Eiríkur Bergmann

Eiríkur Bergmann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Eftir hann liggur fjöldi bóka og greina um þjóðfélagsmál, sér í lagi um tengsl Íslands við umheiminn. Eiríkur hefur um árabil ritað reglulega dálka í dagblöð, til að mynda í Helgarpóstinn, DV, Blaðið/24 stundir, Fréttablaðið, Pressuna, Fréttatímann og breska dagblaðið The Guardian. Sjá nánar á eirikurbergmann.com
Eiríkur Bergmann

Sæmd Guðmundar Andra

SæmdGuðmundur Andri Thorsson er góður rithöfundur og Benedikt Gröndal er heillandi persóna. Ég var því snöggur til að tryggja mér eintak af Sæmd þegar hún kom út.

Og vissulega er sagan góð. Maður gat nokkurn vegin gengið að því vísu. Þetta er snotur nóvella um þá Björn M. Ólsen og Gröndal sem hverfist um bókaþjófnað skólapilts í Lærða skólanum í Reykjavík árið 1882, þar sem þeir báðir starfa.

Við göngum ekki að því gruflandi að Andri er frábær stílisti, það vissum við fyrir. Því kom mér ekki á óvart að Sæmd er best skrifaða bókin sem ég hef lesið á þessu hausti. Bragðflúrað konfekt við hliðina á mörgum ágætum súkkulaðistykkjum.

Fagur textinn líður áreinslulaust fram og leikur við hugann á þann hátt að maður rankar upp við að lesa sumar setningarnar margoft yfir. Þessa bók les maður hægt. Og smjattar einsog velalinn heimilisköttur á orðunum.

Andra er lagið að laða fram notalegt andrúmsloft í bókum sínum. Á síðunum finnum við fyrir hlýrri nærveru höfundarins. Maður á góðar stundir við lesturinn.

En – hér kemur þetta en sem oft fylgir umfjöllun um bækur Andra – einsog oft áður veit maður ekki alveg hvað Andri er að fara með þessari bók, hvort hún eigi nokkuð annað erindi við mann en að láta manni líða vel – sem ætti jú að vera alveg nóg.

Og þó, án þess að teygja söguna um of er kannski hægt að líta á átök Ólsens og Gröndals sem klassíska baráttu á milli  góðs og ills.

Ólsen hefur æði fasísaka afstöðu til skólans og samfélagsins, telur réttlætanlegt að fórna veiklindum pilti til þess að styrkja samfélagsandann á meðal skólapilta, allt í þágu þjóðarinnar. Gröndalinn hans Andra er hins vegar málssvari mannréttinda.

Hér rís vissulega margbreyskur en ljóngáfaður listamaðurinn gegn harðstjóranum sem hvorki hefur listræna né sammannlega taug í sér.

Ef við viljum toga þessa tengingu lengra má kannski spegla deilu þeirra Ólsens og Gröndals í þeim átökum sem nú fara fram á milli listamanna og valdamanna.

En samt, ég veit það ekki, kannski var Andri ekki að hugsa neitt af þessu. Maður áttar sig ekki alveg á því við lesturinn. Maður veit aldrei almennilega hvað hann er að fara. Ef þá nokkurt.

Eitt sinn þegar ég var í hálförvæntingafullri leit að Dægradvöl eftir Benedikt Gröndal sagði Bragi Kristjónsson fornbókasali (sem galdraði fram fyrir mig fyrstu útgáfu eintak) að menn verði ekki almennilega fullorðnir fyrr en eftir að hafa lesið Dægradvöl. Ég er ekki frá því að það sé rétt. Frumkrafturinn í frásögn Gröndals hefur svo sterk áhrif á lesandann.

Guðmundur Andri er allt annars konar höfundur, á allt öðrum tíma. Því er hér engu saman að jafna.

En hvað svo sem öðru líður er Sæmd frábær lesning, notaleg stund sem lesandinn á með höfundinum þótt maður viti ekki alveg hvað hann er að fara. Ef þá nokkurt.

-eirikurbergmann.com 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.