Eiríkur Bergmann

Eiríkur Bergmann er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Eftir hann liggur fjöldi bóka og greina um þjóðfélagsmál, sér í lagi um tengsl Íslands við umheiminn. Eiríkur hefur um árabil ritað reglulega dálka í dagblöð, til að mynda í Helgarpóstinn, DV, Blaðið/24 stundir, Fréttablaðið, Pressuna, Fréttatímann og breska dagblaðið The Guardian. Sjá nánar á eirikurbergmann.com
Eiríkur Bergmann

Loforðið

Loforðið um endurskoðun stjórnarskrárinnar

Um daginn þýfgaði Björn Bjarnason, fv. ráðherra, mig svara um þau ummæli mín að við lýðveldistökuna hafi staðið til að vinna að heildarendarskoðun á stjórnarskránni í kjölfarið. Hann spurði hver hefði lofað því. Sjálfsagt er að fara yfir málið svo Björn fái glöggvað sig á því.

Líkt og fram kemur í sérfræðiriti sendifulltrúans Kristjáns Andra Stefánssonar og prófessoranna Eiríks Tómassonar, Bjargar Thorarensen, og Gunnars Helga Kristinssonar Ágrip af þróun stjórnarskrárinnar (2005) samþykkti Alþingi í maí árið 1942 að skipa fimm manna milliþinganefnd „til þess að gera tillögur um breytingar á stjórnskipunarlögum ríkisins í samræmi við yfirlýstan vilja Alþingis um, að lýðveldi verði stofnað á Íslandi.“

Um sumarið skilaði nefnd þessi uppkasti að nýrri stjórnarskrá en sú vinna mætti andstöðu. Í september sama ár samþykkti Alþingi frumvarp til stjórnskipunarlaga sem heimilaði að breyta fullveldisstjórnarskránni frá 1920 með afbrigðilegum hætti, þ.e. með samþykkt eins þings og meirihluta kosningarbærra manna í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Aðeins lágmarksbreytingar
Þó svo að gamla danska stjórnarskráin endurspeglaði ekki þá breytingu sem orðið hafði við umskiptin frá einveldi til lýðræðis samþykki Alþingi að við lýðveldistökuna væri „óheimilt að gera með þessum hætti nokkrar aðrar breytingar á stjórnarskránni en þær, sem beinlínis leiðir af sambandsslitum við Danmörku og því, að Íslendingar taka með stofnun lýðveldis til fullnustu í sínar hendur æðsta vald í málefnum ríkisins“. (Alþt. 1942–1943 A: 60).

Krafan um þjóðareiningu varð til þess að ekki þótti hættandi á það að átök um stjórnarskrárbreytingar myndu varpa skugga á lýðveldistökuna og til þess að „fylkja þjóðinni einhuga um stofnun lýðveldisins“ (Alþt. 1944 A: 11–12). Í samræmi við þetta voru ekki aðrar breytingar gerðar en að ákvæði um konung voru felld út fyrir ákvæði um forseta. Í áliti stjórnarskrárnefndar þingsins kom strax fram ósk um að áfram yrði unnið „að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.“  

Strax í stjórnarsáttmála nýsköpunarstjórnarinnar, sem tók við völdum haustið 1944, var róttækum breytingum á stjórnarskrá lofað „eigi síðar en síðari hluta næsta vetrar“ (Guðni Th. Jóhannesson 2011: 68). Eins og fram kemur í framangreindu riti sérfræðinganefndarinnar frá árinu 2005 ákvað Alþingi í kjölfarið að „skipa 12 manna nefnd til ráðgjafar eldri nefndinni og tveimur árum síðar var samþykkt þingsályktunartillaga um skipan nýrrar sjö manna nefndar til að endurskoða stjórnarskrá þar sem starfsemi hinnar fyrri hafði lognast út af.“

Í Ágripi af þróun stjórnarskrárinnar frá 2005 kemur fram að þó svo að „stjórnarskrárnefndin frá 1947 næði ekki að skila áliti hefur þó hugmyndin um þá heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, sem fyrirheit voru gefin um 1944, komið reglulega til tals á Alþingi.“

Loforðið loksins uppfyllt
Af þessu má ljóst vera að lýðveldistökunni fylgdi þau heit að Íslendingar myndu í kjölfarið setja sér sína eigin stjórnarskrá. Óhófleg töf hefur hins vegar orðið á þeirri heildarendurskoðun og þó að fjöldi stjórnarskrárnefnda hafi síðan verið skipaður reyndist Alþingi ófært um að ná saman um heildstæða endurskoðun á grundvallarlögum landsins en margvíslegar smávægilegar breytingar hafa vissulega verið gerðar, svo sem nýr mannréttindakafli árið 1995.

En nú liggur frumvarp Stjórnlagaráðs sem sagt fyrir Alþingi sem felur í sér slíka heildarendurskoðun og í raun drög að endurbættri stjórnskipan landsins. Þjóðinni er boðið að segja álit sitt á frumvarpinu í atkvæðagreiðslunni þann 20. október næstkomandi.

(Kjallaragrein í DV, 24. september 2012)

-eirikurbergmann.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.