Eiríkur Bergmann

Eiríkur Bergmann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Eftir hann liggur fjöldi bóka og greina um þjóðfélagsmál, sér í lagi um tengsl Íslands við umheiminn. Eiríkur hefur um árabil ritað reglulega dálka í dagblöð, til að mynda í Helgarpóstinn, DV, Blaðið/24 stundir, Fréttablaðið, Pressuna, Fréttatímann og breska dagblaðið The Guardian. Sjá nánar á eirikurbergmann.com
Eiríkur Bergmann

Útistöður Margrétar

Þetta er ágæt bók hjá Margréti Tryggvadóttur. Og um margt fróðleg. Titillinn líka glúrið tvíræður: Útistöður. 

Hún segir furðusögu Borgarahreyfingarnar frá Búsáhaldabyltingunni, yfir í það þegar byltingaöflin tvístruðust svo þingflokkurinn sagði sig frá baklandinu sem virtist hafa raknað upp í illvígum ýmissa væringja. Svo er þetta stjórnmálasaga óvæntrar þingkonu sem sat slétt kjörtímabil – raunar á æði sérkennilegum tíma í þingsögunni. 

Jú, þetta er vel gerð bók, kannski óþarflega löng en Margrét er vel ritfær og veitir áhugaverða innsýn í sérkennilegan heim utangarðsaflanna sem um hríð náðu máli í íslenskri pólitík. Væringarnar héldu svo áfram í innri málum Hreyfingarinnar eins og þau kölluðu það.

Og hér er kannski það umhugsunarverða. Í fyrra sagði Össur Skarphéðinson í ágætri ráðherrabók sinni Ár drekans frá ýmsu í baksviði stjórnmálanna svo sumum þótti stappa nærri uppljóstrun einstakra einkasamskipta og einkamála. 

Margrét tekur við þar sem Össur lét staðar numið og býður okkur í raun lóðbeint ofan í óhreinataus körfuna. Hér er allt morandi í frásögunum af einkasamskiptum og ýmsum einkamálum nafngreinds fólks.

Ekki misskilja mig; stjórnmálafræðingurinn er vitaskuld ánægður með upplýsingarnar en ég gæti vel trúað að samstarfsfólk úr pólitíkinni sé kannski soldið hugsi yfir því hvar draga skuli mörkin um trúnað einkasamskipta, jafnt innan og ekki síður þvert á flokkslínur.  

Þetta er ekki síst klofningssaga ýmissa einkennilegra smáhópa sem sumir hverfðust eiginlega bara um einstaka persónur. Svo rammt kveður að þessu í lýsingu bókarinnar að á endanum klauf Lilja Mósesdóttir sig frá sjálfri sér.  

Alvarlegra er þó að lesa um það sem virðist fjármálamisferli ýmissa makráðugra lukkutrölla sem eiga að hafa gengið um opinbert fé Borgarahreyfingarinnar sem sitt einkagóss eftir að þingmennirnir hrökluðust þaðan – ef marka má skrif Margrétar er þar efni í lögreglurannsókn.

-eirikurbergmann.com 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.