Hvers vegna eru karlar líklegri til að brjóta af sér?

Afbrotafræðingurinn Margrét Valdimarsdóttir í viðtali um lögregluna, samfélagslega stimpla og það að ala upp einhverfan son í New York

Mynd: Brynja

Margrét Valdimarsdóttir hefur verið áberandi sem álitsgjafi og sérfræðingur í fréttatímum síðustu misserin enda sérfróð um mál tengd lögreglu og afbrotum. Dyggir útvarpshlustendur, sem komnir eru á miðjan aldur, kannast líka margir við hana frá árunum sem hún starfaði sem dagskrárstjóri, lengst af á Léttbylgjunni og síðar á X-inu.

Mynd: Brynja
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Margrét vann í því að frelsa landann með sálar- og Motown-tónlist. Nú kennir hún tölfræði og afbrotafræði við Háskóla Íslands og vinnur að rannsóknarstörfum, ásamt því að leggja lokahönd á doktorsnám í afbrotafræði við City University í New York.

Hún segist ekki hafa átt sér stóra æskudrauma um verða doktor í afbrotafræðum. Að loknu námi við Fjölbrautaskólann í Breiðholti fór hún beint til Malaga á Spáni þar sem hún vann við að hrista kokteila á kvöldin og lærði spænsku á daginn.

„Þegar ég kom heim fór ég í eitthvert útvarpsviðtal á FM 957 og komst að því að það voru engar stelpur að vinna þarna. Mér fannst eins og mér bæri skylda til að laga þetta ástand og bauð fram starfskrafta mína. Þegar útvarpsstjórinn afþakkaði þá bauðst ég bara til að vinna frítt og var þá hleypt í hljóðnemann. Þetta stóð reyndar ekki lengi því fljótlega var ég ráðin í venjulegt starf,“ segir hún og hlær.

Sat fremst í öllum fyrirlestrum

Margrét kynntist fyrri barnsföður sínum, Svala Kaldalóns, í vinnunni við útvarpið og átti með honum Maríu Rós, sem fæddist árið 1998. „Já, María er tæknilega séð fyrsta íslenska útvarpsbarnið,“ segir hún og skellir upp úr.
Margrét og Svali voru saman í tæplega fjögur ár en skildu þegar María var um það bil tveggja ára. Margrét starfaði áfram við útvarpið en fann fljótt að hana langaði til að mennta sig frekar og því varð úr að hún skráði sig félagsfræði við Háskóla Íslands.

„Til að byrja með ætlaði ég að fókusera á fjölmiðlafræði en svo féll ég alveg fyrir félags- og afbrotafræðinni af því kennararnir voru svo frábærlega skemmtilegir. Þegar þarna var komið sögu hafði ég verið í tíu ár á vinnumarkaði og var mjög spennt fyrir náminu. Sat alltaf fremst í öllum fyrirlestrum, mætti vel lesin í alla tíma og las oftast líka efni sem ekki var sett fyrir. Ég hélt að allir gerðu þetta svona, en komst fljótlega að því að það er ekki þannig. Ég var og er hálfgert nörd.“

Þegar kona kærir eiginmann sinn fyrir nauðgun, og greinir frá því að hann hafi nauðgað henni vikulega í eitt ár, eru þetta núna skráð sem fimmtíu og tvö aðskilin brot en áður hefði þetta verið skráð sem eitt.
##Með óseðjandi áhuga á afbrotafræði

Hún segist fyrst hafa hitt sambærileg nörd þegar hún hélt í doktorsnám við City University í New York en þar kepptust nemendur við að lesa ítarefni og láta ljós sitt skína.

„Mér fannst stundum að nemendur hér á Íslandi væru að keppast við að hafa sem minnst fyrir því að fá svona ásættanlegar einkunnir, en úti í náminu þótti það ekki fínt,“ segir Margrét sem skráði sig upphaflega í doktorsnám við Háskóla Íslands, þá nýbökuð móðir, en sonur hennar Egill, fæddist sumarið 2009.

„Verandi tveggja barna móðir, og svona í eldri kantinum, fannst mér eins og það væri viðeigandi en ég fann fljótt að það var ekki nóg fyrir mig. Eftir á að hyggja er ég ótrúlega glöð að hafa farið í nám til Bandaríkjanna. Þetta var stundum erfitt en líka það skemmtilegasta sem ég hef gert. Ég eyddi nánast öllu fyrsta sumrinu á bókasafninu á 34. stræti, á ská á móti Empire State enda þarf maður að sanna sig eftir eitt ár í námi til að geta haldið því áfram. Það er gerð krafa um að maður kynnist öllu sviðinu áður en maður sérhæfir sig og til þess þarf að lesa nánast allt sem er talið skipta einhverju máli í afbrotafræðum. Þetta var frábært sumar enda alltaf góð loftkæling á bókasafninu. Eftir eitt eða tvö ár fer maður svo í það að sérhæfa sig en ég átti erfitt með það af því mér fannst allt svo skemmtilegt, sem er alls ekki gott í doktorsnámi,“ segir Margrét hlæjandi og bætir við að það sé meðal annars vegna þessa óseðjandi áhuga á faginu sem hún ákvað að einbeita sér að tveimur viðfangsefnum í doktorsrannsókninni. Annars vegar samskiptum lögreglu og borgara og hins vegar langtímaáhrifum af refsingum hvers konar.

„Hvers vegna eru karlar líklegri til að brjóta af sér?“ og aðrar áhugaverðar spurningar

„Afbrotafræðin er þverfagleg eins og hún er kennd, að minnsta kosti víða í Bandaríkjunum, sem gerir hana að mjög spennandi fræðigrein. Það er hægt að rannsaka afbrot út frá svo mörgum sjónarhornum, til dæmis félagsfræðilegum, sálfræðilegum, líffræði- eða lögfræðilegum. Við gætum til dæmis viljað svara því af hverju karlar eru svona miklu líklegri en konur til að brjóta af sér? Til að komast að svarinu er hægt að beita líffræðilegum kenningum og rannsóknum en líffræðin á hins vegar erfitt með að svara af hverju kynjamunurinn er svona mismunandi á milli ólíkra landa og af hverju hann hefur aðeins minnkað á undanförnum áratugum. Félagsfræðileg nálgun hentar betur til að svara þessu og til dæmis af hverju 95 prósent skráðra brotamanna í sumum löndum eru karlar, en um 65 til 70 prósent í öðrum löndum. Ef við höldum að skekkja í vinnubrögðum lögreglu skýri þennan mun, að lögreglan sleppi frekar konum en körlum til dæmis, þá erum við enn að beita félagsfræðilegri nálgun, og kannski sálfræðilegri, að einhverju leyti. Þannig að þetta er endalaust fjölbreytt.“

Ýktar hugmyndir um karlmennsku ríkjandi hjá lögreglunni

Margrét segir að lögreglan sem stofnun sé mjög mikilvæg og áhugaverð þótt ekki sé nema bara fyrir þá staðreynd að þetta er eina starfið þar sem ætlast er til að menn beiti valdi og hafa lagalega heimild til þess. Menntun og þjálfun lögreglunnar sé því gríðarlega mikilvæg enda vald mjög vandmeðfarið. Hún segir að sér hafi þótt það mikil gleðitíðindi þegar hún frétti að lögreglunámið yrði fært upp á háskólastig og að fræðilegar rannsóknir á störfum lögreglunnar séu líka mikilvægar þótt hingað til hafi verið allt of lítið af þeim á Íslandi. Hún er þó bjartsýn á að þetta fari að breytast.

„Lögreglan á Íslandi hefur, eins og í öðrum löndum, verið mikil karlastofnun. Rannsóknir staðfesta að mjög ýktar hugmyndir um karlmennsku séu ríkjandi í faginu en ég held að þær séu erfiðar fyrir karlmenn. Karlmenn verða að fá að vera viðkvæmir, því auðvitað eru þeir það líka eins og konur stundum. Við erum öll svo viðkvæm á köflum. Að sama skapi held ég, að þó líkamlegur styrkur sé mikilvægur, í vissum aðstæðum í starfinu, sé hann líka aðeins ofmetinn og tilfinningalegur styrkur vanmetinn. Það er að segja, það að vera í andlegu jafnvægi, að finna fyrir samkennd, að geta sett sig í spor annarra og að geta hlustað á og talað við fólk, það skiptir raunverulegu máli og þá gildir einu hvort þú ert karl eða kona. Í lögreglustarfinu er mikilvægara en í flestum öðrum störfum að geta sýnt alls konar fólki virðingu, líka fólki sem flest okkar vilja helst forðast,“ segir Margrét og bætir við að það sé jafnframt mikilvægt að almenningur treysti lögreglunni og sýni henni virðingu en virðingin verði líka að vera gagnkvæm. „Í samanburði við önnur lönd eru Íslendingar samt frekar ánægðir með störf lögreglunnar og treysta henni betur en mörgum öðrum stofnunum samfélagsins.“

Mynd: Brynja

Stimplar og smánun í samfélaginu ekki uppbyggjandi leið til betrunar

Eins og fyrr segir er Margrét líka að rannsaka langtímaáhrif af refsandi aðgerðum. Þar skoðar hún meðal annars stöðug afskipti lögreglu, refsandi aðgerðir í skólakerfinu, hvaða áhrif það hefur á ungt fólk að vera handtekið af lögreglu og/eða rekið úr skóla, hvaða áhrif það hefur á sjálfsmynd, áframhaldandi skólagöngu og starfsframa svo sitthvað sé nefnt.

„Með því að setja fram þessar spurningar er ég ekki að segja að það eigi ekki að bregðast við þegar reglur eru hundsaðar. Sérstaklega þegar fólk beitir ofbeldi. Agi er mikilvægur, en við verðum að huga að þeim aðferðum sem eru notaðar. Hver er eftirfylgnin? Það þarf að hlúa sérstaklega að nemendum sem hafa verið reknir úr skóla og taka vel á móti þeim þegar þeir snúa til baka. Ekki bara vegna þess að það er það sem almennilegt fólk gerir, heldur líka vegna þess að þannig drögum við stórlega úr líkum á endurtekinni brotahegðun. Stimplun og smánun eru ekki vænlegar leiðir til betrunar. Ég hef áhuga á formlegum refsingum, eins til dæmis því hvað virkar og hvað ekki í fangelsiskerfinu, en ég hef eiginlega meiri áhuga á óformlegum refsingum sem eiga sér stað úti í samfélaginu. „Þetta er Siggi. Hann er átta ára lygari.“ Hvað gera svona yfirlýsingar sjálfsmyndinni? Varla neitt gott?“

Tíðni nauðgana breyttist þegar skilgreining á kynferðisbrotum var víkkuð

Margrét segist líka hafa mikinn áhuga á samanburði milli landa og þá er það helst aðferðafræðin sem heillar. Hún segir að sama athæfið sé gjarna skilgreint á ólíkan hátt í lögum landa og því oft erfitt að nota lögreglugögn til að segja til um hvort tíðni af einni tegund glæpa sé hærri í landi A en landi B. Verklag lögreglunnar sé líka með mjög ólíkum hætti á mismunandi stöðum, bæði hvernig brot eru skráð og hvað lögreglan einblíni á hverju sinni. Þetta hafi áhrif á skráða tíðni afbrota.

„Svo er fólk auðvitað misjafnlega tilbúið að tilkynna brot til lögreglu og þá komum við aftur að trausti til lögreglunnar sem er mjög mismunandi eftir löndum. Ég hef gert rannsókn þar sem ég ber saman alvarlegt ofbeldi gegn konum og körlum, eins til dæmis morð, á milli landa og tengi við tekjuójöfnuð og kynjaójöfnuð innan hvers lands,“ segir hún og bætir við að þetta geti vissulega orðið svolítið flókið. Sem dæmi nefnir hún fréttir af því að tíðni nauðgana hafi aukist í Svíþjóð á undanförnum árum og að þetta tengist auknum fjölda innflytjenda. Hún segir þetta ekki stemma við tölfræðigögn.

„Tíðni nauðgana í Svíþjóð hækkaði hins vegar þegar Svíar breyttu skilgreiningum og skráningum á kynferðisbrotum. Skilgreiningin hefur víkkað. Nú er fleira sem er talið refsivert en áður var. Nú er líka hvert brot með sama geranda og þolanda skráð sem einstakt brot,“ segir hún og nefnir dæmi.

„Þegar kona kærir eiginmann sinn fyrir nauðgun, og greinir frá því að hann hafi nauðgað henni vikulega í eitt ár, eru þetta núna skráð sem fimmtíu og tvö aðskilin brot en áður hefði þetta verið skráð sem eitt. Í sumum löndum er enn í dag ekki hægt lagalega séð að nauðga maka sínum, þannig að þess konar brot koma aldrei á borð lögreglunnar. Það gefur auga leið að í þeim löndum er tíðni nauðgana sem birtist í lögreglugögnum mjög lág. Svo upplifir fólk sama athæfið á ólíkan hátt í ólíkum samfélögum sem gerir þetta enn flóknara,“ segir hún og bendir um leið á að fólk þurfi að skoða samanburðinn vel. Til dæmis hversu langt aftur í tímann samanburðurinn nær, hvort skráningar lögreglu hafi breyst og hvað sé verið að bera saman.

Við fæðumst með ólík verkfæri til að fóta okkur í þessum heimi

Margrét segir að í öllum samanburði hafi glæpatíðni lækkað í Svíþjóð á síðustu tuttugu til tuttugu og fimm árum eins og í flestum þeim löndum sem eru laus við stríð og að fyrir flest okkar sé heimurinn að verða öruggari og almennt betri staður til að búa á. Þetta sé þó auðvitað ekki algilt og framfarir sannarlega ekki sjálfgefnar.
Hún bendir líka á að vissulega sýni rannsóknir frá Svíþjóð að innflytjendur séu aðeins líklegri en innfæddir til að brjóta af sér, en það tengist yfirleitt félagslegum aðstæðum þeirra sem eru oft ólíkar aðstæðum innfæddra. Hærri afbrotatíðni meðal aðkomumanna gildi þó ekki alls staðar og sé þannig ekki regla.

„Til dæmis er afbrotatíðni meðal innflytjenda ekki hærri en meðal innfæddra, mjög víða í Bandaríkjunum. Þannig að móttökurnar og aðstæður innflytjenda hljóta að skipta máli líka. Svo getur verið að bakgrunnurinn skipti máli, að ólík viðhorf í ólíkum menningarsamfélögum hafi áhrif, það þarf bara að rannsaka þetta betur. Ekki til að nota sem ástæðu til að loka landamærum, heldur til að komast að því hvernig við getum betur brugðist við og komið í veg fyrir afbrot. Það er engin fæddur vondur en við fæðumst mörg með ólík verkfæri til að fóta okkur í þessum heimi. Flestir sem beita ofbeldi hafa lært það á einhvern hátt, að það sé tól sem sé eðlilegt eða gagnlegt að nota í ákveðnum aðstæðum,“ útskýrir hún.

Mynd: Brynja

Tengir við Sögu Noren

„Ég hef mikinn fræðilegan áhuga á lögreglustarfinu en myndi samt ekki vilja vera lögreglukona, nema ef ég fengi að vera eins og Saga Noren í Broen,“ segir hún og brosir út í annað.

Hvernig stendur á því?

„Jú, ég hef alltaf tengt svolítið við hana, ekki bara af því að við erum báðar ljóshærðar og uppteknar af glæpum, heldur er hún líka með einhver karaktereinkenni sem ég kannast við hjá sjálfri mér. Hún á greinilega að vera á einhverfurófinu og ég hef stundum velt því fyrir mér hvort ég sjálf einhvers staðar á þessu rófi, sem er reyndar mjög breitt. Ég hef þó aldrei fengið neina formlega greiningu, eða sóst eftir henni, og fór reyndar ekkert að spá í þetta fyrr en sonur minn var greindur með einhverfu þegar hann var tveggja ára. Við pabbi hans höfum eðlilega bæði pælt mikið í því hvaðan einhverfa komi og vitum til dæmis að þetta orsakast ekki út frá bólusetningum. Hins vegar getur vel verið að erfðamengin hafi eitthvað að segja. Sjálf hef ég alveg gríðarlega þörf fyrir skipulag og finnst öll óvissa mjög óþægileg sem er oft einkenni þeirra sem eru á rófinu. Á sama tíma hef ég þörf fyrir mjög skýr skilaboð í samskiptum en fatta samt alveg grín, sem Saga gerir reyndar ekki. Við erum ólíkar þannig. Ég er rosalega góð að fatta grín,“ segir hún og hlær.

Sögðu soninn íslenskan, ekki einhverfan

Egill hafði verið mjög stuttan tíma í leikskólanum á Manhattan þegar kennari hafði orð á því að kannski hefðu foreldrar hans áhuga á að senda hann í greiningu.
„Okkur fannst þetta alveg út í hött og bentum á að hann væri íslenskur, þess vegna væri hann kannski lengi að svara henni. Hann kynni bara ekki ensku. Kennarinn útskýrði fyrir okkur að hún hefði nú unnið lengi á leikskóla með börnum sem ekki höfðu ensku að móðurmáli en að viðbrögð sonar okkar væru ekki eins og hjá þessum krökkum. Smátt og smátt fórum við þá að taka eftir því að það var ekki allt með felldu og innan við mánuði síðar var sonur okkar greindur með dæmigerða einhverfu.“

Hefði ekki getað verið á betri stað en í New York

„Þegar Egill fékk þessa greiningu kom upp hjá okkur sú pæling að slútta bara öllu, pakka saman og flytja til Íslands. Þar bjuggum við jú í norrænu velferðarsamfélagi, að við héldum, og því væri eflaust betra að vera með barnið á Íslandi. Við komumst fljótlega að því að svo var ekki. Í raun hefðum við ekki getað verið á betri stað en í New York með barnið okkar. Fyrir nokkrum árum var gert mikið átak í velferðarkerfinu hjá fylkinu. Átak þetta kallast „Early Intervention“ og byggist á því að því fyrr sem hafist er handa við greiningu og þjálfun, því meiri eru líkurnar á því einstaklingurinn sem greinist með, og býr við fötlunina, geti notið þokkalegra lífsgæða. Þetta hefur gefið frábæran árangur og við nutum góðs af honum. Ef við hefðum verið á Íslandi þá hefðum við til dæmis þurft að bíða í heilt ár eftir því að komast með hann í greininguna. Í New York tók þetta bara örfáar vikur og í kjölfarið fór hann beint í tal- og iðjuþjálfun á hverjum degi og þessi þjónusta er hluti af almenna skólakerfinu í fylkinu, en ekki eitthvað sem þarf að borga sérstaklega fyrir eða bíða lengi eftir,“ útskýrir hún.

Eftir að hafa búið í fimm ár í fjölmenningarborginni New York fluttu þau heim. Margrét hafði þá kannað aðstæður í skólum á höfuðborgarsvæðinu en komst að því að úrræðin eru bæði færri og einsleitari en þau sem voru í boði í New York.
„En eftir að hafa vandlega skoðað sérdeildirnar í flestum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu komst ég loks að því að syni mínum hentaði best að fara í Klettaskóla. Samt efast ég alltaf reglulega enda mjög flókið að finna skóla við hæfi þessa hamingjusama og heilsuhrausta drengs sem neitar nú að byrja að tala íslensku.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.