Eiríkur Bergmann

Eiríkur Bergmann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Eftir hann liggur fjöldi bóka og greina um þjóðfélagsmál, sér í lagi um tengsl Íslands við umheiminn. Eiríkur hefur um árabil ritað reglulega dálka í dagblöð, til að mynda í Helgarpóstinn, DV, Blaðið/24 stundir, Fréttablaðið, Pressuna, Fréttatímann og breska dagblaðið The Guardian. Sjá nánar á eirikurbergmann.com
Eiríkur Bergmann

Sáttaleiðin frá Feneyjum

Langþráð álit Feneyjanefndarinnar svokölluðu sem ráðleggur um nýjar stjórnarskrár aðildarríkja Evrópuráðsins var birt í dag. Þar kennir ýmissa grasa, ýmsu hrósað og athugasemdir gerðar við annað. Eins og gengur.

Nokkrar athugasemdir eru til að mynda gerðar við forsetaembættið sem nefndin telur þó að breytist lítið að eðli og inntaki í nýju stjórnarskránni. Nefndin veltir því upp hvort betur kunni að fara á því að stjórnmálamenn og jafnvel sveitastjórnarmenn að auki velji forsetann í stað almennings eins og nú er. Þá telur nefndin að málskotsréttur forseta (sem hér hefur lengi verið í gildi) sé sérkennilegur og að heppilegra geti verið að hann vísi málum til lagalegrar nefndar sem meti stjórnarskrárgildi laganna eða þá aftur til Alþingis.

Svo má nefna að Feneyjarnefndin telur að betur fari á því að þingmenn einir breyti stjórnarskrá, helst með auknum meirihluta en að óþarfi sé að bera stjórnarskrárbreytingar undir þjóðina eins og Stjórnlagaráð leggur til.

Vandinn við svona athugasemdir er að þær hjálpa okkur lítið við að klára málið því ég held að mér sé óhætt að fullyrða að Íslendingar eru almennt ánægðir með þessi hlutverk forseta og hafi lítið á móti því að þjóðin sjálf staðfesti stjórnarskrárbreytingar. Allavega hef ég ekki heyrt mikla gagnrýni á þessi atriði hér innanlands.

Samt sem áður er rétt að taka eitt og annað í ábendingum nefndarinnar alvarlega til athugunar. Til þess er leikurinn jú gerður. En nú hleypur tíminn hratt frá okkur.

Að lokum leggur Feneyjarnefndin til, að reynist núverandi þingi örðugt að klára nauðsynlegt snurfus við frumvarpið, verði látið duga í þessari atrennu að samþykkja ákvæði Stjórnlagaráðs um hvernig stjórnarskrá sé breytt (samþykkt eins þings og staðfesting þjóðar) og málinu að öðru leyti vísað til næsta þings sem þá klári það á grundvelli frumvarpsins.

Mér finnst það í sjálfu sér ekki fráleit sáttaleið sem allir ættu að geta fallist á, hvar svo sem þeir standa í málinu. Þetta mætti gera með þverpólitískri þingsályktunartillögu um að klára málið strax á næsta þingi í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar frá því í október sl. Nýja stjórnarskráin gæti þá gengið í gildi fyrir árslok - semsé með samþykkt þings og svo staðfestingu kjósenda í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Varla þarf að þrasa mikið um þetta. Eða hvað? 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.