda meðfærilegum viðskiptafræðingum og lundarmjúkum lögfræðingum. Góður viðskiptafræðingur efast ávallt um viðteknar aðferðir og glúrinn lögfræðingur leitar nýrra leiða til að þjóna réttlætinu.

Nú um stundir er þörfin mest á sjálfstæðum gagnrýnum greinendum sem skilja gangvirki samfélags, stjórnmála og efnahagslífs.

Umsóknafrestur rennur út í dag

Háskólinn á Bifröst hefur um árabil haldið úti öflugu námi til BA prófs í heimpeki, hagfræði og stjórnmálafræði (HHS). En í viðleitini til þess að mæta aukinni þörf á slíku samfléttuðu námi verður í haust í fyrsta sinn á Íslandi boðið upp á meistaranám í alþjóðlegri stjórnmálahagfræði (e. International Political Economy) – sem að undanförnu hefur þróast hratt á vesturlöndum, einkum í Bretlandi og í Bandaríkjunum.

Í stjórnmálahagfræði ertu tengslin á milli markaðar, laga og hins opinbera til skoðunar en hvergi eru til hreinir markaðir og ómengaðir af íhlutun ríkisvalds. Í alþjóðlegri stjórnmálahagfræði er rýnt í samspil alþjóðamarkaðar og ríkjakerfis og greint hvernig efnahagslegir, lagalegir og stjórnmálalegir þættir vefjast og ýmist liðka fyrir eða hindra alþjóðaviðskipti. Skoðað er hvernig ríki og alþjóðastofnanir móta umhverfi alþjóðlegra viðskipta og hvernig auður og vald dreifist og fléttist saman í heimskerfinu. Umsóknafrestur rennur út í dag.

Háskólar eiga ekki að starfa eingangrað frá samafélagi sínu. Festast í hinum alræmda fílabeinsturni. Með námi af þessum toga auk áherslu á öflugar grunnrannsóknir á innviðum samfélagsins vill Háskólinn á Bifröst leggja sitt af mörkum til ögn heilbrigðari þjóðfélagsþróunar. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.