fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

FERÐALÖG: „Seems it never rains in southern California“

Gagnleg ferðaráð fyrir fólk sem stefnir til Suður Kaliforníu

Margrét Gústavsdóttir
Föstudaginn 12. janúar 2018 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sæluríkið Suður-Kalifornía afmarkast frá svæðinu sem liggur niður af Los Angels í átt að San Diego til landamæra Mexíkó. Þar eru veðurskilyrði með afbrigðum góð en mestan part ársins er hitastigið í kringum 20–25 gráður.

Í þessari grein ætla ég að stikla á stóru um svæðið í kringum Los Angeles og strandbæina þar í kring en margir hafa líkt þeim, og fleiri stöðum í þessu frábæra fylki, við paradís á jörðu.

Fyrst og fremst mun ég þó leitast við að deila gagnlegum ráðum um hvernig maður fær sem mest út úr ferðalaginu, því grein um allt sem hægt er að gera í Suður-Kaliforníu þyrfti miklu fleiri blaðsíður, ef ekki heila bók og jafnvel sjónvarpsþátt í kjölfarið.

LOS ANGELES

Borgin Los Angeles dreifist yfir mjög stórt svæði sem skiptist í nokkur hverfi eða umdæmi sem mörg hver eru ótrúlega mismunandi hvað varðar íbúa og menningu. Meðal þessara hverfa eru til dæmis Beverly Hills, Brentwood, Hollywood, Koreatown, Compton, Silverlake, Echo Park og Santa Monica en flestir kannast líklega við að hafa heyrt á þau minnst í sjónvarpsþáttum eða kvikmyndum. Sumir halda að L.A. sé ægileg glamúrborg en það er í raun tálsýn eins og svo margt annað sem frá henni kemur. Partí í heimahúsum eru þar miklu algengari en næturklúbbasamkomur en ef fólk langar að sýna sig og sjá aðra þá er töluvert líklegra að það gerist í einhverjum tólf spora hóp, í ræktinni eða á framandi jóganámskeiði.

Gatan Sunset Boulevard, sem Donna Summer söng um á sínum tíma, er slagæð borgarinnar, alls 35 kílómetrar að lengd. Upphaf hennar er við Kyrrahafsströndina hjá Pacific Palisades-hverfinu og hún endar við Figueroa Street í „downtown“ Los Angeles en eftir henni er mjög gaman að aka. Til dæmis er upplagt að taka einn rúnt eftir götunni og hlusta á Neil Young, Eagles eða America eða aðra dæmigerða Kaliforníutónlist til að fá stemninguna beint í æð.

Enginn miðborgarkjarni – Meira gaman við ströndina

Það háir borginni svolítið sem ferðamannastað að þar er enginn sérstakur kjarni líkt og í flestum öðrum borgum enda reis hún upprunalega í kringum olíulindir og síðar kvikmyndaverin, en sá hefur verið helsti iðnaður borgarinnar síðustu hundrað árin eða svo. Downtown-hverfið ber til dæmis ekki nafn með réttu því það er í raun enginn miðbær heldur einungis þyrping skýjakljúfa sem hýsa stofnanir, banka og aðrar fjármálastofnanir. Hollywood-hverfið hefur töluvert meira aðdráttarafl þótt þar sé heldur enginn hefðbundinn miðbær.

Í Suður-Kaliforníu er hins vegar ótal margt að sjá og skoða en strandbæirnir sem liggja meðfram Kyrrahafsströndinni eru hver öðrum skemmtilegri. Í raun mæli ég eindregið með að fólk finni sér gistingu í einum slíkum bæ og keyri heldur inn til Los Angeles í dagsskoðunarferðir því þá er hægt að upplifa það besta úr báðum heimum, sóla sig á ströndinni, baða sig í sjónum og læra að standa á brimbretti en aka svo inn í borgina af og til. Sé nægur tími fyrir hendi er jafnvel hægt að bruna upp í fjöllin og renna sér á skíðum eða skoða syndaborgina Las Vegas svo fátt eitt sé nefnt.

Vinsælir ferðamannastaðir í L.A.

Mynd: © Walter Bibikow 2016

Griffith Observatory

Frá stjörnuskoðunarstöðinni í Griffith-garðinum er frábært útsýni yfir alla Los Angeles og þaðan er hægt að skoða Hollywood-skiltið fræga. Þetta er einn allra vinsælasti staður borgarinnar þannig að reynið endilega að mæta á hádegi á virkum dögum til að lenda ekki í ösinni sem myndast stundum um helgar þegar heimamenn sjálfir eru í fríi frá vinnu.

The Grove

Í Hollywood líta heimamenn á The Grove sem sinn miðbæjar- og verslunarkjarna þó ekki séu nema sextán ár síðan þessi verslunarmiðstöð, sem líkir eftir krúttlegum miðbæ einhvers staðar í Mexíkó, var formlega opnuð. Þar er lítið sætt torg með gosbrunni, sætur sporvagn, kvikmyndahús, veitingastaðir og fjöldi verslana sem flestir ættu að hafa gaman af að skoða.

Hollywood walk of fame

Bleiku stjörnurnar og fótsporin í stéttinni fyrir framan Chinese Theatre á Hollywood Boulevard eru það kennileiti sem flestir tengja við draumaborgina, að skiltinu góða undanskildu. Þennan stað er virkilega gaman að heimsækja, þó ekki sé nema til að leggja lófann við afsteypu af lófa uppáhaldsstjörnunnar þinnar og gá hvort þið hafið kannski notað sömu skóstærð.

Mynd: Rob Tilley

Santa Monica Pier

Parísarhjólið við skemmtigarðinn á bryggjunni við Santa Monica er mjög þekkt kennileiti í Los Angeles enda ófáar kvikmyndasenur sem þar hafa verið kvikmyndaðar. Barna- og fjölskyldufólk ætti að leggja leið sína til Santa Monica og njóta dagsins í þessum garði sem er miklu ódýrari skemmtun en til dæmis Universal Studios þó að þangað sé virkilega gaman að koma líka.

Universal Studios

Það er mikilvægt að gefa sér góðan tíma í Universal Studios en þar er ótrúlega margt að sjá og skoða. Helst ætti fólk að vakna fyrir allar aldir og hanga á húninum við opnun. Garðurinn fyllist hratt þegar dregur að hádegi og raðirnar geta orðið langar. Til að fá sem mest úr úr þessu vil ég mæla með að menn splæsi í VIP-kort sem hleypir ykkur fram fyrir röð, annars er hætt við að hálfur dagurinn fari bara í að bíða.

Gagnleg ferðaráð

FLUGIÐ

Dvöl í Kaliforníu ætti aldrei að vera styttri en að minnsta kosti tíu dagar. Í fyrsta lagi er flugferðin vestur eftir tæpir tíu tímar í beinu flugi, í öðru lagi tekur það líkamann smá tíma að jafna sig á því að það er átta klukkutíma mismunur á milli tímabeltanna og í þriðja lagi er svo ótal margt að sjá og skoða á þessu svæði að tíu dagar eru algjört lágmark.
Lengi vel var ekki hægt að komast til vesturstrandar Bandaríkjanna nema með millilendingum í til dæmis Denver eða Seattle og verðið var eftir því en nú er öldin svo sannarlega önnur. Samkvæmt dohop.is kostar óýrasta fargjaldið til Los Angeles aðeins 36.997 krónur fram og til baka ef flogið er út með WOW air á Valentínusardegi, 14. febrúar og aftur heim þann 28. febrúar.

BÍLALEIGUBÍLAR

Greinarhöfundur smellir í sjálfu meðan vinkonan brunar um á blæjubíl í Kaliforníu.
Með vindinn í hárinu Greinarhöfundur smellir í sjálfu meðan vinkonan brunar um á blæjubíl í Kaliforníu.

Mynd: Margret Gustavsdottir

Almenningssamgöngur í Suður-Kaliforníu eru hálfvonlausar og þess vegna mæli ég 100% með því að fólk leigi sér bíl. Suma óar við að aka um á hraðbrautunum en það venst mjög fljótt enda umferðarmenningin góð og ökumenn almennt mjög tillitssamir. Ef tveir eða fleiri ferðast saman er hægt að nota „carpool“ akreinar sem eru mun greiðari og það er frábært því á álagstímum getur umferðin orðið óbærilega hæg.

Ferðalangar ættu að forðast að leggja upp í ökuferðir, eða snúa til baka úr þeim, á þeim tímum sem heimamenn fara til og frá vinnu en þetta er aðalega milli sjö og tíu fyrir hádegi og frá þrjú til sex eftir hádegi.

Marga dreymir um að bruna eftir PCH eða Pacific Coast Highway á blæjubíl enda er það algjörlega æðislegt, en athugið að ef fleiri en tveir eru að ferðast saman í hóp er ómögulegt að koma farangri fyrir í slíkum bíl þar sem blæjan er felld niður í skottið og tekur þannig allt plássið.

Að leigja Mustang-blæjubíl kostar í kringum 100.000 krónur fyrir tvær vikur en sportjeppi á borð við Toyota Rav er í kringum 50.000 skv. upplýsingum frá dohop.is.

Bíladellufólk getur reyndar auðveldlega skipt bílunum út og þannig væri til dæmis hægt að byrja ferðina á hefðbundnum fólksbíl en skipta svo yfir í blæjubíl síðar á ferðalaginu. Bílaleigur eru á öðru hverju horni og þjónustulund Kaliforníubúa á stigi sem var örugglega hannað í himnaríki. Maður veit ekki hvað góð þjónusta er fyrr en maður hefur heimsótt Kaliforníu.

UBER

Segja má að Uber-kerfið hafi bjargað mörgum á þessu svæði en þessir þægilegu leigubílar eru bæði aðgengilegir og ódýrir. Að ferðast eingöngu með Uber yrði þó of kostnaðarsamt til lengdar og því mæli ég heldur með bílaleigubílum til að flakka á milli staða en svo um að gera að bjalla í Uber ef fólk vill fá sér glas.

SIM-kort

Fyrsta verk eftir lendingu ætti að vera að kaupa SIM-kort en þetta er hægt að gera hjá til dæmis AT&T, T-Mobile eða öðru símafyrirtæki. Enn eru engir góðir samningar milli Íslands og Bandaríkjanna og ekki viltu setja þig á hausinn með símareikningi eftir að heim er komið. Gagnamagnið notarðu til að komast á milli staða með Google Maps, bóka borð á veitingastað með opentable.com, finna næsta Starbucks-kaffihús eða tékka á hvenær mest er að gera hjá Universal svo fátt eitt sé nefnt.

Mynd: © 2017 Bloomberg Finance LP

GROPON

Þetta hljómar kannski undarlega en Groupon-appið og tilboðin sem maður finnur þar eru algjör snilld. Groupon er á margan hátt fyrirmyndin að Hópkaupum nema hvað úrvalið af vöru, þjónustu og afþreyingu er margfalt á við það sem við sjáum hér. Þú getur einnig kíkt á vefinn https://www.groupon.com og slegið inn nafnið á svæðinu sem er næst gististaðnum. Þá kemur upp fjöldinn allur af góðum tilboðum í margs konar afþreyingu og þjónustu. Sem dæmi má nefna hótelgistingu, nudd, siglingu, siglingu og vínsmökkun, þyrluflug, þyrluflug með ljósmyndum, B-12-sprautur (án gríns), botox-sprautur (án gríns), tónleika, gönguferðir með leiðsögn, kajakferðir, brettakennslu og svo framvegis og svo framvegis.

GISTING

Nú fer það alveg eftir fjölda ferðalanga hvaða valkostur er ákjósanlegastur hvað gistingu varðar en hugguleg Airbnb íbúð í göngufæri við góða strönd er örugglega langskemmtilegasti kosturinn. Ég mæli með að fólk kanni gistingu í strandbæjum á borð við Laguna Beach, Newport Beach, Hermosa Beach, Huntington Beach, Dana Point – eða jafnvel Malibu Beach ef menn vaða í seðlum upp að geirvörtum. Einnig væri hægt að leigja eitthvert fallegt slot í Hollywood en þá er um að gera að reyna að finna húsnæði með sundlaug svo fólk geti nú skolað af sér á milli sólbaða. Annar valkostur er að skrá eigið húsnæði á vefi eins og homestay.com eða lovehomeswap.com en þar geta húsnæðiseigendur skipst á íbúðum eða húsum og komið út á sléttu.

Ef ég væri þú myndi ég prófa …

  1. Siglingu með Duffy Boat frá Newport Beach
Kátir krakkar sigla um á Duffy Boat við Newport Beach.
Ruggudugguduggu Kátir krakkar sigla um á Duffy Boat við Newport Beach.

Mynd: Margret Gustavsdottir

Þið útbúið girnilegt nesti, gerið góðan „playlista“ og njótið þess svo að sigla um á huggulegum bát innan um villurnar í bryggjuhverfinu við Newport Beach. Stórkostleg skemmtun fyrir alla aldurshópa!

http://www.duffyofnewportbeach.com

  1. Kajaksiglingu við Laguna-ströndina

Íslendingar elska sjóinn svo það er ekki nema eðlilegt að mæla með siglingartúrum. Að róa á kajak í Kyrrahafinu með góðum leiðsögumanni er ávísun á góðan dag. Mögulega getið þið rekist á nokkra hvali en þeir eru mjög algeng sjón á þessum slóðum.

http://www.lavidalaguna.com

  1. Vínsmökkun og siglingu frá Dana Point

Hvernig væri að halda áfram með siglingarnar en blanda vínsmökkun inn í dæmið? Í Kaliforníu eru einhver bestu vínhéruð heims og vínsmökkun því algjör skylda fyrir þau sem hafa aldur og heilsu til. Ferðin kostar í kringum 50 dali.

http://www.ocwinecruise.com

  1. Kaupa eitthvað gott að borða í Whole Foods

Matarsnobbarar mega alls ekki sleppa því að kíkja inn í Whole Foods-búðir í Kaliforníu en í þessum verslunum er úrvalið engu líkt og ferskleikinn – já, maður lifandi! Ef Nigella Lawson og Jamie Oliver myndu reka matvöruverslun þá væri hún örugglega eins og Whole Foods. Þú slærð bara „Find Whole Foods near me“ inn í Google-leit og snjallsíminn vísar þér á réttan stað.

  1. Skoða föt og fylgihluti í T.J. Maxx

Sama hvort þú elskar eða hatar að kaupa þér föt þá er alltaf hægt að finna eitthvað frábært í T.J. Maxx en þessi verslunarkeðja selur aðallega merkjavörur með miklum afslætti. Sem dæmi um framleiðendur má nefna Marc Jacobs, Michael Kors, Stellu McCartney, Calvin Klein og marga fleiri. Aftur skaltu slá „Find T.J. Maxx near me“ og viti menn – þér munuð finna!

Mynd: Margret Gustavsdottir

  1. Koma við í Costco

Kortið á að virka um allan heim svo hvers vegna ekki að kíkja í Costco í Kaliforníu? Þú gætir kannski splæst í bretti af kampavíni eða keypt eitthvað annað sniðugt. Til dæmis bara bensín á blæjubílinn. Costco-ferð er jú alltaf ævintýri líkust.

Mynd: @VEETERZY

  1. Fara á uppistand eða tónleika

Fyrir nokkrum árum var ég svo heppin að sjá uppistand með hinum heimsþekkta sjónvarpsmanni Jay Leno á litlum klúbbi við Hermosa Beach en við áhorfendurnir vorum kannski svona fimmtíu talsins. Á vefnum ticketmaster.com finnur þú miða á alls konar tónleika, uppistand og fleira skemmtilegt sem leynist í grennd við það svæði sem þið kjósið að gista á. Miðana er hægt að kaupa með kreditkorti og svo fær maður þá bara senda í tölvupósti. Guð blessi internetið.

https://ticketmaster.com

Mynd: Margrét Gústavsdóttir

  1. Skoða antíkmarkaðinn í San Juan Capistrano

Í þessum krúttlega smábæ er einn flottasti antíkmarkaður sem ég hef komið í á ævinni. Í raun má kalla þetta einskonar antíkmoll en þar leynist hreinn aragrúi af gersemum. Draumur í dós fyrir fólk sem finnst gaman að gramsa og skoða gamla muni. Hér er Facebook síða markaðarins.

ATH: Margar af þessum uppástungum gætu verið á tilboði hjá Groupon svo ekki klikka á því að skoða úrvalið þar um leið og þú skipuleggur ferðalagið.

Góða ferð og góða skemmtun!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar