Eiríkur Bergmann

Eiríkur Bergmann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Eftir hann liggur fjöldi bóka og greina um þjóðfélagsmál, sér í lagi um tengsl Íslands við umheiminn. Eiríkur hefur um árabil ritað reglulega dálka í dagblöð, til að mynda í Helgarpóstinn, DV, Blaðið/24 stundir, Fréttablaðið, Pressuna, Fréttatímann og breska dagblaðið The Guardian. Sjá nánar á eirikurbergmann.com
Eiríkur Bergmann

Stórhættuleg stjórnmálafræði

Bandaríkjaþing hefur ákveðið að banna styrkveitingar úr opinberum sjóðum til rannsókna í stjórnmálafræði nema þær sem með beinum hætti lúta að þjóðaröryggi og efnahagsframförum. 

Bannið nær ekki til annarra fræðigreina. 

Hér er ekki um slys að ræða heldur afrakstur langvarandi stefnu Repúblíkanaflokksins sem löngum hefur staðið stuggur af fræðimönnum á svið stjórnmálavísinda. 

Réttlætingin fyrir því að banna styrkveitingar til stjórnmálafræðirannsókna felst í þvi að stjórnmálamenn og fjölmiðlar séu fullfærir um að fjalla um stjórnmál auk sagnfræðinga síðar meir.

Hér er agalegur misskilningur á ferðinni. Stjórnmálafræði er ólík stjórnmálastarfi að því leyti að stjórnmálafræðingar boða ekki stefnu í störfum sínum heldur greina stjórnmálin og viðfangsefni þeirra. 

Stjórnmálafræði á líka harla lítið skylt með fjölmiðlaumfjöllun um stjórnmál. Stjórnmálafræðingar fjalla ekki um dægurpólitík heldur rannsaka langvarandi lögmál stjórnmálanna, greina sérkenni út frá fræðilegum grunni og setja í samhengi við þróun annars staðar. Slíkt er ekki gert í fjölmiðlum nema að mjög takmörkuðu leyti. 

Starfandi stjórnmálafræðingar á Íslandi rannsaka mismunandi svið. Baldur Þórhallsson rannsakar smáríki í Evrópusamstarfi, Birgir Hermannsson hefur þjóðernishyggju á nítjándu öld til skoðunar, Hannes Hólmsteinn rannsakar íslenska kommúnista og boðar raunar frjálshyggju að auki, Grétar Þór Eyþórsson rannsakar sveitastjórnarmál, Gunnar Helgi Kristinsson greinir stjórnsýslu og flokkakerfi, Ólafur Þ. Harðarson stundar kosningarannsóknir, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir rannsakar stjórnsýslu og efnahagspólitík, Stefanía Óskarsdóttir hefur rannsakað þingræði og Svanur Kristjánsson meðal annars greint lýðræðishugmyndir við stofnun lýðveldisins. Mitt framlag hefur falist í að greina hvernig þjóðernishugmyndir birtast í orðræðu íslenskra stjórnmálamanna, einkum í utanríkismálum -- auk þess í síðari tíð að greina stjórnmálahagfræði efnahagshrunsins. Fleiri stjórnmálafræðingar sinna öðrum sviðum. 

Allt þetta starf hefur til muna aukið skilning okkar á íslenskum stjórnmálum, langt umfram daglega fjölmiðlaumræðu og hugmyndir stjórnmálamanna um sjálfa sig. Hér má í huga hafa að það er ekki aðeins í Bandaríkjunum sem stjórnmálamönnum stendur stuggur af starfi stjórnmálafræðinga. Hér á landi hafa stjónmálamenn þó sem betur fer ekki reynt að takmarka rannsóknir eins og nú er uppi á teningnum í Bandaríkjunum. Þess í stað ráðast þeir heldur á trúverðugleika þeirra fræðimanna sem þeim líkar ekki og hóta jafnvel með starfsmissi eins og ég fékk til að mynda að reyna fyrir fáeinum misserum. Margir kollega minna hafa fengið álíka gusur. 

Í stað þess að takmarka rannsóknir eins og í Bandaríkjunum nú ætti hið opinbera vitaskuld að vernda slíka starfsemi. Sömuleiðis þarf að standa gegn ófræingarherferðum. Slíkt aðhald þarf líka að koma frá fjölmiðlum. En því miður er það svo hér á landi að oft er mesti friðurinn um þá sem aldrei hafa neitt bitastætt fram að færa.

-eirikurbergmann.com

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.