Jóhann Alfreð er spenntur fyrir óvirkum morgnum og RIFF

Hvað ætlar þú að gera um helgina?

„Ég geri ráð fyrir að föstudagurinn fari allur í andlegan undirbúning vegna landsleiks Tyrkja og Íslendinga um kvöldið.
Ég hef verið að kynna mér öll staðargögn og langtímaspána í Antalya í vikunni til að róa taugarnar. Ég er nokkuð bjartsýnn á þetta en mun sennilega rífa í mig nýjasta Fílalag podcast þáttinn rétt fyrir „kick off“ til að halda sönsum. Ég er hættur að notast við vekjaraklukku en vakna nú þegar Benedikt Elí, þriggja mánaða syni mínum, finnst það tímabært. Þetta er ný, en ágæt, stefna. Við fjölskyldan stefnum allavega á rólegheita laugardag og engar útréttingar fyrirhugaðar svo þetta verður alveg BYKO-laust. Sem er hið besta mál. Vonandi verðum við bara í notalegheitum og tökum góðan göngutúr.

Sjálfur er ég spenntur fyrir að hlusta á endurkomu Andra Freys og Gunnu Dísar með Óvirka morgna á Rás 2 á laugardagsmorguninn. Um kvöldið fer svo fram lokahóf Reykjavík International Film Festival eða RIFF.

Ég hef starfað við þá frábæru hátíð undanfarin ár en er í minna hlutverki nú en áður. Það jákvæða er að þá gefst miklu meiri tími til að sjá allar myndirnar. Lokamynd RIFF, Borg vs. McEnroe, er einmitt sýnd á laugardag og ég stefni á að sjá hana. Ég er mikill tennisáhugamaður og hef lengi ætlað að panta úrslitaleik þeirra á Wimbledon 1980 á DVD. Ég á líka allavega tvö pör af Björn Borg-sokkum svo mér rennur blóðið til skyldunnar.

Ég hlakka svo til að hitta hópinn sem stendur að hátíðinni síðar um kvöldið á lokahófinu. Vonandi gefst tími til að sjá meira á RIFF á sunnudag. Heimildamyndin 69 mínútur af 86 dögum og Faces Places sem vann til verðlauna á Cannes eru sýndar þá og virka allavega mjög spennandi. Sunnudagurinn mun svo að mestu fara í venjubundnar áhyggjur mínar af gengi NFL fantasy-liðsins míns.

Við erum fjórtán saman í hörkudeild og heilir fjórtán leikir á dagskrá. Ef A.J. Green, minn aðalútherji hjá Cincinnati, hleypur heilan haug af metrum þá sofna ég eflaust sáttur og glaður á sunnudagskvöld.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.