Tilvist hins miðaldra karlmanns

Mynd: Brynja

Daníel Ágúst Haraldsson hefur verið áberandi á tónlistarsenu landans í um þrjátíu ár, eða allt frá því að hann steig fyrst á svið í Norðurkjallara MH með vinum sínum í Nýdönsk og söng af miklum þrótti um stelpu sem hét Hólmfríður.

Fyrir nokkrum dögum sendu félagarnir í Nýdönsk frá sér sína tíundu plötu en hún ber nafnið Á plánetunni jörð. Með henni fagna þeir meðal annars þeim merkilega áfanga að hafa starfað saman í þrjá áratugi eða allt frá því þeir voru sextán og sautján ára gamlir menntaskólastrákar í MR og MH.

Í tilefni tímamótanna fór Birta á fund við Daníel Ágúst. Fékk tíu dropa og fræddist um gömlu dagana með Nýdönsk, forréttindi farandsöngvarans og almenna tilvist hins miðaldra karlmanns.

Hvaða lag með Nýdönsk sló fyrst í gegn?

„Sko. Fyrsta lagið sem náði verulegri áheyrn og vinsældum var Hólmfríður Júlíusdóttir. Þetta var árið 1988 en við höfðum tekið upp eitt eða tvö lög ári áður þar sem við unnum hljóðverstíma í hljómsveitakeppni í Húsafelli. Stuðmenn héldu keppnina og við urðum alveg ægilega glaðir þegar við unnum þessa keppni þá barnungir, sextán eða sautján ára. Þarna var Björn Jörundur reyndar búinn að semja hið ódauðlega lag Fram á nótt en okkur hugkvæmdist hins vegar ekki að taka það upp í tímanum sem við fengum í verðlaun heldur völdum við lagið Síglaður. Það má kannski kalla þetta bernskubrek,“ rifjar Daníel upp um leið og hann fær sér sæti við eldhúsborðið.

Spígsporuðu um Kringluna í sparifötum

„Í kjölfarið gerðum við skondið myndband við lagið um Hólmfríði þar sem við spígsporuðum um Kringluna í sparifötunum. Myndbandið, og lagið, fangaði athygli hljómplötuútgefandans Steinars Berg og þessu fylgdi svo plötusamningur sem gaf af sér fyrstu breiðskífuna, Ekki er á allt kosið. Þarna var þó töluverður tími liðinn frá því að við vorum uppgötvaðir þarna í Húsafelli,“ segir hann og nefnir um leið að líklegast réð þessi atburðarás því að tónlistin varð fyrir valinu sem hans ævistarf.

„Við sem stofnuðum hljómsveitina fórum nefnilega ekki allir út í tónlist. Valdimar Bragi Bragason fór í tölvuforritunarbransann, Einar Sigurðsson ætlaði að verða sjóntækjafræðingur en gerðist svo flugstjóri og hefur starfað við það í tugi ára en Bergur Már Bernburg fór út í kvikmyndagerð. Þetta var sem sagt ekki köllun hjá okkur öllum heldur í raun bara eitthvert menntaskólabrall. Svo entumst við þrír í þessu. Við Björn Jörundur ásamt Óla Hólm. Jón Ólafs stjórnaði upptökum á fyrstu plötunni okkar. Hann settist svo við hljómborðið og hefur setið þar síðan.“

Velti því fyrir sér að gerast sálfræðingur

En hvað með þig? Ætlaðir þú alltaf að verða tónlistarmaður?

„Nei, ég get ekki sagt það. Tónlistin var ekkert endilega númer eitt. Mig langaði svolítið að verða leikari eins og pabbi minn, Harald G. Haralds. Var eitthvað að velta því fyrir mér. Svo var ég líka að spá í að verða sálfræðingur, fara út í þessar mannúðar- eða hugvísindagreinar. En svo fór meiri og meiri tími hjá mér í það að gera tónlist og þannig varð þetta að ævistarfi. Þetta var í raun samt bara tilviljun. Sumir virðast geta planað framtíð sína strax, eins og æskuvinur minn sem ætlaði alltaf að verða lögfræðingur og svo varð hann bara lögfræðingur. Ekkert flókið við það. Áhugi minn stóð hins vegar í allar áttir en svo fer þetta kannski eftir því hvað maður setur tíma sinn í og æfingin skapar meistarann,“ segir Daníel og flettir rólega í plötubunka á borðinu. „Ég fann mig alltaf betur og betur í tónlistinni og þess vegna hef ég enst í þessu í öll þessi ár.“

Breytingar í Belgíu

Árið 1995 stofnaði Daníel fjöllistasveitina GusGus með nokkrum valinkunnum tónlistar- og kvikmyndagerðarmönnum. Sú sveit hefur verið starfandi allar götur síðan þó að meðlimirnir hafi bæði komið og farið. Daníel hefur þó alltaf haldið tryggð við sveitina, sem er sístarfandi enda löngu orðin vel þekkt í danstónlistargeiranum. „Það sem eiginlega olli því að ég fór út í raftónlistarheiminn voru breytingar í tækninni. Framfarirnar. Þessi heimur var allt í einu orðinn svo fjölbreytilegur. Þarna voru hlutirnir að gerast! Tæknin bauð upp á svo miklu meiri möguleika en þegar ég var að byrja að gera tónlist með Nýdönsk. Ég heillaðist af þessu, sagði skilið við Nýdönsk í nokkur ár og hellti mér út í raftónlistina af fullum krafti og kannaði möguleikana sem hún hafði upp á að bjóða. Svo tók ég mér langt hlé. Flutti til Belgíu með þáverandi eiginkonu minni, Gabríelu Friðriksdóttur, gerði sólóplötu og vann í myndlistinni með Gabríelu. Meðal annars lék ég og tók þátt í að leikstýra og klippti þær kvikmyndir sem hún gerði á þessum tíma.“

Draumastarfið að vera farandsöngvari

Árið 2005 flutti Daníel aftur til Íslands eftir dvölina í Belgíu. Sama ár gaf hann út sólóplötu en á því herrans ári 2007 fór hann aftur á fullt með GusGus.

„Þessi útlegð frá GusGus tók sjö ár ...

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.