Eiríkur Bergmann

Eiríkur Bergmann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Eftir hann liggur fjöldi bóka og greina um þjóðfélagsmál, sér í lagi um tengsl Íslands við umheiminn. Eiríkur hefur um árabil ritað reglulega dálka í dagblöð, til að mynda í Helgarpóstinn, DV, Blaðið/24 stundir, Fréttablaðið, Pressuna, Fréttatímann og breska dagblaðið The Guardian. Sjá nánar á eirikurbergmann.com
Eiríkur Bergmann

Jónína og Jóhanna

Bók Jónínu Leósdóttur um samband þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur fyrrverandi forsætisráðherra er einkum nokkuð stríð ástarsaga en einnig brýnandi baráttusaga – lýsir hvort tveggja í senn innri baráttu einstaklinga við ástina en líka ytri baráttu samkynhneigðra í samfélaginu.

Báðar voru þær giftar karlmönnum og mæður ungra drengja þegar þær dragast að hvor annarri á níunda áratugnum. Ef trúa má frásögninni virðist hvorug þeirra hafa áttað sig á að þær ættu það yfir höfuð til í sér að hneigjast til kvenna. Fyrir vikið verður uppgötvun þeirra á samkynhneigðri ást enn magnaðri.

Þær Jónína og Jóhanna hafa hingað til haldið sambandi sínu frá kastljósi fjölmiðla en nú fáum við innsýn í líf þeirra í að því er virðist heiðarlegri frásögn.

Samband þeirra vakti heimsathygli þegar Jóhanna varð fyrsti opinberlega samkynhneigðri ríkisleiðtogi í veröldinni. Sú víðfema opinberun á sambandi þeirra virðist hafa auðveldað þeim þá ákvörðun að segja sögu sína á bók.

Jónína er lipur höfundur og segir hér fallega sögu af brösugu sambandi sem sífellt slitnar upp úr fyrstu árin þar til þær loks rugla endanlega saman reitum um aldamótin. Í óhemju lögnu tilhugalífi virðist Jónína hafa verið sannfærðari um ágæti sambandsins en stjórnmálamaðurinn Jóhanna hikandi af ótta við almenningsálitið. Í eftirmála bókarinnar viðurkennir Jóhanna vanmátt sinn í þeirri stöðu.

Kannski er merkilegasta framlag bókarinnar að minna okkur á hve fáránlega stutt er síðan samkynhneigðir voru nokkuð almennt fordæmdir sem afbrigðilegir öfuguggar. Svo mjög meira að segja að ein öflugasta baráttukona í íslenskum stjórnmálum fyrir félagslegu réttlæti lagði ekki í að taka slaginn og opinbera ást sína á annarri konu. Á þeim tíma hefði það nokkuð örugglega komið niður á frama hennar. 

Saga Jónínu og Jóhönnu er merkileg og vegna ýmissa óvenjulegra aðstæðna er þetta mikilvæg bók. Sjálfum þóttu mér kaflarnir um tilhugalífið merkilegastir en varð stundum ögn þreyttur á því hve upptekin Jónína virtist verða yfir athygli erlendra fjölmiðla á sambandi þeirra. Sá pirringur rjátlaðist hins vegar brátt af mér þegar ég skildi hversu merkilegt það jú var fyrir heimakæra konu sem lengi hafði þurft að halda ástarsambandi sínu leyndu að lenda skyndilega í skæru kastljósi fjölmiðla á heimsvísu.

Ég hef oft tekið eftir því að fólk á það til að láta pólitíska afstöðu til höfunda og viðfangsefna bóka hafa áhrif á sig. Menn setja gjarnan upp einhver flokksgleraugu við lestur bóka eftir eða um stjórnmálamenn. Sem alla jafna er nú bara til óþurftar og hamlar skilningi. En vegna þessarar algengu áráttu er rétt að taka það fram að þótt þessi bók fjalli í aðra röndina um forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur er hún alls ekki um nein aðgreinandi stjórnmál eða flokkspólitík. Pólitísk afstaða manna til Jóhönnu ætti því ekki breyta neinu fyrir lesandann.

-eirikurbergmann.com 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.