Baráttan við holdið

Reynir Traustason var 135 kíló í ársbyrjun 2011. Þá hófst baráttan við holdið sem leiddi til þess að fjörutíu kíló hurfu á einu ári. Lykillinn í baráttunni eru yfir 850 fjallgöngur og gjörbreytt mataræði. En slagurinn heldur áfram. Hér verður greint frá sigrum og ósigrum. Stefnan var sett á sjálft Mont Blanc, 4808 metra. Markmiðið náðist 21. september 2013 klukkan 07:30.
Baráttan við holdið

Berfættur öfgamaður

Á efsta tindi Löðmundar. Frásögn af berfætlingnum í útvarpi hefur valdið ólgu á meðal jeppamanna.
Á efsta tindi Löðmundar. Frásögn af berfætlingnum í útvarpi hefur valdið ólgu á meðal jeppamanna.

Það getur verið dýrkeypt að vera í gönguhópi og umgangast fólk sem er á bannlista skipulagðra hópa. Þegar ég innritaði mig í 52ja fjalla hóp Ferðafélags Íslands hafði ég ekki hugmynd um að mér kynni að standa andlega ógn að einstaklingum sem þar ráða för. Ég hélt einfaldlega að þetta væri hópur fólks sem lyti aðeins þeirrar handleiðslu leiðtoga sinna að fara um fjöll og jafnvel firnindi.

Í ársbyrjun var ég eins og hver annar Íslendingur. Ég hafði á samviskunni að hafa reykt út um allt og hent stubbunum þar sem ég stóð eða ók. Ég var umhverfissóði. Og ég átti það til að brölta um á slyddujeppa um vegleysur ef því var að skipta. Hápunktinum í þeim efnum náði ég í utanvegaakstri á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði skömmu eftir 1980. Ég hafði leigt Lada Sport og fannst eðlilegt að láta reyna á tryllitækið við náttúrulegar aðstæður. Ekki vildi betur til en svo að bifreiðin sökk í mýri og fékk sig hvergi hreyft. Við þessar aðstæður var ekki annað til ráða en að leita aðstoðar niðri í bænum. Á endanum varð ég að fá kranabíl til að koma Lödunni aftur inn í þjóðvegakerfið. Ég var þessi manngerð sem kunni best við sig á hjólum og með sígarettu í kjaftinum.

En síðan hófst umbreytingin. Ég hóf að ganga á fjöll. Fyrst einn en síðan álpaðist ég inn í þann hóp sem heitir 52 fjöll. Í upphafi hafði ég ekki hugmynd um að þarna væri í raun um að ræða sértrúarsöfnuð sem vildi ná tökum á sálu minni. Ég sá ekki í gegnum leiktjöldin og vissi ekki að fararstjórarnir væru í raun trúboðar, eða falsspámenn. Það var ekki fyrr en eftir útvarpsþátt hjá Sirrý á Rás 2 að mér varð ljóst að ég var ekki lengur með sjálfum mér. Ég lýsti því fyrir hlustendum þegar ég gekk berfættur á efsta tind fjallsins Löðmundar.  fór ég úr skónum og gekk berfættur til að skemma ekki viðkvæman gróður tindsins. Þegar frásögnin fór í loftið spratt upp bylgja andúðar í samfélaginu. Mönnum var ljóst að ég hafði týnt sjálfum mér og var orðinn viljalaust verkfæri öfgamanna. 

Á Facebook-síðu Jóns G. Snælands, yfirvegaðs áhrifamanns jeppaklúbbsins 4X4, mátti lesa eftirfarandi: ,,Af öfgamönnunum Róbert Marshall, Páli Ásgeiri og nýjasta öfgamanninum heilaþvegna Reyni Traustasyni. Hægt er að byrja að hlusta á bullið á mínútu 142“. Augu mín opnuðust. Ég var fórnarlamb í alheimssamsæri öfgamanna í umhverfismálum. Öll þau skipti sem Páll Ásgeir hafði gengið með mér spölkorn og miðlað því sem virtist vera fróðleikur var hann í rauninni að heilaþvo mig. Sama var með Marshalinn. Hann var ekki að aðstoða, heldur þvinga mig undir vilja sinn. Þar sem ég stóð berfættur á tindi Löðmundar var ég viljalaust verkfæri á valdi öfgasinna og gerði það sem mér var sagt. Og það er ekkert til ráða því ég mun halda áfram að ganga á fjöll. Nema jeppaklúbburinn nái að snúa mér. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.