Eiríkur Bergmann

Eiríkur Bergmann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Eftir hann liggur fjöldi bóka og greina um þjóðfélagsmál, sér í lagi um tengsl Íslands við umheiminn. Eiríkur hefur um árabil ritað reglulega dálka í dagblöð, til að mynda í Helgarpóstinn, DV, Blaðið/24 stundir, Fréttablaðið, Pressuna, Fréttatímann og breska dagblaðið The Guardian. Sjá nánar á eirikurbergmann.com
Eiríkur Bergmann

Um útúrsnúninga og orð forsætisráðherra

Ágætur aðstoðarmaður forsætisráðherra, Jóhannes Þór Skúlason, sakar mig um útúrsnúninga á orðum yfirmanns síns í frétt í Vísi í gær og vitnar því til sannindamerkis í skýrslu sem – raunar staðfestir hvert orð sem ég sagði.

Mér finnst ekkert gaman að elta ólar við svona lagað og reyni jafnan að láta það vera en nú er þetta satt að segja farið að verða voðalega hvimleitt.

Eins og sést á þeim orðum sem Jóhannes vitnar sjálfur til hef ég ekki snúið út úr neinu. Var spurður út í orð forsætisráðherra um mögulegar takmarkanir á frjálsu flæði fjármagns á milli Evrópulanda. En um slíkt er einfaldlega engin raunveruleg umræða eins og ég benti á og raunar kemur fram í því dæmi sem aðstoðarmaður forsætisráðherra sjálfur tínir hér til í grein sinni.

Ég benti á að ekki komi til greina að takmarka flæði peninga á innri markaðinum en að til standi að koma á fót mun öflugra bankaeftirliti. Nú hef ég aðeins rannsakað Evrópusamrunann samfleytt í nokkuð á annan áratug svo mér kann að missjást eitthvað. En ég er samt nokkuð viss um þetta atriði.  

Svo mætti aðstoðarmaðurinn lesa ögn betur það sem hann sjálfur tiltekur úr skýrslunni máli sínu til stuðnings en þar segir að hættan við frjálst flæði fjármangs "... warrants further investigation and reinforces the case for a more robust macro-financial surveillance framework at both national and international levels."

Hér á semsé ekki að takmarka flæði heldur að auka eftirlit. Sem er allt annað en forsætisráðherra sagði. Útúrsnúningur minn er semsé ekki meiri en svo að skýrslan sem aðstoðarmaður hans vitnar í staðfestir það sem ég sagði í fréttinni, meira að segja í þeim hluta sem hann vitnar sérstaklega í – eins sérkennilegt og það nú er.

Er ekki kominn tími til að hætta að ásaka alla þá sem beðnir eru um að rýna í mál ráðamanna um útúrsnúninga og annarlega hvatir?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.