Eiríkur Bergmann

Eiríkur Bergmann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Eftir hann liggur fjöldi bóka og greina um þjóðfélagsmál, sér í lagi um tengsl Íslands við umheiminn. Eiríkur hefur um árabil ritað reglulega dálka í dagblöð, til að mynda í Helgarpóstinn, DV, Blaðið/24 stundir, Fréttablaðið, Pressuna, Fréttatímann og breska dagblaðið The Guardian. Sjá nánar á eirikurbergmann.com
Eiríkur Bergmann

Frá hruni og heim segir hann

SteingrímurBók þeirra Björns Þórs Sigbjörnssonar og Steingríms J. Sigfússonar, Steingrímur J. - Frá hruni og heim, er enginn skemmtilestur, hefur alls ekki sama skemmtanagildi og til að mynda dagbók Össurar. Samt er hún líkast til sú merkilegasta af pólitísku bókunum þetta haustið. Í stjórnmálafræðilegum skilningi.

Síðasta ríkisstjórn var við völd á einstökum tímum, í kjölfar allsherjahruns fjármálakerfisins og stóð frammi fyrir tröllauknum verkefnum. Varð svo ein sú allra óvinsælasta í manna minnum í kjölfar átaka um einkum Icesave og skuldamál heimilanna. Auk þess innanmeins sem hún átti alltaf við að etja – lengi vel var vægðalausustu stjórnarandstöðuna að finna í röðum stjórnarliða.

Steingrími er í mun að gera þessa tíma og verk ríkisstjórnarinnar upp. Og fyrir sinn hatt tekst honum og þeim Birni Þór nokkuð vel upp við að skýra sýn Steingríms.

Bókarformið er heppilegt til að ræða í rólegheitunum flókin mál og hér er gerð alvöru atlaga að því að greina ástand þjóðfélgsmálanna á þessum umbrotamiklu tímum. Að því leyti er þetta raunverulegt framlag til stjórnmálaumræðunnar.

En þessi bók tekst ekki aðeins við að greina stöðu stjórnmálanna, hún er jú líka í aðra röndina málsvörn Steingríms – hann er vissulega í allnokkurri vörn í þessari bók. Það truflaði mig þó lítið.

Almennt færir Björn Þór sögu Steingríms vel til bókar. Vandaður texti og víðast nokkuð lipur frásögn þótt sagan rísi hvergi í miklar hæðir.

En fyrir þriðju persónu frásögn af þessu tagi stillir skrásetjarinn sér upp fullnálægt afstöðu viðfangsefnisins. Mætti að ósekju takast meira á við Steingrím og ganga nær honum. En kannski bauð Steingrímur ekki upp á það, við vitum það ekki.

Við fáum heldur ekki að kynnast manninum, persónan Steingrímur lýkst ekki upp fyrir manni á þessum síðum – enda leikurinn tæpast til þess gerður.

Bókin er vel frá gengin, með nafnaskrá en atriðaorðaskrá sárvantar.

Af fimm mögulegum þykir mér við hæfi að klæða bókina fast að fjórum hettuúlpum fyrir heiðarlega tilraun til þess að skýra sjónarmið og afstöðu Steingríms á þessum erfiða tíma í ríkisstjón, en þrátt fyrir nokkuð vandaðan texta má draga eina frá fyrir helst til þurra og á köflum helst til blóðlitla frásögn.

-eirikurbergmann.com 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.