Eiríkur Bergmann

Eiríkur Bergmann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Eftir hann liggur fjöldi bóka og greina um þjóðfélagsmál, sér í lagi um tengsl Íslands við umheiminn. Eiríkur hefur um árabil ritað reglulega dálka í dagblöð, til að mynda í Helgarpóstinn, DV, Blaðið/24 stundir, Fréttablaðið, Pressuna, Fréttatímann og breska dagblaðið The Guardian. Sjá nánar á eirikurbergmann.com
Eiríkur Bergmann

Kæri Gylfi

Mig langar til að þakka Gylfa Arnbjörnssyni, forseta Alþýðusambands Íslands, fyrir ítarlega athugasemd sína sem hann ritar á Pressuna, við viðtal við mig í Pólitíkinni í miðlum 365, vegna dulítillar bókar minnar.

Gylfi segist raunar ekki hafa lesið bókina, sem ég vil þó endilega hvetja hann til að gera – það gæti nefnilega eytt heilmiklu af þeim misskilningi sem af pistli hans að dæma virðist ríkja í huga hans um það sem ég hef að segja. (Nenni ekki að hirða um skens á borð við ávirðinga um fleipur og þess háttar).

Fyrst samt nokkrir punktar um fátt eitt af því sem ég held alls ekki fram – öfugt við það sem skilja má af pistli Gylfa (eða forsetans ef ég myndi halda mig við stílbragð hans, sem kallar mig ávallt prófosserinn í stað eiginnafns míns).

Ég held því semsé hreint alls ekki fram að Þjóðarsáttin 1990 hafi almennt verið verkafólki til tjóns eða þá að lífeyrissjóðakerfið hafi ekki almennt stuðlað að velsæld launþega í þessu landi. Hvað þá að ég telji verkalýðshreyfinguna gæslumann eigin hagsmuna sem einhvers konar eigandi þess fjár sem hún gætir í sjóðum verkafólks. Ég skal endurtaka það eins oft og menn vilja, að þessu held ég alls ekki fram.

Og öfugt við ávirðinga um meint skilningsleysi mitt er kannski rétt að upplýsa Gylfa að ég þekki jú ágætlega til stofnunar lífeyrissjóðakerfisins, Þjóðarsáttarinnar sem varð all löngu síðar og hagþróunar á ofanverðri tuttugustu öld.  

Öfugt við það sem Gylfi heldur fram koma þessar skoðanir alls ekki fram í mínu máli. Þvert á móti tók ég það skýrt fram í viðtalinu að Þjóðarsáttin hafi bundið enda á langvarandi vinnudeildur og að því leyti sannarlega verið almenningi til hagsbóta. Einhverra hluta vegna sleppir Gylfi þessu í pislti sínum.

Ég er meira að segja að öllu leyti einlæglega fullsannfærður um það að Gylfi og félagar hans í verkalýðshreyfingunni vinni allir af heilum hug að því sem þeir telja helst til hagsbóta fyrir umbjóðendur sína. Vitaskuld.

En snúum okkur þá að því sem ég held í raun og veru held fram. Ég held því semsé fram að í samfélagi okkar hafi undir lok tuttugustu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu og fyrstu orðið nokkuð almenn fjármálavæðing, þar sem nánast öll svið samfélagsins fara að tengjst hagsmunum fjármagnsins – kapítalsins. Ég held því fram að þessi nána samfléttun almannahagsmuna við hagsmuni fjármagnseigenda hafi valdið almennri fjármálaglýgju í landinu.

Í tilviki verkalýðshreyfingarinnar, sem var það dæmi sem tekið var í umræddum þætti, gerist það þannig að við Þjóðarsáttina fer verkalýðshreyfingin að vinna nánar með atvinnurekendum en áður, til að mynda í gegnum lífeyrissjóðina sem fljótlega í kjölfarið fara að fjárfesta ríkulega á fjármálamarkaði – og verða á endanum einn helsti fjármagnseigandi landsins – semsé viðamestur kapítalista á markaði. Kapítalisti er jú sá sem á eða gætir fjármagns.

Þjóðarsáttin er því það sem á ensku má kalla Neo-corporative agreement og verður alveg óvart einn sá þáttur sem auðveldar almenna fjármálavæðingu, því með henni dregur úr mótstöðuafli verkalýðsins.

Ég skal svo heilshugar taka undir með Gylfa þegar hann hnýtir í ummæli mín sem sögð voru í framhjáhlaupi um nýgerða kjarasamninga. Það er alveg laukrétt hjá honum, að á þeim hef ég enga sérstaka rannsókn gert.

Enda notaði ég það orðalag – sem fer svona í taugarnar á honum – að "leiða megi líkur að því að ef verkalýðshreyfingin væri ekki að hugsa um fjármálakerfið að neinu leyti þá myndi hún fara harðar fram í launakröfum. Við sjáum t.d. núna að ASÍ er að skrifa undir kjarasamning þar sem samið er um launahækkun sem er undir verðbólgu í landinu. Verðbólgan er 3,1% í dag en það verið að semja upp á 2,8%. Þetta er kjararýrnun."

En jafnvel þótt ég hafi vissulega ekki gert sérstaka rannsókn á þessum þætti, sem nefndur var í framhjáhlaupi, þá held ég nú samt að ummælin standist eigi að síður – en það má vitaskuld skoða svo miklu, miklu betur. 

-eirikurbergmann.com 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.