Ásdís Rán: „Ég var ekkert ofsalega ánægð með mig“

Mynd: Brynja

Hún heitir Ásdís og hún er ljón. Dæmigert ljón. Íburðarmikið ljón sem elskar athygli, sviðsljósið, glamúr og glys. Sjálfsörugg, skapandi og kraftmikil glamúrsprengja sem hefur alltaf kunnað að bjarga sér og fylgja draumum sínum eftir en þessir eiginleikar hafa meðal annars veitt henni frásagnarverða og viðburðaríka ævi í þau tæp fjörtíu ár sem hún hefur verið til.

Ásdís Rán Gunnarsdóttir leit dagsins ljós á Egilsstöðum þann 12. ágúst árið 1979, sama ár og hljómsveitin Queen sendi frá sér lagið „Don't Stop Me Now“. Svolítið táknrænt. Foreldrar hennar, Gunnar Vignisson, útibússtjóri Íslandsbanka á Egilsstöðum, og Eygló Gunnþórsdóttir myndlistarkona skildu þegar Ásdís var rétt um tveggja ára og fyrstu æviárin flæktist sú stutta milli Egilsstaða, Reykjavíkur og Hornafjarðar. Þrettán ára mætti svo unglingurinn alfarið á mölina með mömmu sinni og litlu systur, Hrefnu Sif, sem er níu árum yngri en Ásdís.

Skapandi kynbomba sem væri örugglega greind með lesblindu í dag

Mæðgurnar þrjár fluttu á milli nokkurra íbúða í Bakkahverfinu í Breiðholti en bjuggu lengst af í Dvergabakka. Ásdís gekk í Breiðholtsskóla og segist hafa verið óttalegur villingur eins og algengt var með Breiðholtskrakka á þessum árum, lyklabörnin svokölluðu. Hún stóð sig þó þokkalega í námi, var best í listnámi og öðrum skapandi greinum en lélegust í stafsetningu.

„Ég hef reyndar aldrei verið greind með lesblindu enda þekktist ekkert svoleiðis á þeim árum þegar ég var að alast upp. Ég er hins vegar nokkuð viss um að ég fengi þessa greiningu ef hún væri gerð á mér í dag,“ segir Ásdís og brosir milt þar sem hún situr vel til höfð á móti blaðamanni Birtu á nýlegu kaffihúsi við Hlemm. Hún er í hvítri, þröngri peysu úr angora ullarefni, með fíngerða skartgripi úr gulli og vel snyrtar neglur í gylltum og svörtum lit. Við hlið hennar í sófanum stendur lítil svört og gyllt taska frá Louis Vuitton. Förðunin er klassísk; fölbleikt gloss á þrýstnum vörum og svartur „eye liner“. Í raun er hún eins og bomba klippt út úr blaði síðan sirka 1960. Hún gæti verið dóttir Pamelu Andersson. Barnabarn Marilyn Monroe, Jane Mansfield eða Mamie Van Doren. 100 prósent kynbomba af gamla skólanum.

Fór að heiman fimmtán ára

Ásdís var ein af þessum stelpum sem gátu ekki beðið eftir því að fá að ráða sér sjálfar. Um leið og grunnskólanum lauk sagði hún skilið við neðra Breiðholtið, vinkaði bless og flutti beinustu leið í miðborgina, þá aðeins fimmtán ára. Hún leigði sér litla íbúð og skráði sig í hárgreiðslunám við Iðnskólann í Reykjavík.

„Svo var ég að vinna á börum, veitingastöðum og kaffihúsum á kvöldin. Ég held að ég hafi örugglega unnið á hverjum einasta bar í bænum,“ rifjar hún upp og fær sér lítinn sopa af espresso macchiato. Sköpunargleðin og frumkvöðlaeðlið gerðu það að verkum að Ásdís lét sér ekki duga að vinna bara við að afgreiða drykki. Ekki leið á löngu þar til hún var byrjuð að skipuleggja hvers konar skemmtikvöld og fegurðarsamkeppnir, til dæmis Ungfrú Hawaiian Tropic, Miss Kiss og fleiri fjöruga viðburði sem djammarar um fertugt eiga auðvelt með að rifja upp í dag. Í gegnum þessa viðburði má segja að hún hafi verið uppgötvuð sem glamúrfyrirsæta og þar með byrjuðu draumar sveitastelpunnar að rætast.

Ég var ekkert ofsalega ánægð með mig

Hún rifjar upp hvernig hún, sem krakki, heillaðist af tískufyrirsætum á borð við Kate Moss, Naomi Campbell og þessum helstu næntís fyrirsætum sem mynduðu fyrstu kynslóð fyrirsæta sem urðu heimsþekktar eins og leikkonurnar í Hollywood.

„Eins og margar stelpur á þessum árum var ég alveg með stjörnurnar í augunum yfir þessum skvísum þótt ég hafi ekki verið mikið efni í fyrirsætu á þessum tíma. Ég var bara svona sveitastelpa, svolítið þykk, kannski ekkert rosalega fríð þannig séð, ég veit það ekki, ég var að minnsta kosti ekkert ofsalega ánægð með mig. Svo rættist allt í einu úr mér á kynþroskaaldrinum. Ég skánaði aðeins ef svo mætti að orði komast,“ segir hún og skellir upp úr.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.