fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Ferðast til seinni heimsstyrjaldarinnar

Heimsókn í herbúðir Winstons Churchill

Margrét Gústavsdóttir
Sunnudaginn 18. febrúar 2018 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þótt fæstir vilji líkja sér við Donald Trump þá eiga flestir unnendur sagnfræðinnar það þó sameiginlegt með honum að vilja heimsækja byrgi hermálaráðuneytisins og Churchill-safnið við Westminster í næstu Lundúnaferð, en að sögn bresku pressunnar óskaði appelsínuguli forsetinn sérstaklega eftir þessari upplifun í væntanlegri heimsókn sinni til Bretlands.

Að sögn þarlendra blaðamanna er Trump innblásinn af myndinni The Darkest Hour en í henni segir frá fyrstu verkefnum Churchills sem forsætisráðherra og voru þau ærin enda loftárásir Þjóðverja yfirvofandi.

Varnaraðgerðir ríkisstjórnar Churchills voru að mestu skipulagðar í þessu neðanjarðarbyrgi sem var standsett þegar menn sáu í hvað stefndi og þar loguðu ljósin allan sólarhringinn í sex ár, eða allt þar til stríðinu lauk árið 1945. Þetta byrgi, sem hefur verið varðveitt í sjötíu ár, kemur töluvert við sögu í myndinni enda voru Churchill og hans fólk þar vakin og sofin í nokkur ár.

Stríðsminjasafnið kallast the Cabinet War Rooms og mælt er með því að gestir gefi sér að minnsta kosti hálfan dag til að komast yfir að skoða það allt, enda merkileg og áhrifamikil upplifun. Samhliða þessum minjum er starfrækt sérstakt Churchill-safn en þar eru lífi og störfum þessa merka manns gerð góð skil.

Athvarf fyrir ríkisstjórnina

Lítið sem ekkert hefur verið hróflað við byrginu frá því stríðinu lauk árið 1945.
Allt í upprunalegri mynd Lítið sem ekkert hefur verið hróflað við byrginu frá því stríðinu lauk árið 1945.

Þegar Þjóðverjar réðust inn í Austurríki í mars árið 1938 setti Hastings Ismay, þáverandi herforingi og ritari varnarmálaráðuneytis, aðgerðaráætlun af stað svo vernda mætti ríkisstjórnina ef til þess kæmi að Þjóðverjar gerðu árásir á Breta.

Kjallarinn undir nýlegu skrifstofuhúsnæði ríkisstjórnarinnar var talinn heppilega nálægur bæði Downing-stræti númer 10 og Þinghúsinu svo að þann 31. maí þetta sama ár var því slegið á fast að þar skyldi útbúið byrgi fyrir valdamenn þjóðarinnar.

Allt sumarið 1938 stóðu iðnaðarmenn í ströngu við að skipta út glerhurðum fyrir þykkar hurðir úr tekki, sandpokum var hlaðið í útskotin, símalínur voru lagðar og BBC setti upp útsendingarbúnað svo að þjóðin fengi fréttirnar frá fyrstu hendi og eins fljótt og auðið væri. Í lok ágúst var búið að prófa hvern krók og kima, kortin komin upp og ekkert að vanbúnaði ef til atlögu kæmi.

Settist á strompinn og púaði vindil

Í þessu fræga kortaherbergi voru margar stórar ákvarðanir teknar.
Kortaherbergið Í þessu fræga kortaherbergi voru margar stórar ákvarðanir teknar.

Mynd: IWM

Þann 29. júlí 1940 kom ríkisstjórn Churchills í fyrsta sinn saman í byrginu og upp frá þeim degi voru varnir Breta gegn innrásum Þjóðverja alfarið skipulagðar frá þessum sögufræga stað. Þar sátu þeir saman við stórt borð sem enn stendur á sínum stað og virtu fyrir sér kort af Evrópu meðan þeir veltu fyrir sér hvernig best væri að verjast foringjanum sturlaða í Berlín.

Þann 11. september 1940 ómaði fyrsta útsending breska ríkisútvarpsins úr byrginu. Með sinni áhrifaríku rödd varaði Churchill landa sína við yfirvofandi loftárásum Þjóðverja og ekki leið á löngu þar til hann fékk sjálfur að finna fyrir því vegna þess að nokkrum dögum síðar var sprengju varpað á aðsetur hans við Downing-stræti 10.

Í kjölfarið fluttu þau hjónin, Churchill og Clementine, í sérstakar vistarverur sem voru standsettar fyrir þau í byrginu og þar gat Churchill haldið í sínar daglegu venjur en eins og áhugamenn vita var hann einstaklega vanafastur þegar kom að matar- og hvíldartímum og hvers konar venjum, meðal annars reykingum. Til eru frásagnir af því hvernig hann vílaði ekki fyrir sér að fara úr kjallaranum og upp á þak til að fylgjast með sprengjuárásum Þjóðverja. Þar settist hann stundum á skorstein og púaði sína frægu vindla þannig að reykurinn sogaðist niður í kjallarann með tilheyrandi ónotum fyrir þau sem þar voru.

Útklóraður stóll enda stressið mikið

Þegar Bandaríkjamenn gengu til liðs við Breta var sérstöku símaherbergi, „Transatlantic Telephone Room“, komið fyrir í byrginu svo að Churchill gæti lagt á ráðin með Bandaríkjaforseta. Hátækni þess tíma var notuð svo að ómögulegt væri að hlera þessi símtöl og sagan segir að hvorugur foringinn hafi viljað lyfta upp tóli fyrr en hinn var kominn á línuna, – enda stórmerkilegir karlar báðir tveir.

Stóll ráðherrans stendur enn á sínum stað í fundarherbergi varnarráðsins og á viðarörmunum má sjá hversu mikið álag var á Churchill; hægri armurinn er allur útklóraður en sá vinstri er holóttur eftir núning frá innsiglinu á hringnum hans.

Svo mikil leynd hvíldi yfir því sem fram fór í þessum herbergjum að Margaret Calley, dulkóðunarsérfræðingur breska hersins, sagði fjölskyldu sinni ekki orð um sína aðkomu fyrr en þrjátíu árum eftir að stríðinu lauk.

Thatcher klippti á borðann 1984

Þann 14. ágúst árið 1945, daginn eftir að Japanir játuðu sig sigraða, voru ljósin í byrginu slökkt í fyrsta sinn í sex ár og þremur árum síðar barst tilkynning frá þinginu um að byrgið skyldi varðveitt í upprunalegri mynd og opið almenningi á fyrirfram ákveðnum tímum.

Árið 1984 klippti þáverandi forsætisráðherra, Margaret Thatcher á borðann þegar stríðsminjasafnið var formlega opnað í þeirri mynd sem það er í dag en árið 2005 var opnað safn um líf og störf Winstons Churchill í hliðarrými en hann lést þann 24. janúar árið 1965, níræður að aldri.

Í safninu, sem hefur hlotið ótal verðlaun, má meðal annars skoða málverk og teikningar eftir hann og ýmsa persónulega muni sem hann átti, til dæmis kampavínsflöskur, öskubakka, fatnað og bréf og ljósmyndir sem fóru á milli þeirra hjóna.

Á meðan þú ert í London skaltu líka …

Heimsækja Saatchi Galleríið við Sloan Square, samtímalist í sinni fegurstu og skemmtilegustu mynd. Einstaklega fallegt hús sem gaman er að heimsækja. Til 6. mars verður hægt að skoða samsýningu nokkurra listamanna en sýningin ber yfirskriftina ICONOCLASTS: Art out of the mainstream og til 25. mars stendur sýningin SALOON 004 en þar eru sýnd málverk sem Philip Pearlstein málaði frá 1990 til 2017.

Heimilisfang:

Duke of York’s HQ
King’s Rd, Chelsea
London SW3 4RY

Vefsíða: www.saatchigallery.com

Veitingastaðurinn Gymkhana hefur fengið rífandi lof enda verðið eftir því. Ef þú vilt gera sérstaklega vel við þig, og finnst gott að borða indverskan mat, þá skaltu endilega heimsækja þennan flotta veitingastað.
Indverskur matur Veitingastaðurinn Gymkhana hefur fengið rífandi lof enda verðið eftir því. Ef þú vilt gera sérstaklega vel við þig, og finnst gott að borða indverskan mat, þá skaltu endilega heimsækja þennan flotta veitingastað.

Panta þér borð á indverska veitingastaðnum GYMKHANA sem hefur fengið rífandi dóma og fimm stjörnur hjá flestum veitingahúsagagnýnendum. Staðurinn er byggður á arfleið Breta í Indlandi en Gymkhana er angló-indverskt orðasamband sem var notað yfir herraklúbba á Indlandi hér áður. Mikil áhersla er lögð á góða tandoori-rétti á staðnum en varastu að biðja um eitthvað mjög sterkt því þegar Indverjar segja að matur sé sterkur þá er hann líklegast að fara að brenna úr þér iðrin.

Sími: +44 20 3011 5900
Vefsíða: https://gymkhanalondon.com
Borðapantanir: opentable.co.uk, bookatable.co.uk

Á Sofra í Mayfair er lögð mikil áhersla á ferskan og góðan mat sem gjarna er borinn fram í litlum skömmtum, eða svokölluðu „meze“ sem gaman er að deila með öðrum.
Tyrkneskt ljúfmeti Á Sofra í Mayfair er lögð mikil áhersla á ferskan og góðan mat sem gjarna er borinn fram í litlum skömmtum, eða svokölluðu „meze“ sem gaman er að deila með öðrum.

Smakka tyrkneska meze-rétti á tyrkneska staðnum Sofra í Mayfair. Mikil áhersla er lögð á fersk hráefni og fjölbreytileika á þessum frábæra veitingastað sem leggur sérstaklega upp úr því að framreiða þjóðlega rétti frá norðurhéruðum Tyrklands.

Heimilisfang:
18 Shepherd St, Mayfair
London W1J 7JG

Borðapantanir: opentable.co.uk
Sími: +44 20 7493 3320

Hingað koma betri borgarar Lundúna og gæða sér á egg Benedikt og góðum mímósum um helgar.
Bröns á Colberts Hingað koma betri borgarar Lundúna og gæða sér á egg Benedikt og góðum mímósum um helgar.

Fá þér morgunmat eða bröns á Colberts. Á Colbert koma betri borgarar London í morgunmat til að fletta blöðum og sötra kaffi. Um helgar fyllist hann af fólki í bröns og því um að gera að panta sér borð ef þú vilt ekki þurfa að bíða. Hönnunin er í skemmtilega gamaldags frönskum stíl en rýmið er samansett af þremur herbergjum og anddyri með flottum bar.

Heimilisfang:
50–52 Sloane Square
Chelsea
London SW1W 8AX

Vefsíða: colbertchelsea.com
Borðapantanir: opentable.co.uk
Sími: +44 20 7730 2804

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki