AK-72

Agnar Kristján Þorsteinsson hefur bloggað undir bloggheitinu AK-72 til langs tíma og helst þá um stjórnmál og samfélagsmál sem hann hefur sínar missterku skoðanir á. Stundum á hann til að beina sjónum sínum að kvikmyndum, sagnfræði og öðru sem heillar hann hverju sinni auk þess sem hann leyfir sér þá ósvinnu að mati landans að skipta stundum um skoðun. Hægt er að hafa samband með því að senda póst á mrx hjá mi.is
AK-72

Vegna stóra tölvupóstmálsins

Það hefur verið mikið rætt um stóra tölvupóstmál aðstoðarmanns ráðherra frá því að það komst í fréttir vegna formlegra mótmæla við því að sendur skuli hafi verið tölvupóstur á yfirmann minn.

Og miðað við þá umræðu þá finnst mér eiginlega rétt að skýra frá minni hlið mála þessa dags, bæði til að slá á hugrenningar og útskýra betur atburðarrásina og  hvað átti sér stað.

Á fimmtudaginn þá var ég og ég einn skyndilega boðaður til fundar hjá atvinnuveganefnd Alþingis morguninn eftir án þess að sérstök ástæða hafi komið fram fyrir því þá. Sjálfur hef ég fengið útskýringu á því í dag og hún er fullkomlega eðlileg frá þeim sem lagði það til að ég yrði boðaður.

Einhverju síðar þá byrjaði aðstoðarkona ráðherra að reyna að ná í mig. Hún hringdi nokkrum sinnum en ég var upptekinn í talsverðan tíma vegna vinnu og annara hluta sem ullu því að ég gat lítið svarað í símann. Hún sendi mér svo langt SMS um að ráðherra vildi boða mig á fund og ég hringdi þá í hana til baka. Við áttum stutt, vinsamlegt spjall í gegnum símann og hún minntist á að hún hefði verið að reyna að ná á mig í gegnum síma og sent mér tölvupóst.

Skömmu síðar þá hafði yfirmaður minn samband og sagði mér frá því að hann hefði fengið afrit af fundarboðinu sent á sig. Hann var steinhissa á því að slíkt skuli hafa verið gert og ég líka auk þess sem mér fannst þetta mjög óviðeigandi að mörgu leyti. Tölvupósturinn sem slíkur hafði verið sendur á einkanetfang sem ég nota yfirleitt fyrir persónulegri hluti og svo cc á hans netfang.

Daginn eftir þá mætum við félagarnir tveir á boðuðum tíma á fund til atvinnuveganefndar Alþingis. Þar biðum við i 25 mínútur án þess að hafa verið tilkynnt um seinkun og ákváðum svo að standa upp og fara þar sem við erum báðir vinnandi menn og þurfum að sinna skyldum okkur við vinnuveitendur og samstarfsfólk. Nefndarritari kom fram og ræddi við ykkur þar sem við sögðum honum ástæður brottfararinnar og sýndi því skilning í ljósi þess að við erum ekki í þannig störfum að við séum að funda reglulega með stjórnsýslu og valdastofnunum.

Rúmlega tveimur tímum síðar var svo komið að fundi með ráðherra. Af ýmsum ástæðum þá höfðum við ákveðið að reyna að fá lögfræðing með okkur að ráði góðs fólks sem taldi það mjög sérstakt að ráðherra kalli til fundar almenna borgara vegna undirskriftasöfnunar. Hlutverk lögfræðings var því að gæta að hagsmunum okkar í samskiptum við valdhafa, að allt færi rétt fram samkvæmt lögum og einnig að koma á framfæri andmælum vegna tölvupóstsins til mín.

Í fljótu bragði sagt þá tryggði lögfræðingurinn okkar að formfesta var á þessum fundi sem var kurteis og málefnalegur að viðstöddum fjölmiðlum sem höfðu ákveðið að mæta. Ráðherra kynnti sín sjónarmið, við okkar, hann vildi afhenda okkur minnisblað með gögnum, við rétt litum á það og spurðum um aðgengi á netinu enda töldum við að ekki ætti að vera veita okkur upplýsingar sem aðrir hefðu ekki aðgang að og í ljós kom að þetta yrði opinbert minnisblað til nefndar síðar um daginn sem fólk á að geta nálgast á netinu. Einnig bentum við á að við hefðum eingöngu sett þessa undirskriftasöfnun af stað og þannig séð hefði verið hægt að kalla til aðra einstaklinga til að benda á það að fólk er andsnúið lækkun veiðigjaldsins fyrir sameiginlegar auðlindir okkar.

Þegar að lokum kom fundar þá bar lögfræðingur okkar fram hörð mótmæli vegna tölvupóstsendingar til yfirmanns míns á mínum vinnustað sem er opinber stofnun og að í slíku athæfi felist ógn/hótun sem eigi ekki að eiga sér stað. Það kom aðeins fát á ráðherra og hans fólk, hann kannaðist ekki við þetta og aðstoðarkona hans, Helga Sigurrós, sagði að hún hefði reynt mikið að ná í mig og sent tölvupóstinn á þau netföng sem hún taldi tilheyra mér.

Í kjölfarið bað ráðherra mig afsökunar á þessu og aðstoðarkona hans bað mig margoft afsökunar, bæði fyrir framan alla og svo persónulega þegar fundi var formlega lokið. Upplifun mín af þeirri afsökunarbeiðni var að Helga Sigurrós var mjög miður sín yfir þessu og meinti afsökunarbeiðnina af einlægni.

Eftir fundinn þá var rætt við fjölmiðla og mér þótti rétt að leyfa henni að njóta vafans í mannlegum skilningi meðan lögfræðingurinn benti réttilega á að verknaðurinn sé óeðlilegur í samskiptum valdhafa við hina valdalausu.

Svona tölvupóstsending getur nefnilega haft þau áhrif á valdalaust fólk að það hiki t.d. við að nýta tjáningarfrelsi sitt hvort sem er af vilja gert eða mistök af hálfu fulltrúa valdsins. Slíkt á alltaf að líta alvarlegum augum en ekki flokka sem upphlaup eða ómerkja á einn eða annan hátt heldur ber að vekja athygli á því svo að það endurtaki sig ekki í samskiptum valdhafa við hina valdlausu. Af þeim sökum er það heldur ekki óeðlilegt eða upphlaup ef það sé tekið upp á þingi að ráðherrar eða aðrir valdhafar þurfi að leggja fram útskýringu á samskiptum við borgara sem líta út fyrir að vera óeðlileg því Alþingi hefur einnig eftirlitsskyldu með framkvæmdavaldinu.

Hvað varðar mistök Helgu Sigurrósar þá hef ég fengið útskýringar í dag frá henni persónulega um hvernig þetta vildi til. Þær skýringar eru fullkomlega eðlilegar í mínum augum og ég fyrirgef henni þessi mistök hennar sem hafa leitt til harðrar gagnrýni á hana persónulega og orðið að leiðindamáli fyrir okkur bæði þar sem verið er að draga mitt ágæta samstarfsfólk, yfirmenn og vinnustað inn í umræðuna.

Af minni hálfu er því málinu alveg lokið fyrir utan það eitt að mig langar að koma því á framfæri að ég hefði átt að koma fram með þessar útskýringar mun fyrr en þar sem ég var úrvinda andlega sem líkamlega eftir daginn m.a. vegna svefnlítillar nóttar vegna stress fyrir þennan föstudag funda enda stórmál fyrir einstakling út í bæ að vera komin í þá skyndilegu aðstöðu að vera kallaður fyrir þingnefnd og ráðherra fyrir það eitt að setja af stað undirskriftasöfnun.  Því til viðbótar þá bættist við heilmikið áreiti frá fjölmiðlum og fólki sem vildi endilega ræða við mig um þetta. Af þeim sökum þá varð ekkert úr því fyrr en í dag að koma með atburðalýsingu og útskýringar sem hefðu leitt til þess að umræðurnar um þetta mál hefðu fljótlega fallið niður..

Það eru mín mistök sem ég vona að hún fyrirgefi mér.

Agnar Kristján Þorsteinsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.