Eiríkur Bergmann

Eiríkur Bergmann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Eftir hann liggur fjöldi bóka og greina um þjóðfélagsmál, sér í lagi um tengsl Íslands við umheiminn. Eiríkur hefur um árabil ritað reglulega dálka í dagblöð, til að mynda í Helgarpóstinn, DV, Blaðið/24 stundir, Fréttablaðið, Pressuna, Fréttatímann og breska dagblaðið The Guardian. Sjá nánar á eirikurbergmann.com
Eiríkur Bergmann

Össur

ÖssurÖssur er sannarlega pennafimur pólitíkus, þessi bók er barmafull af flæðandi frásagnargleði. (Össur Skarphéðinsson: Ár drekans – dagbók utanríkisráðherra á umbrotatímum)

Þetta er glettilegt og skemmtilegt. Á köflum eins og æsispennandi reyfari.

Bókin er skrifuð í dagbókarstíl, segir frá ári í lífi utanríkisráðherra, árinu 2012.

Lesandann grunar þó strax að æði margt í dagbókarfærslunum hafi verið allrækilega ritskoðað eftir á, til þess að falla að seinni tíma atburðum. En bókin veitir vissulega góða innsýn í daglegt líf stjórnmálamannsins með næstum því bókmenntalegri frásögn. Fremur en að hún lúti lögmálum stjórnmálaumræðunnar.

Hér sést eiginlega inn í kviku valdastjórnmálanna, en engin tilraun er hins vegar gerð til greiningar á þeim viðamiklu málum sem koma til umræðu og lítið segir af stjórnmálahugsjón höfundar. Frásögnin er öll um hina daglegu baráttu.

Verulegur fengur er af þessari bók. Össur segir frá ýmsum samskiptum á bak við tjöldin, ljóstrar í raun upp um fjölmörg trúnaðarsamtöl, alla vega að einhverju leyti. Mér skilst að út um allan bæ séu margir honum bálreiðir og segjast munu eiga bágt með að treysta honum í framtíðinni.

En, hvað um það, þetta er flott framtak hjá Össuri. Hann má gjarnan skrifa meira. Samt er þessi bók helst til löng fyrir minn smekk, sumt í dagbókarfærslunum á ekki endilega erindi við almenna lesendur.

Og, jú, rétt er það, það er ansi mikið karlagrobb í þessu, strákaklúbburinn birtist hér nokkuð nakinn. Lýsir valdabaráttu og bandalagamyndun. Í bókinni leggur Össur sig meðal annars fram um að teygja sig til forsetans

Og svo, þótt það sé ekki gaman að tuða, er ekki hjá því komist að nefna þann ljóð sem er á frágangi bókarinnar, til að mynda er allt of mikið um innsláttarvillur. Kannski er það bara í fyrstu prentun, vonandi. Svo sárvantar nafnaskrá. Og helst líka atriðaorðaskrá.

Að samanlögðu þykir þessum lesenda hæfa að vefja bókina fimm þverslaufum fyrir skemmtilega frásögn, þrjár fyrir innsýn í daglegan gang stjórnmálanna en aðeins eina fyrir frágang.

-eirikurbergmann.com 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.