Eiríkur Bergmann

Eiríkur Bergmann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Eftir hann liggur fjöldi bóka og greina um þjóðfélagsmál, sér í lagi um tengsl Íslands við umheiminn. Eiríkur hefur um árabil ritað reglulega dálka í dagblöð, til að mynda í Helgarpóstinn, DV, Blaðið/24 stundir, Fréttablaðið, Pressuna, Fréttatímann og breska dagblaðið The Guardian. Sjá nánar á eirikurbergmann.com
Eiríkur Bergmann

Hvað segja ágætir borgarfulltrúar við því?

Deilan um framtíð flugvallarins í Reykjavík hefur hrakist ofan í hefðbundnar skotgrafir þrasstjórnmálanna og núna í aðdraganda borgarstjórnarkosninga ratað í fyrirsjáanlegt öngstræti. Af umræðunni að dæma mætti ætla að annað hvort verði flugvöllurinn að vera akkúrat upp á punkt og prik þar sem hann er núna eða þá að flugsamgöngur við Reykjavík leggist af. En vitaskuld þarf ekki svo að vera. Hugsanlega eru til leiðir sem fela hvort tveggja í sér: greiðar flugsamgöngur við höfuðborgina og losun dýrmæts lands í Vatnsmýri. Vandinn er sá að okkar hefðbundna fulltrúalýðræðiskerfi hefur ekki ráðið við málið. Þennan hníf má þó draga úr kúnni og jafnvel  búa sæmilega um sárið, því flugvallarmálið hentar sérdeilis vel til úrlausnar á til þess gerðu rökræðuþingi borgaranna. Til þess má boða með ýmsum hætti. Þetta er meðal þess sem ég ræddi við Spegil Rúv í gær.

Aðferðir þátttökulýðræðis

Viðlíka aðferðir við opinbera ákvarðanatöku, svokallað þátttökulýðræði (e. Participatory Democracy), er stundað með ýmsum hætti, eins og til að mynda á allskonar borgarafundum og borgaraþingum (e. Citizens Assemblies) sem falið er að taka ákvarðinir um mikilvæg opinber deilumál. Fjármálakrísan sem skekið hefur veröldina undanfarin ár hefur opinberað bresti í stoðum fulltrúalýðræðisins sem þróaðist á átjándu og nítjándu öld og opnað fyrir umræðu um aukna þátttöku borgaranna.  Víða um heim reyna nú margir að finna leiðir til þess að vefa aukinni kerfisbundinni þátttöku almennings inn í opinberar ákvarðanir – umfram það sem tíðkast í hefðbundnum kosningum og í þjóðaratkvæðagreiðslum. Þátttökulýðræði kemur þá ekki í staðin fyrir fulltrúakerfið heldur er aðferðunum ofið saman svo að þátttökuþingin styðji við og styrki það lýðræðiskerfi sem fyrir er.

Nokkur þátttökuþing

Nefna má nokkur dæmi um slík þátttökuþing. Í nokkrum borgum Brasilíu hefur fjárlagagerðin að hluta verið samin í slíku þátttökuferli, í Ástralíu var borgaraþingi (e. citizens assembly) árið 1998 falið að rökræða hvort rjúfa ætti tengslin við bresku krúnuna, í kanadísku fylkjunum Bresku-Kólumbíu (2004) og ­Ontario (2007) voru ­slembivalin borgaraþing látin rökræða kosti nýs kosningakerfis og viðamiklir þættir ­hollensku stjórnarskrárinnar fengu árið 2006 álíka meðferð. Á Írlandi stendur nú yfir sérstakt stjórnlagaþing (e. constitutional convention) sem ræðir afmarkaða þætti írsku stjórnarskrárinnar frá árinu 1937. Á írska stjórnlagaþinginu, sem hittist flesta laugardaga yfir nálega ár, eru hundrað fulltrúar, tveir þriðju slembivaldir en þriðjungur er fulltrúar á írska þjóðþinginu. Annars konar yfirferð er einnig yfirstandandi í Belgíu. Og hingað til Íslands er gjarnan litið varðandi Þjóðfundinn 2010 og Stjórnlagaráðið 2011 -- tilraunin hér er títt rædd á ráðstefnum hringinn í kringum jarðarkringluna. 

Borgaraþing um framtíð flugallarins

Vel má sjá fyrir sér að kjörnu eða slembivöldu borgaraþingi – eða blöndu af hvoru tveggja – auðnist betur en atvinnustjórnmálamönnum að leiða mál eins og flugvallardeiluna til lykta. Til þess þarf aðeins svolitla aðstöðu, eilítið utanumhald en umfram allt haldgóða sérfræðiráðgjöf slíku þingi til handa. Hvað segja ágætir borgarfulltrúar við því?

-eirikurbergmann.com 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.