fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
433Sport

Góður Pajero-jeppi sem tók á sig launalækkun til að vera áfram í KR

Hörður Snævar Jónsson
Föstudaginn 11. maí 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er bara þokkalega sáttur, svona eftir þessa leiki þá værum við til í að vera með fjögur stig en það er ekkert galið að vera með þrjú stig. Við erum búnir að fara á tvo af erfiðustu útivöllum deildarinnar, við vorum helvíti svekktir að hafa náð að jafna gegn Val en missa það niður svo. Það var svekkjandi, við vonandi lærum af því og erum með þrjú stig núna. Þetta voru sterk þrjú stig í Garðabænum. Við erum að koma til baka í báðum leikjum og erum að sýna karakter, við klárum leikinn í Garðabæ eftir að hafa verið undir. Það er mikill karakter í okkur, þegar Stjarnan jafnar í 2-2, þá hættum við aldrei. Náum sigurmarkinu,“sagði Pálmi Rafn Pálmason, miðjumaður KR og fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, þegar DV ræddi við hann í vikunni. Pálmi hefur farið af stað með látum í sumar, skorað í báðum leikjum KR og virkar með meira sjálfstraust en áður. KR tapaði fyrir Val í 1. umferð Pepsi-deildarinnar en vann góðan sigur á Stjörnunni í 2. umferð.

Pálmi kom heim úr atvinnumennsku haustið 2014 og var afar eftirsóttur biti, öll stærstu lið landsins höfðu áhuga á að fá hann. Pálmi valdi að fara í KR sem gerði marga stuðningsmenn Vals reiða. Pálmi hafði nefnilega átt frábæran tíma í Val áður en hann fór í atvinnumennsku árið 2008. Miðjumaðurinn, sem er 33 ára gamall, hefur mátt þola talsvert mikla gagnrýni síðan hann kom heim, sumt af henni hefur átt rétt á sér en annað ekki.

Vonandi er Rúnar að hitta á rétta blöndu
Rúnar Kristinsson tók við þjálfun KR í vetur eftir magurt ár í fyrra. Rúnar þekkir það að ná árangri sem þjálfari KR en honum til aðstoðar er Bjarni Guðjónsson. Bjarni var einmitt þjálfari KR á fyrsta eina og hálfa tímabili Pálma í liðinu. „Það eru litlar breytingar, þetta er kjarni sem hefur verið lengi saman, það er alltaf kostur. Fyrir tímabilið í fyrra gekk allt í haginn. Við unnum mikið á undirbúningstímabilinu en svo fór að ganga illa þegar mótið var flautað á. Þá vill þetta oft verða þannig að þetta verður ströggl, það var lítið sjálfstraust í liðinu þá. Við höfum náð að snúa þessu, Rúnar og Bjarni hafa verið að prófa hina og þessa útfærslu á leik okkar og hvað hentar okkur best. Það hafa margir spilað og þeir hafa skoðað allt, þeir eru vonandi bara að hitta á rétta blöndu. Við förum inn með svolítið öðruvísi lið í leikinn gegn Stjörnunni en gegn Val í 1. umferð. Þeir eru með fulla stjórn á því hvernig við eigum að koma inn í leiki, svo er það okkar að vinna úr því að gera það almennilega.“

Loksins að spila sína stöðu
Undir stjórn Bjarna og síðar Willums Þórs Þórssonar hjá KR var Pálmi oftar en ekki að spila aftarlega á miðsvæðinu, staða sem hans helstu hæfileikar nýtast ekki vel í. Þetta sá Rúnar og var fljótur að breyta. „Það var eitt af því fyrsta sem Rúnar sagði við mig þegar við töluðum saman, hann vildi hafa mig framar á vellinum en ég hef verið síðan ég kom heim. Planið hefur alltaf verið að ég ætti að vera framar á vellinum, svo hafa bara komið upp aðstæður sem hafa orðið til þess að öll þessi ár hef ég verið aftar á vellinum. Ég hef verið í varnarsinnuðu hlutverki, það er ein ástæða þess að ég hef ekki verið að setja neitt svakalega mikið af mörkum. Ég hef fengið sóknarsinnaðra hlutverk hjá Rúnari, þetta eru bara tvö mörk samt. Ef ég held þessu ekki áfram, þá er það ekkert sem verður talað um.

Mér líður betur í þessari stöðu, þetta hefur verið minn leikur í gegnum tíðina. Koma með hlaup inn í teiginn og vera í kringum markið. Í gegnum ferilinn hef ég náð að skora svolítið af mörkum, flest af þeim eru inni í teig. Ég á það til að koma mér í færi og þá er það undir mér komið að nýta þau, mér líður vel að fá svona frjálst hlutverk. Það gengur vel þessa stundina, svo er það bara spurning hvað þeir vilja gera. Ég geri það sem þjálfararnir segja mér og reyni að gera það vel.“

Gagnrýnin varla ósanngjörn
Þegar talið berst að gagnrýni á leik Pálma síðustu þrjú árin segir hann að hún hafi átt rétt á sér, það hafi hins vegar spilað inn í að hann lék ekki sína bestu stöðu. „Hún hefur örugglega ekki verið ósanngjörn, hún getur varla verið ósanngjörn. Ég veit ekki hversu mikil eða lítil hún var, ætli hún hafi ekki bara verið sanngjörn. Ég held að það hafi verið reiknað með því að ég kæmi heim og myndi skora svolítið af mörkum, ég gerði það ekki. Ég hef oft verið dæmdur af mörkunum sem ég skora, það er alveg eðlilegt að svo sé. Ég hef ekki verið að spila neitt sóknarsinnað frá því að ég kom heim fyrr en kannski núna, ég geri kröfur til sjálfs mín. Ég hef sjálfur ekki verið sáttur við mig, þannig séð. Mér finnst ég hafa skilað mínu hlutverki ágætlega, ekkert hræðilegt, ekkert stórkostlegt. Ég veit vel hvað ég get, mér finnst ég hins vegar vera að fá það út núna, miðað við þá stöðu sem ég spila. Mér finnst ég vera að fá meira út úr því sem ég get. Þessi gagnrýni átti alveg rétt á sér.

Ég hef ekkert verið ósáttur við spilamennsku mína í því hlutverki sem ég hef fengið, ég var ekki ósáttur við sjálfan mig í fyrra. Maður vill alltaf meira, ég býst við miklu af mér. Mitt hlutverk var að koma boltanum í spil og reyna að brjóta niður sóknir, frekar en að búa til og klára. Ég skilaði ekki hræðilegu verki í því að byggja upp spil, ég var þá eðlilega ekki á hinum endanum að reyna að klára eins og núna. Ég vil alltaf meira.“

Framtíðin var óljós
Samningur Pálma við KR var að renna út eftir síðustu leiktíð, það tók talsverðan tíma fyrir KR að klára málin við hann og hann átti í viðræðum við önnur lið. Pálmi vildi hins vegar fyrst og fremst vera í KR, hann telur sig eiga óklárað verk í Vesturbænum. „Það var bara bið og ég var ekkert stressaður nema kannski undir lokin, ég var að því leytinu til ekki sáttur við að vera að fara frá KR þarna. Mér finnst ég ekki hafa lokið því sem ég ætlaði mér hérna, það líkar mér illa. Mig langar að ná takmörkum mínum í KR, langar að vinna titla hérna í Vesturbænum. Það er eitt af því stærra að vinna titla með KR, það er gríðarlega góð stemming í klúbbnum þegar gengur vel. Mig langar að upplifa það, ég var að vonast til þess síðasta haust að við næðum saman. Svo við gætum byggt upp eitthvað gott, vera í baráttu um að vinna eitthvað. Ég fór ekki langt í viðræður við önnur lið, það var í raun ekkert annað í gangi. Það var alltaf í fyrsta sæti að halda áfram, það var aldrei nein alvara í neinu öðru.“

Tók á sig launalækkun
Til að vera áfram í KR þurfti Pálmi að lækka laun sín, hann hafði verið einn launahæsti leikmaður deildarinnar. KR er ekki í Evrópukeppni í ár og hefur félagið ekki sömu fjármuni til að spila úr og áður. Pálmi var meðvitaður um það og eftir að hafa bara verið í fótbolta hefur hann farið út á vinnumarkaðinn. „Það er ekkert feimnismál, ég tók á mig launalækkun. Ég kom heim úr atvinnumennsku og það voru fleiri lið en KR sem vildu fá mig þá, það var þannig. Ég fékk góðan samning, það var aldrei neitt mál. Ég var miklu meira en til í það, ég reiknaði aldrei með því að ég myndi vera áfram á því sama og ég var. Það var líka fínt að fara að reyna að koma sér út á vinnumarkaðinn, reyna að fara að gera eitthvað af viti þar. Það var aldrei neitt vandamál fyrir mig að taka einhverja launalækkun, það var lítið sem ég hugsaði út í það. Ég byrjaði um áramótin hjá VÍS og er bara að gera allt vitlaust þar, ég er í toppmálum þar. Það er öðruvísi að vera að vinna með fótboltanum, ég hef gaman af því. Það var farið að kitla að vinna aðeins, það styttist í að ferlinum ljúki. Það er ekki eins og ég eigi fleiri, fleiri ár eftir. Það er fínt að fara að búa sér til ferilskrá á almennum vinnumarkaði. Ég er ekki enn þá klár í að hætta í fótboltanum, þegar maður hættir að hafa gaman af þessu og líkaminn segir stopp, þá verður maður að hætta og gott að vera með reynslu af vinnu.“

Eins og góður Pajero-jeppi
Þrátt fyrir hækkandi aldur er Pálmi í frábæru formi, hann hefur sloppið vel við meiðsli og segist ekki finna neinn mun á sér frá unga aldri. „7, 9, 13, þá hef ég verið mjög heppinn með meiðsli í gegnum tíðina. Ég breytti aðeins til í vetur og fór í crossfit úti á Granda. Þar voru ég, Óskar Örn Hauksson og Grétar Sigfinnur. Þar vorum við í þjálfun, við vorum látnir taka helvíti vel á því. Á köflum var maður að hugsa hvað í andskotanum maður væri að gera þarna. Hann kom manni í mjög gott stand á stuttum tíma, svo reynir maður að halda sér í frábæru formi. Ég hætti í crossfit þegar ég fór að vinna, núna er það bara vinna og æfa með liðinu. Ég finn ekki neinn mun á mér, ég hef aldrei verið fljótur að hlaupa. Ég hef lítinn hraða að missa, svo lengi sem ég er ekki 25 sekúndur með 100 metrana þá er þetta í góðu lagi. Ég finn ekki neinn mun, ég er í mjög góðu formi og held auðveldlega út í 90 mínútur. Ég vil meina að ég eins og góður Pajero, ég fer frá A til B, geri það alltaf. Fer það ekki hratt en ég fer það.“

Þetta er KR
Þegar Pálmi er spurður um markmið KR í sumar kemur fljótt í ljós að hann er meðvitaður um kröfurnar í Vesturbæ, þær eru alltaf að vinna titla. „Við stefnum á Evrópusæti, þar á KR að vera. Þangað stefnum við, auðvitað viljum við svo vera með í baráttu um titilinn. Við ætlum að bæta árangurinn frá því í fyrra, ef það gengur upp sem við erum að leggja upp með. Ef við náum í úrslit, þá viljum við vera með í baráttunni. Þetta er KR,“ sagði þessi geðþekki Húsvíkingur að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Zidane hvattur til að taka við United

Zidane hvattur til að taka við United
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Parið vakti athygli allra í gær – Sjáðu hvað þau gerðu meðan heimurinn horfði

Parið vakti athygli allra í gær – Sjáðu hvað þau gerðu meðan heimurinn horfði
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Byrjunarlið Vals og FH: Markmannsbreyting hjá Hafnfirðingum – Gylfi byrjar gegn uppeldisfélaginu

Byrjunarlið Vals og FH: Markmannsbreyting hjá Hafnfirðingum – Gylfi byrjar gegn uppeldisfélaginu
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Ten Hag mun lækka duglega í launum verði hann áfram á næstu leiktíð

Ten Hag mun lækka duglega í launum verði hann áfram á næstu leiktíð
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Væntanlegur stjóri Liverpool er harðhaus – Gerði Simeone trylltan en óttaðist ekkert

Væntanlegur stjóri Liverpool er harðhaus – Gerði Simeone trylltan en óttaðist ekkert
433Sport
Fyrir 23 klukkutímum

KFA staðfestir komur Þórðar Ingasonar

KFA staðfestir komur Þórðar Ingasonar
433Sport
Í gær

Fylkir kaupir Sigurberg frá Stjörnunni

Fylkir kaupir Sigurberg frá Stjörnunni
433Sport
Í gær

Eyðir hverri einustu mynd eftir að hafa verið fitusmánuð fyrir framan alþjóð – Unnusti hennar er heimsfrægur

Eyðir hverri einustu mynd eftir að hafa verið fitusmánuð fyrir framan alþjóð – Unnusti hennar er heimsfrægur