Eiríkur Bergmann

Eiríkur Bergmann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Eftir hann liggur fjöldi bóka og greina um þjóðfélagsmál, sér í lagi um tengsl Íslands við umheiminn. Eiríkur hefur um árabil ritað reglulega dálka í dagblöð, til að mynda í Helgarpóstinn, DV, Blaðið/24 stundir, Fréttablaðið, Pressuna, Fréttatímann og breska dagblaðið The Guardian. Sjá nánar á eirikurbergmann.com
Eiríkur Bergmann

Lýðræði 2.0

Frá umræðum á Global Conections ráðstefnunni í Porto Alegre í gær.
Frá umræðum á Global Conections ráðstefnunni í Porto Alegre í gær.

Þó svo að nýja stjórnarskráin okkar hafi ekki tekið gildi er ferlið í kringum samningu hennar álitin á meðal helstu lýðræðistilrauna heims. Lýðræði er ekki fasti heldur fyrirbæri í hraðri framþróun. Á okkar tímum eru að verða umskipti frá því fulltrúalýðræði sem við höfum búið við á Vesturlöndum í tvær aldir – yfir í aukið þátttökulýðræði sem bætist ofan á það fulltrúalýðræði sem fyrir er. 

Ástæðan fyrir þeirri athygli sem stjórnarskrárferlið á Íslandi hefur fengið er ekki sökum þess hversu einstakt eða séríslenskt það er heldur þvert á móti, því það þykir merkilegt dæmi í flóru margra um framþróun lýðræðis. 

Ein allra merkilegasta lýðræðistilraun veraldarinnar hefur undanfarna rúma tvo áratugi verið gerð í brasilísku borginni Porto Alegre í syðsta fylki landsins, Rio Grande do Sul. Þar er ég nú staddur í boði skrifstofu forseta landsins, Dilmu Rousseff, á stórri ráðstefnu (e. Clobal Connections) þar sem rætt er hvaða hlutverk tæknin getur leikið í því að auka þátttöku fólks í opinberri ákvarðanatöku. Í því samhengi er íslenska dæmið álitið merkilegt. Af því vilja margir læra. 

Sjálfum þykir mér lýðræðistilraunir hér í Porto Alegre miklum mun merkilegri. Frá árinu 1989 hefur fjárhagsáætlun borgarinnar verið samin í viðamiklu og kerfisbundnu þátttökuferli borgaranna. Óvíst er að margir Íslendingar tengi Brasilíu við framsækni í lýðræði en samt sem áður er það nú svo að á tíma herforingjastjórnarinnar og svo hægri stjórnarinnar fór stjórnarandstaðan sem réði ýmsum fylkjum og héraðsstjórnum í margþætta vinnu við að breyta skipulagi opinberrar ákvarðanatöku. Þessi sama stjórnarandstaða hefur nú tekið við völdum á landsvísu.

Í Porto Alegre fer fjárlagagerðin fram í þremur þrepum. Fyrst kemur fólk saman í litlum sjálfsprotnum hverfishópum sem leggja meginlínurnar. Hverfin kjósa svo fulltrúa í svæðahópa sem halda vinnunni áfram og kjósa svo að nýju til borgararáðs sem klárar fjárlagagerðina í samráði við kjörna borgarfulltrúa. Að samanlögðu koma 50 þúsund manns að samningu fjárlagagerðarinnar í þessari 1.5 milljón manna borg. Alþjóðabankinn hefur í nýlegri skýrslu komist að þeirri niðurstöðu að þessi viðamikla þátttaka hafi gert Porto Alegre og Rio Grande do Sul ríkið í heild sinni að einu því hagsælasta í landinu. 

Þessi tegund þátttökufjárlagagerðar (e. Participatory Budgetin) hefur breiðst út til yfir hundrað borga í Suður Ameríku og er í smærri mynd farin að ryðja sér til rúms í Bandaríkjunum, Kanada og í Evrópu. 

Út um allan heim er verið að þróa aukið þátttökulýðræði sem vel að merkja bætist við það fulltrúalýðræði sem fyrir er en kemur ekki í staðin fyrir það. 

Þátttaka almennings við stjórnlagagerð er heldur ekki einskorðuð við Ísland. Um þessar mundir er til að mynda haldið slembivalið stjórnlagaþing (e. Constitutional Convention) á Írlandi og tilraunir í þá veru hafa verið gerðar í tveimur fylkjum Kanada, í Hollandi og nú einnig í Belgíu þó svo það sé öðru vísi vaxið.

Sá áhugi sem er á lýðræðistilrauninni á Íslandi er mikil auðlegð. Við höfum raunverulegt tækifæri til þess að láta verulega að okkur kveða í þeirri nýju lýðræðisbylgju sem alveg örugglega mun fara um heiminn á næstu árum. Vandinn við stjórnmál á Íslandi er að þau hverfast jafnan um smávægilegar flokkspólitískar skærur sem alltof oft kæfir alvöru framþróun. 

Vonandi verður það okkur ekki fjötur um fót nú.

Því burtséð frá því hvaða skoðun menn kunna að hafa á nýju stjórnarskránni og hvað um hana eigi að verða höfum við einstakt tækifæri til að leggja af mörkum raunverulegt framlag til framþróunar lýðræðis í heiminum. Ef við bara viljum. 

Í því augnamiði geta bæði sveitastjórnir í kringum landið og nýja ríkisstjórnin haft forystu um að færa opinbera ákvarðanatöku út til fólksins. Fyrirmyndir um hvernig það skuli best gert eru til út um allan heim. Til að mynda hér í Porto Alegre.

-eirikurbergmann.com 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.